Landmælingar og kortagerð

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 10:43:52 (6078)

1997-05-12 10:43:52# 121. lþ. 121.8 fundur 159. mál: #A landmælingar og kortagerð# (heildarlög) frv., Frsm. minni hluta KH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur

[10:43]

Frsm. minni hluta umhvn. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Á þskj. nr. 1063 er nál. minni hluta umhvn. um þetta frv. til laga um landmælingar og kortagerð. Þar kemur fram að ítarlega var fjallað um þetta mál í nefndinni. En niðurstaðan varð sú að við gátum ekki staðið saman að nál. og fyrir því er gerð grein í þessu áliti.

Niðurstaðan eftir umfjöllun nefndarinnar er að hún flytur brtt. í 12 liðum við þetta frv. sem er þó aðeins 16 greinar. Það kemur fram í minnihlutaálitinu að við teljum flestar breytingarnar til bóta en teljum engu að síður ótímabært að afgreiða þetta frv. á þessu þingi. Ástæðan er sú að nú er að störfum nefnd sem umhvrh. skipaði á síðasta ári, eða nánar tiltekið 20. desember 1996, til þess að gera tillögu um mótun stefnu í fjarkönnunarmálum. Hlutverk nefndarinnar samkvæmt skipunarbréfi er að skilgreina þarfir fyrir fjarkönnun, bæði með hliðsjón af kröfunum eins og þær eru í dag sem og fyrirsjáanlegum kröfum, gera tillögur um stjórnskipun og skipulagningu málaflokksins svo sem um samstarf einstakra stofnana og aðila, gera tillögur um framkvæmdina, þar á meðal um ábyrgð og skyldur hins opinbera, gera tillögur um forgangsröðun verkefna sem og notkun, fjármögnun og gjaldtöku.

[10:45]

Í nefndinni eiga sæti fulltrúar þeirra stofnana ríkisins sem nýta þurfa þjónustu Landmælinga Íslands og eru flestar þeirra nú þegar að fást við kortagerð. Þarna munu vera fulltrúar Norrænu eldfjallastöðvarinnar, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Sambands ísl. sveitarfélaga, Orkustofnunar, Verkfræðistofnunar Háskóla Íslands, Veðurstofu Íslands, Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, Hafrannsóknastofnunar og Skipulags ríkisins. Það er ljóst að ýmsir þættir í starfi þeirrar nefndar lúta að efni þessa frv. sem lagt er til að verði að lögum í vor. Nefndin á að fjalla um stjórnsýslu, fjármögnun og samskipti við aðrar stofnanir og ýmsa aðra þætti.

Það liggur fyrir að fjarkönnunarnefndin óskaði eftir því að beðið yrði með afgreiðslu frv. þar til hún hefði lokið störfum en henni er ætlað að skila tillögum sínum til ráðherra fyrir 1. október nk. Eftir mínum upplýsingum gengur starfið mjög vel og stefnir allt í það að skil nefndarinnar verði eins og lagt var fyrir.

Það einkennilega við þetta allt saman er að það var ekki fyrr en raunverulega á elleftu stundu sem nefndarmenn komust á snoðir um þessa nefnd. Þeim upplýsingum hafði ekki verið komið til okkar og ósk fjarkönnunarnefndar var aðeins komið á framfæri við ráðuneytið en ekki við hv. umhvn. þannig að okkur var alls ekki ljóst að hún væri að störfum fyrr en rétt áður en stóð til að afgreiða málið út úr nefnd.

Til þess að stofnun eins og Landmælingar Íslands þjóni hlutverki sínu þarf að ríkja sátt um störf hennar. Ríkja þarf sátt við það fólk sem hjá stofnuninni vinnur og eins við þá sem stofnunin á að þjóna. Mikilvægt er að koma á víðtæku samkomulagi milli opinberra stofnana um það hvernig landfræðileg upplýsingasöfnun og úrvinnsla á að fara fram með sem minnstum kostnaði fyrir ríkissjóð. Gera þarf áætlanir um kostnað við endurbætur og viðhald undirstöðuþátta svo sem landhæðarnets, GPS-grunnstöðva og staðlaðra gagnasafna. Semja þarf um verkaskiptingu milli stofnana og veita þeim svigrúm til útboða vegna gagnaöflunar ef það þykir hagkvæmt.

Hvað varðar hefðbundna kortagerð þarf að skoða þann þátt sérstaklega, m.a. vegna vaxandi notkunar loftmynda, gervitunglamynda og tölvugagna sem ef til vill munu koma í stað hefðbundinna korta.

Það eru skynsamleg vinnubrögð að leiða saman til nefndarstarfa fulltrúa flestra þeirra stofnana sem mál þetta varðar og fela þeim umfjöllun grundvallaratriða í stefnumótun. Það er hins vegar óskynsamlegt að ganga síðan fram hjá slíkri stjórnskipaðri nefnd um fjarkönnunarmál við samningu og afgreiðslu frumvarps sem fjallar að stórum hluta um sömu þætti og nefndinni er ætlað að fjalla um. Það er að mati okkar sem stöndum að þessu nál. léleg stjórnviska að valta yfir þá sem verkin eiga að vinna. Engin rök hafa komið fram fyrir því að þessi lagasetning sé svo brýn að hún geti ekki beðið eftir niðurstöðum fyrrgreindrar nefndar sem eins og fram hefur komið eru líklegar til að sjá dagsins ljós þegar á þessu ári. Því leggur minni hlutinn einfaldlega til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.