Staða þjóðkirkjunnar

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 12:38:00 (6100)

1997-05-12 12:38:00# 121. lþ. 121.20 fundur 301. mál: #A staða þjóðkirkjunnar# frv., KH
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur

[12:38]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Þessi umræða er nú orðin nokkuð löng og þó fyrst og fremst slitrótt. Ég held að þetta sé þriðja atrenna sem við gerum til að ljúka 2. umr. um málið. Ég ætla ekki að lengja hana að ráði en vil þó koma mínum sjónarmiðum á framfæri þar sem ég var utan þings þegar 1. umr. um málið fór fram.

Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands kveður á um trúfrelsi hér á landi, að menn eigi rétt á að iðka trú sína í samræmi við eigin sannfæringu og þeim sé auk þess allsendis frjálst að standa utan trúfélaga og það gera svo sannarlega margir. Þeir munu skipta þúsundum sem hafa valið þá leið og sem næst 10% landsmanna munu hafa kosið sér annan trúarvettvang en þjóðkirkjuna eða að standa utan trúfélaga og munu vera ein 17 trúfélög starfandi í landinu eða söfnuðir. En þrátt fyrir þetta trúfrelsi samkvæmt 63. gr. stjórnarskrárinnar kveður hún svo á um það að hin evangelíska-lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja og fer þá minna fyrir umburðarlyndinu og skilningnum í garð landsmanna. Það er mín skoðun að farsælast væri að skilja algjörlega á milli ríkis og kirkju í stað þess að styrkja og styðja eitt trúfélag öðru fremur og kalla það þjóðkirkju. Það er mín skoðun og það er skoðun margra annarra, líka innan þjóðkirkjunnar svokölluðu, líka meðal presta þjóðkirkjunnar en þetta frv. fjallar nú ekki um það. Það fjallar ekki um aðskilnað ríkis og kirkju heldur fjallar það um tengsl ríkis og kirkju, um fjárhagsleg tengsl ríkis og kirkju þar sem þau tengsl eru efld og hnútum hnýtt á alla enda og kanta og niðurstaðan er í raun og veru á þann veg að henni mætti lýsa svo í stuttu máli að þjóðkirkjan ræður en ríkið borgar.

Menn hafa tekið undir þau sjónarmið að farsælast væri að skilja að ríki og kirkju og það hefur nokkuð komið fram hér í umræðunni. Því hefur jafnvel verið haldið fram að þetta frv. væri liður í aðskilnaði ríkis og kirkju eða a.m.k. að gera kirkjuna sjálfstæðari og það er rétt. Ég get tekið undir það. En hún verður líka að vera fjárhagslega sjálfstæð að mínu mati.

Mér sýnist á öllu að með þessu samkomulagi sem gert hefur verið, og veit raunar að það er skoðun kirkjunnar manna, sé um óhagganlegt samkomulag að ræða sem þetta frv. byggir svo mjög á sem muni standa óbreytt jafnvel þótt numið yrði á brott ákvæði um þjóðkirkju og skyldustuðning ríkisins við hana. Og það er, herra forseti, algjört álitamál í mínum huga hvort þessi löggjöf um þjóðkirkjuna stenst jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu þar sem hér er augljóslega verið að gera þeim mun hærra undir höfði sem tilheyra þjóðkirkjunni en hinum sem tilheyra öðrum trúfélögum, að ekki sé talað um þá sem standa utan allra trúfélaga og er gert að greiða sinn trúarskatt til Háskóla Íslands hvort sem þeim líkar betur eða verr. Og ég hlýt að lýsa undrun minni yfir þessum samningi þjóðkirkjunnar og ríkisins sem er forsenda þessa frv. sem felur í sér slíka verðlagningu á kirkjujörðum að verðgildi þeirra samsvari launagreiðslum kirkjunnar allt inn í blámóðu framtíðarinnar og allt til eilífðar að því er virðist, a.m.k. eftir túlkun kirkjunnar manna sem hafa sett það á blað að samkomulagið muni standa óbreytt jafnvel þótt numið verði úr gildi ákvæði stjórnarskrárinnar um vernd og stuðning ríkisins við kirkjuna og hún yrði þannig ekki lengur þjóðkirkja. Það er skilningur kirkjunnar manna að samkomulagið sé ekki háð stjórnarskrárákvæðinu um þjóðkirkju. Svo nú er búið að binda þetta þeim hnútum að þeirra mati að ekki verði betur gert.

Því fer auðvitað víðs fjarri að þær jarðeignir sem hér um ræðir standi undir rekstri þjóðkirkjunnar eins og til er ætlast. Staðreyndin er sú að íslenska ríkið er með þessu frv. að skuldbinda sig til þess að standa undir öllum útgjöldum þjóðkirkjunnar hvernig svo sem þau þróast og því fer fjarri að tekjur af jarðeignum muni standa undir þeim. Þetta samkomulag er eiginlega með ólíkindum og hefði auðvitað verið hreinlegast að gera þessi jarðamál upp sérstaklega en ætla síðan kirkjunni að sjá um sig fjárhagslega í einu og öllu og fjármagna starf sitt með sóknargjöldum eins og önnur trúfélög þurfa að gera. Eðlilegast væri að ríkisvaldið hefði alls engin afskipti af því eða milligöngu um greiðslur. En einnig mætti hugsa sér að hver og einn landsmanna greiði ákveðið gjald til trúfélaga að eigin vali og þeir sem kysu að standa utan allra trúfélaga fengju að velja hvert slíkt gjald rynni hvort sem það yrði þá til Háskóla Íslands, Kattavinafélagsins, Rauða krossins, Kvennaathvarfsins eða hvers þess sem menn kysu að vilja styðja og vernda svo notað sé það orðalag sem allshn. leggur til í fyrstu brtt. sinni á þskj. 1031.

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu. Þessi sjónarmið eiga sér formælendur að minnsta kosti að hluta til á hv. Alþingi eins og hefur komið fram í umræðunni, að vísu með ofurlítið mismunandi áherslum og með mismunandi niðurstöðum. Ég vildi láta þessi sjónarmið koma fram við þessa umræðu og vegna sjónarmiða minna get ég að sjálfsögðu ekki stutt þetta frv. en mun sitja hjá við afgreiðslu þess.