Staða þjóðkirkjunnar

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 12:45:50 (6101)

1997-05-12 12:45:50# 121. lþ. 121.20 fundur 301. mál: #A staða þjóðkirkjunnar# frv., JónK
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur

[12:45]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég mun ekki lengja þessa umræðu að marki. Það eru örfá atriði sem ég vil taka fram áður en 2. umr. lýkur. Allshn. hefur farið yfir frv. Ég tel að eins og það lítur út nú þá leggi það grunn að farsælu starfi kirkjunnar. Ég er einn af þeim sem telja að kirkjan eigi að starfa í þeim farvegi sem hún hefur gert um árabil. Ég er ekki fylgjandi aðskilnaði ríkis og kirkju. Ég tel að þetta frv. auki þó sjálfstæði kirkjunnar, tel það rétt skref. Ég tel að það auki áhrif leikmanna í kirkjunni, bæði með auknum áhrifum á kirkjuþingi og eins leikmannastefnu sem er tekin inn í frv. aftur. Ég tel að það búi til ásættanlegan farveg fyrir ágreiningsmál innan kirkjunnar. Það atriði sem kannski hafa orðið mestar umræður um og skiptar skoðanir eru um er hvernig staðið er að ráðningu presta og endurráðningu þeirra. Ég er á því að farsælast sé að þröskuldar séu í því að segja upp presti sínum, að það verði ekki skyndiákvörðun og frv. gerir ráð fyrir að svo sé. Ég tel, þó ég hafi átt hlut í því að undirbúa frv. eins og það leit út, að þetta sé ásættanleg niðurstaða enda var ætíð fyrirvari um þetta atriði.

Kirkjan á djúpar sögulegar rætur í þjóðinni. Hún er stór þáttur í menningu þjóðarinnar og siðvenjum. Ég ætla ekki að hætta mér út í trúarlegar umræður hér en kirkjan á afar djúpar rætur í daglegu lífi manna og þau stjórnarskrárákvæði sem um hana eru eru af því sprottin.

Hvað varðar fjármálaleg samskipti þá hef ég ætíð litið á þetta sem niðurstöðu. Ég hef ekki litið á það sem átök um krónur eða aura sem geti byggst á mati margar aldir aftur í tímann sem ekki er hægt að vefengja. Þetta er niðurstaða og samningur um að arðurinn af kirkjueignum gangi til þess að greiða laun prestanna.

Ég hef ekki heyrt rök fyrir því, en ætla þó ekki að lengja umræðu með miklum bollaleggingum þar um, hvernig kirkjan mundi þróast með aðskilnaði ríkis og kirkju. Mér finnst vanta inn í þessa umræðu nákvæmari umræður um það hvert við stefnum þá, hvort þátttaka ríkisvaldsins í rekstri kirkjunnar og tengsl trúarlífs á vegum þjóðkirkjunnar og ríkisvaldsins hafa verið þjóðinni fjötur um fót. Ég ætla ekki að hætta mér út í þá umræðu að þessu sinni enda fjallar þetta frv. ekki um aðskilnað. Það gerir ráð fyrir óbreyttu ástandi að því leyti til og frv. gerir ráð fyrir því að ákvæði stjórnarskrárinnar standist að þessu leyti enda þyrfti að bera fram frv. til stjórnskipunarlaga ef ætlunin væri að stíga það skref. Það verður ekki stigið nema með stjórnarskrárbreytingu. Ég vil aðeins geta þess að mér finnst þá umræðu vanta. Ég er ekki að lýsa eftir henni í sambandi við þetta frv. því eins og ég segi þá fjallar það ekki um þau mál.

Ég vona að málið nái hér fram að ganga og það verði trúarlífi og kirkjulegu starfi í landinu til styrktar.