Varðveisla ósnortinna víðerna

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 11:51:32 (6095)

1997-05-12 11:51:32# 121. lþ. 121.10 fundur 27. mál: #A varðveisla ósnortinna víðerna# þál., Frsm. ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur

[11:51]

Ólafur Örn Haraldsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka vinsamleg orð sem hafa fallið til nefndarinnar vegna þessarar afgreiðslu og tek undir með hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur þar sem hún skýrir hvers vegna tillögunni var breytt eins og hérna liggur fyrir, þ.e. að kortlagning fer nú fram með ýmsum hætti vegna skipulags hálendisins og reyndar ekki aðeins vegna hálendisnefndarinnar svokallaðrar í almennu tali heldur hafa einstaka sveitarfélög líka hafið kortlagningu á hlutum miðhálendisins. Okkur þótti að með því að skilgreiningin væri fengin og menn gætu nýtt hana við þá kortagerð, þá félli hún inn í þá vinnu sem þessir aðilar eru að láta fara fram. Með sama hætti má segja að vandséð var hvernig stöðva mætti allar framkvæmdir þar til þessi skipulagning og stefna lægi fyrir.

Ég vil enn fremur taka undir það og vekja athygli á þeirri miklu vinnu sem núna fer fram við endurskoðun á náttúruverndarlögunum og mér þótti og þykir verulegur fengur í því að fá þessa þáltill. samþykkta og vinnu í framhaldi af henni því ég tel að sú niðurstaða nýtist afar vel til þess að gera náttúruverndarlögin væntanlegu betur úr garði.