Landmælingar og kortagerð

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 11:22:56 (6087)

1997-05-12 11:22:56# 121. lþ. 121.8 fundur 159. mál: #A landmælingar og kortagerð# (heildarlög) frv., Frsm. meiri hluta ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur

[11:22]

Frsm. meiri hluta umhvn. (Ólafur Örn Haraldsson) (andsvar):

Herra forseti. Vegna orða hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar um 9. gr., sem felld var brott, vil ég gera grein fyrir þeirri skoðun meiri hlutans að í 9. gr. koma fram svo sjálfsagðir hlutir í stjórn og starfsemi stofnunar að meiri hlutinn taldi að ekki þyrfti á þessari grein að halda. Þar segir m.a. að gera skuli áætlun til fjögurra ára í senn um verkefni stofnunarinnar. Slík áætlanagerð, hvort sem hún er til fjögurra ára, fimm ára eða annars tíma, er orðin svo sjálfsagður hlutur að ekki þarf að setja það í lagatexta.

Síðan er sagt í greininni sem felld var niður: ,,Skal áætlunin byggjast á raunhæfum fjárhagsforsendum og verkefnum raðað í forgangsröð.`` Menn sjá af þessari upptalningu að það er svo sjálfsagður hlutur af ríkisstofnun að hún skuli miða sig við raunhæfar fjárhagsforsendur og raða að sjálfsögðu upp í verkefnaröð.

Eins er líka tekið fram í greininni sem var felld niður að Landmælingar Íslands skulu senda umhverfisráðuneyti verkefnaáætlunina eigi síðar en 31. maí á undan fyrsta ári áætlunartímabilsins. Þetta er svo nákvæmt og sjálfsagt að óþarfi er að taka það fram í þessari grein og þess vegna var hún fell niður.

Svipað má segja um stjórn stofnunarinnar. Nú hefur stjórnunarþekkingu og reglum og venjum í stjórnun fleygt svo fram að algjörlega er óþarft að setja það mjög nákvæmlega inn í hvern lagatexta sem fjalla á um viðkomandi stofnanir heldur að vitna til þeirrar venju sem skapast hefur í stjórnsýslunni.