Landmælingar og kortagerð

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 10:35:50 (6077)

1997-05-12 10:35:50# 121. lþ. 121.8 fundur 159. mál: #A landmælingar og kortagerð# (heildarlög) frv., Frsm. meiri hluta ÓÖH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur

[10:35]

Frsm. meiri hluta umhvn. (Ólafur Örn Haraldsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. meiri hluta umhvn. á þskj. 1076, um frv. til laga um landmælingar og kortagerð.

Við umfjöllum sína um málið fékk nefndin til viðtals við sig allmarga aðila sem til málsins þekkja og að verksviði þessu starfa og voru umsagnir þeirra og viðræður við þá aðila til mikils gagns við þá afgreiðslu sem frv. hefur nú hlotið frá hv. umhvn.

Frumvarpið felur í sér nokkur nýmæli frá núgildandi lögum um Landmælingar Íslands. Fyrst er að telja að lagt er til að lögin nái til málaflokksins í heild í stað stofnunarinnar Landmælinga Íslands eingöngu. Þá er kveðið á um stjórnsýsluhlutverk Landmælinga Íslands og eru þau verkefni sem stofnuninni er ætlað að sinna tíunduð með ítarlegri hætti en áður. Einnig er kveðið á um sérstaka stjórn yfir stofnuninni. Lögð er af skylda til að leggja verkefnaáætlanir fyrir Alþingi en þau ákvæði hafa ekki verið virk. Loks er kveðið á um höfundar-, afnota- og útgáfurétt Landmælinga Íslands.

Meiri hluti nefndarinnar mælir með samþykkt frumvarpsins með allnokkrum breytingum sem gerð er grein fyrir á þingskjali 1077. Ég mun hér í stuttu máli gera grein fyrir helstu breytingum sem meiri hlutinn leggur til.

Í fyrsta lagi er lögð til orðalagsbreyting við 2. gr. frumvarpsins sem miðar að því að gera ákvæðið skýrara.

Þó nokkrar breytingar eru lagðar til við 3. og 4. gr. þar sem fjallað er um stjórn Landmælinga Íslands og forstjóra stofnunarinnar. Eru breytingar þessar í samræmi við þá stefnu sem mótuð hefur verið með setningu nýrra laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins á síðasta þingi. Í tillögunum er gert ráð fyrir nokkrum breytingum á hlutverki stjórnar stofnunarinnar og leitast við að skýra hlutverk hennar nánar. Þannig er gert ráð fyrir að stjórnin móti stefnu stofnunarinnar og hafi eftirlit með því að hún gegni hlutverki sínu. Einnig er gerð tillaga um að forstjóri ráði starfsfólk án afskipta stjórnar. Er hér höfð til hliðsjónar 2. mgr. 38. gr. starfsmannalaganna þar sem segir að forstöðumaður beri ábyrgð á stofnuninni og hann stýri því starfi í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og erindisbréf. Forstöðumaður beri ábyrgð á að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma stofnunarinnar séu í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt. Þannig er eitt af markmiðum starfsmannalaganna að flytja vald og ábyrgð til forstöðumanna ríkisstofnana gagnstætt því sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Því er eðlilegt að forstjóri beri ábyrgð gagnvart ráðherra en stjórn stofnunarinnar hafi í umboði ráðherra eftirlit með þeim þáttum sem eru á ábyrgð forstjóra. Einnig eru menntunarkröfur sem gerðar eru til forstjóra samræmdar starfsmannastefnunni og lagt til að hann skuli hafa sérmenntun á starfssviði stofnunarinnar og reynslu af stjórnun. Er hér miðað við 6. gr. starfsmannalaganna.

Við 6. gr. er lögð til sú breyting að forstjóri geti falið aðilum utan stofnunarinnar að annast framkvæmd ákveðinna verkþátta, en í frumvarpinu er ráðherra falið þetta vald. Þykir eðlilegt að forstjóri sem hefur á hendi daglega stjórn stofnunarinnar taki ákvarðanir á þessu sviði.

Lögð er til breyting við 7. gr. en hún snýr að tilkynningarskyldu þeirra aðila sem stunda landmælingar og kortagerð. Er lagt til að tilkynningarskyldan verði þrengd þannig að hún nái einungis til þeirra sem huga að verkefnum við mælingar og grunnkortagerð. Telur meiri hlutinn að svo breytt sé ákvæðið nægilega rúmt til að Landmælingar Íslands geti gegnt samræmingarhlutverki því sem stofnuninni er ætlað en að óþarft sé að stofnuninni sé tilkynnt um allar mælingar og kortagerð sem fram fara í landinu.

Þá er lagt til að 8. gr. verði felld brott en þar er kveðið á um skyldu allra sem láta mæla, mynda eða gera uppdrætti af landi til að skila fullkomnum mæligögnum til Landmælinga Íslands ef óskað er eftir. Líta verður á ákvæðið í samhengi við 11. gr., um afnotarétt af gögnum í vörslu Landmælinga Íslands, og 12. gr., um tekjur stofnunarinnar. Þá er einnig nauðsynlegt að líta til ákvæða samkeppnislaga og laga um höfundarrétt. Telja verður að afhendingarskylda sú sem kveðið er á um í 8. gr. standist ein og sér en sala stofnunarinnar á upplýsingunum í framhaldinu stangist á við ákvæði höfundalaga þar sem afhending gagnanna felur ekki í sér framsal höfundarréttar. Þá verður að telja að sú kvöð sem 8. gr. leggur á þá aðila sem safna saman og selja aðgang að upplýsingum um landmælingar og kortagerð og heimild 12. gr. til sölu þeirra takmarki möguleika framangreindra aðila til þess að selja aðgang að upplýsingum.

Einnig er lagt til að 9. gr. verði felld brott en þar er kveðið á um gerð verkefnaáætlunar. Telur meiri hlutinn ákvæðið óþarft.

Lagðar eru til breytingar á 12. og 13. gr. Annars vegar eru lagðar til breytingar á 1. og 2. tölul. 12. gr. sem miða að því að skýra ákvæðið. Þannig er gert ráð fyrir að aðeins verði kveðið á um að Landmælingar afli sér tekna með sölu á sérhæfðri þjónustu og upplýsingum. Ekki þykir ástæða til að hafa ítarlegra ákvæði í lögum heldur eðlilegt að nánari reglur séu mótaðar af framkvæmdarvaldinu. Hins vegar er lagt til að við 2. mgr. 12. gr. bætist ákvæði þess efnis að ráðherra staðfesti gjaldskrá og að 13. gr., þar sem mælt er fyrir um að gjaldskrá skuli liggja frammi og að hún sé háð samþykki ráðherra, falli brott þar sem greinin er óþörf í ljósi breytinga á 12. gr.

Þá er lögð til breyting á 14. gr. þar sem fjallað er um skyldur landeiganda til að heimila umferð um landareign og uppsetningu mælingapunkta. Miðar breytingin að því að takmarka heimildina við framkvæmd laga um landmælingar og kortagerð. Einnig leggur meiri hlutinn til að bætt verði inn málslið þar sem kveðið er á um að þeim sem fara um landareignir í þessu skyni beri að sýna tillitssemi og valda ekki ónæði að þarflausu.

Loks er lögð til sú breyting á gildistökuákvæði frumvarpsins að lögin taki gildi 1. júlí 1997.

Undir meirihlutaálit þetta rita Ólafur Örn Haraldsson, Árni M. Mathiesen, Katrín Fjeldsted, Ísólfur Gylfi Pálmason og Tómas Ingi Olrich. Kristján Pálsson var fjarverandi. Gísli Einarsson skrifar undir álitið með fyrirvara.