Varðveisla ósnortinna víðerna

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 11:47:30 (6094)

1997-05-12 11:47:30# 121. lþ. 121.10 fundur 27. mál: #A varðveisla ósnortinna víðerna# þál., KH
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur

[11:47]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég vil aðeins lýsa ánægju með það að nú skuli liggja hér fyrir jákvæð afgreiðsla hv. umhvn. og ég hef ekki ástæðu til að ætla annað en að hv. Alþingi muni samþykkja þessa afgreiðslu nefndarinnar. Tillagan var eins og hér kom fram send allmörgum til umsagnar og 12 bárust. Allir umsagnaraðilar voru jákvæðir í garð þessarar tillögu og tóku mjög undir þann skilning flm., sem hv. umhvn. hefur nú tekið undir og gert að sínum, að nauðsynlegt væri að marka stefnu um varðveislu ósnortinna víðerna landsins og grundvallaratriðið væri að skilgreina hvað við eigum við með þessu hugtaki sem þegar er farið að nota talsvert en liggur ekki ljóst fyrir hvað átt er við.

Upphaflega tillagan var nokkru víðtækari eins og menn kannski muna því hún gerði ráð fyrir að ekki einasta yrði hugtakið skilgreint heldur yrðu að því búnu kortlögð þau svæði sem féllu undir það. Ég tel að í rauninni sé fullur skilningur á því að það beri og verði að gera. Við þurfum auðvitað að gera okkur glögga grein fyrir því hversu rík við erum í raun af þeirri auðlind sem felst í ósnortnum víðernum. Og ég minni á að slíkt starf hefur verið unnið t.d. í Noregi og þar brá nú ýmsum í brún þegar þeir komust að þeirri niðurstöðu að það væri aðeins um 12% landsins sem gætu fallið undir þá skilgreiningu.

Auk þess lögðum við líka til að engar framkvæmdir yrðu ákveðnar né hafnar á miðhálendi Íslands eða á öðrum stórum óbyggðum svæðum fyrr en að þessu verki loknu og settar hefðu verið reglur um varðveislu og nýtingu ósnortinna víðerna. Þessi setning var ekki talin geta verið inni í tillögunni og ég féllst á það þó að ég sæi nú svolítið eftir henni, en það kom fram í ýmsum þeim umsögnum sem nefndinni bárust að þetta væri illframkvæmanlegt og lögðu sumir reyndar til að þessari setningu yrði breytt á þann veg að mælst væri til þess að mjög yrði gætt hófs í framkvæmdum þangað til menn hefðu gert sér grein fyrir hvernig þeir vildu standa að málum.

Ég þarf ekki að hafa frekari orð um þetta, aðeins ítreka ánægju mína með að tillagan hafi fengið svo góða afgreiðslu. Ég held að þetta skipti mjög miklu máli fyrir þá vinnu sem nú er í gangi, bæði þá vinnu sem er við mótun skipulags miðhálendisins og enn fremur við endurskoðun laga um náttúruvernd. Ég ítreka enn einu sinni þakkir mínar til hv. umhvn. og lýsi ánægju minni með þá afgreiðslu sem tillagan hefur fengið.