Staða þjóðkirkjunnar

Föstudaginn 09. maí 1997, kl. 18:18:52 (6074)

1997-05-09 18:18:52# 121. lþ. 120.9 fundur 301. mál: #A staða þjóðkirkjunnar# frv., HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[18:18]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Það er nú svo að ég stend við það sem hér kom fram í ræðu hv. þm. einnig áðan, að kirkjujarðir voru seldar og samningurinn gerður 1907 vegna þess að það var í þágu uppbyggingar landbúnaðar á Íslandi. Greinargerð með lögunum 1907 sem heitir Ástæður fyrir frumvarpi til laga um sölu kirkjujarða, hefst á þessum orðum, með leyfi forseta:

,,Bóndi er bústólpi, bú er landstólpi. Eitt af aðalskilyrðunum fyrir því að svo megi verða er að bændur leggi sem mesta rækt við ábýlisjarðir sínar.

En sé það heimtað að bændur leggi fé og aðra krafta í ábýli sín verður að tryggja þeim, ekkjum þeirra og afkomendum sem best ávextina af fyrirhöfn þeirra.

Sú trygging fæst ekki nema með sjálfsábúð. Því er rétt að styðja hana sem mest.``

Síðan er hér fjallað um það að bæði þjóðjarðir og kirkjujarðir sé ástæða til að selja. Ég hygg að það sé ekki langt bil á milli okkar hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar í þessu efni og jafnvel ekki heldur í öðrum efnum, kirkjulegum. En það kemur einnig fram í þessum lögum frá 16. nóvember 1907 í 16. gr., með leyfi forseta:

,,Eign kirkjujarðasjóðsins skal ávaxta sem óskerðanlegan höfuðstól, og skal árlega leggja við innstæðuna 5% af árstekjunum, ...``

Að sjálfsögðu setur Alþingi Íslendinga lög í landinu og að sjálfsögðu eru öll lög breytanleg, það er vissulega rétt, gangi þau ekki gegn stjórnarskránni. En ég hygg að það sé ekki langt á milli okkar í þessu. Ég var ánægður að heyra flest það sem hv. þm. sagði. En um þessa flökkusögu, Gefur hún enn, eða Gefur hann enn, þá vil ég geta þess að mér er kunnugt um að sagan var fyrst þekkt á Vesturlöndum í tíð Hinriks 8. á Englandi. Það var á 15. öld ef ég man það rétt. Hann var nú hvað harðdrægastur í því að ásælast fé og jarðeignir kirkjunnar á þeirri tíð og var að reyna að koma af sér því orði sjálfur með því að herma það upp á kirkjunnar menn að þeir væru jafnslæmir. Eitthvað svipað hefur nú sennilega verið á ferðum á Íslandi hér áður fyrr.