Landmælingar og kortagerð

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 11:24:51 (6088)

1997-05-12 11:24:51# 121. lþ. 121.8 fundur 159. mál: #A landmælingar og kortagerð# (heildarlög) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur

[11:24]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta voru merkar upplýsingar sem við fengum frá hv. formanni umhvn. Að það væri svo sjálfsagt mál að gera ætti áætlanir til langs tíma að það væri óþarfi að binda það í lög. Er það til tjóns að binda það í lög? Hafa menn ekki fyrir sér mörg lög um opinberar stofnanir þar sem einmitt er gert ráð fyrir slíkri áætlanagerð? Skyldi nú ekki vera þörf á því einmitt í sambandi við þá starfsemi sem hér fer fram að horfa svolítið fram í tímann og ætla viðkomandi stofnun og þeim sem fyrir henni ráða að draga upp skýra mynd að minnsta kosti fjögur ár fram í tímann sem er lágmark og þarf auðvitað að lýsa lengra fram á veg hverju sinni með nauðsynlegri aðlögun og endurskoðun eins og gert er um áætlanir? Af hverju er minni ástæða til þess að binda það í lög að móta slíka áætlun heldur en t.d. á sviði eins vegamálum, hafnamálum og í málefnum stofnana? Ég man ekki betur en að t.d. hjá Hafrannsóknastofnun Íslands sé það lögbundið að gerðar séu slíkar áætlanir. En hér er í rauninni verið að vísa á það að rústa þá starfsemi sem hér hefur farið fram, bæði með því að veikja þó þetta óburðuga frv. sem hæstv. ráðherra bar inn í þingið og með því síðan að standa þannig að málefnum stofnunarinnar eins og hér hefur verið rætt um milli mín og hæstv. umhvrh. að flytja hana með handahófslegum hætti upp á Akranes með fullkominni óvissu um hvað það hefur í för með sér fyrir stofnunina.

Varðandi stjórnina og stjórnunarþekkinguna og að óþarft sé að setja um það reglur --- nú er verið að setja hér niður reglur af meiri hlutanum. En þær eru mjög óskýrar og ekki til bóta að mínu mati og hlutverk stjórnarinnar hefur verið veikt óeðlilega fyrst gert er ráð fyrir henni á annað borð.