Stofnun Vilhjálms Stefánssonar

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 11:37:50 (6091)

1997-05-12 11:37:50# 121. lþ. 121.9 fundur 364. mál: #A stofnun Vilhjálms Stefánssonar# frv., TIO
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur

[11:37]

Tómas Ingi Olrich:

Virðulegi forseti. Ég vil lýsa ánægju yfir því að þetta mál skuli hafa verið afgreitt úr hv. umhvn. með þeim hætti sem hér liggur fyrir. Það hefur verið samstaða um þetta mál í öllum grundvallaratriðum. Það er einnig ástæða til að þakka bæði hæstv. umhvrh. fyrir frv. sem hér var lagt fram og þá ekki síst upphafsmanni málsins, hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni, fyrir þann áhuga sem hann hefur alla tíð sýnt þessu máli.

Ég hygg að þótt Stofnun Vilhjálms Stefánssonar verði í upphafi ekki stór stofnun þá muni hún geta átt mjög mikinn þátt í að efla rannsóknir á víðu sviði á norðurslóðum. Ég vil aðeins nota þetta tækifæri til að minna á að við Íslendingar eigum afar mikið undir því, bæði menningarlega séð og efnahagslega, að vísindi og þekking á þessum sviðum verði efld. Við eigum hér sameiginlegra hagsmuna að gæta og nágrannar okkar Grænlendingar og Færeyingar og að sjálfsögðu þjóðirnar í austri, bæði Norðmenn, Finnar og Rússar, og þá einnig þjóðirnar í vestri, Kanadamenn og Bandaríkjamenn. En síðast en ekki síst er mikilvægt að við eflum samstarf okkar við Færeyinga og Grænlendinga, nágrannaþjóðir okkar, um verkefni á sviði rannsókna og vísinda sem tengjast norðurslóðum. Ég er því viss um að Stofnun Vilhjálms Stefánssonar mun eiga mjög ríkan og góðan þátt í því að ýta undir þetta fræðasvið í þessum hluta heimsins og lýsi hér með sérstakri ánægju minni með að umhvn. Alþingis skuli hafa náð saman um að ljúka þessu máli.