Staða þjóðkirkjunnar

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 12:51:33 (6102)

1997-05-12 12:51:33# 121. lþ. 121.20 fundur 301. mál: #A staða þjóðkirkjunnar# frv., HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur

[12:51]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Ekki vil ég heldur lengja umræðuna að nokkru marki sem hefur verið á margan hátt gagnleg. Það sem mestu skiptir og upp úr stendur er að þjóðkirkjan annist sitt veigamikla hlutverk í samfélaginu, það hlutverk sem flestir þekkja úr sóknum og safnaðarstarfi kirkjunnar. Það er það sem sker úr um framtíð hennar sem þjóðkirkju, ekki það hvort hún á jarðir í framtíðinni. Ef hún nýtur ekki trausts og stuðnings þorra þjóðarinnar þá tekst henni ekki heldur að lifa út á jarðeignir. Hún er til þess að þjóna á grundvelli játninga sinna. Hún er kirkja Íslendinga almennt og hluti af mannlífinu, tilbúin með þjónustu sína fyrir hvern sem er og hvenær sem er. Starf og umfang þeirrar þjónustu hefur vaxið á undanförnum árum með meiri og meiri fjölbreytni.

Herra forseti. Ég vil aðeins benda á að þeir aðilar sem af hálfu ríkis og kirkju hafa annast samningagerð um afhendingu kirkjueigna til ríkisins hafa unnið sitt verk samviskusamlega fyrir báða aðila. Það er ekkert einhlítt eða auðsætt hvort hefur meiri hag af samkomulaginu um eignamál kirkjunnar, ríkið eða þjóðkirkjan. Aðalatriðið er að þjóðin hafi hag af samningnum. Kirkjan var sjálfri sér nóg um allan sinn rekstur um aldir og fram undir síðustu aldamót enda þótt veraldleg yfirvöld hefðu á vissum tímaskeiðum gert eignir kirkjunnar upptækar að hluta. En nú hafa í umræðunni sumir hv. þm. sagt að kirkjan sé að semja af sér. T.d. var það svo í máli hv. þm. Svavars Gestssonar. Hann talaði um við 1. umr. að kirkjan væri að láta mikið, mjög mikið. Þetta væri ein stærsta eignaupptaka ríkisins á einu bretti í sögunni. Aðrir hafa hins vegar talað um að ríkið sé að semja af sér eins og komið hefur fram í umræðunni í dag. Um þetta eru skiptar skoðanir en ég hygg að þeir aðilar sem hafa um fjallað í nefnd ríkis og kirkju hafi unnið sitt starf samviskusamlega, vissulega ekki þannig að þeir geti sýnt reikning upp á krónur og aura en að báðum sé í hag að svona verði málum komið og sérstaklega þjóðinni.

Herra forseti. Í dag veltur tilvera þjóðkirkjunnar á því hvernig hún rækir hlutverk sitt sem kirkja. Það veltur ekki á jörðum heldur gjörðum. Sá lagarammi sem hér verður væntanlega samþykktur eykur mjög sjálfstæði kirkjunnar. Tengslunum er breytt milli ríkis og kirkju. Kirkjan tekur meiri ábyrgð á ytri málum sínum, en á innri málum hefur hún haft fullt vald alllengi. Frv. gefur færi á því að kirkjuþing setji samræmdar reglur og tryggi réttarstöðu og kveði á um skyldur þeirra fjölmörgu starfsmanna sem ráðist hafa í störf hjá söfnuðum þjóðkirkjunnar, eins og organista, kirkjuvarða og starfsmanna í barna- og æskulýðsstarfi og þannig mætti lengi telja. En á hinn bóginn falla nú niður ýmiss lög sem eru í gildi um þjóðkirkjuna og einstaka starfsmenn jafnvel þannig að lagaramminn verður miklum mun einfaldari og skýrari. Það mun auðvelda kirkjunni störfin og enn fremur það að ekki verða allt of margir kallaðir úr safnaðarstarfinu, prestar og leikmenn úr safnaðarstarfi, til þess að fjalla um á kirkjuþingi þau mál sem eru sameiginleg og þarf að ræða þar. Það þjónar engum jákvæðum tilgangi að allt of stór hópur þessa ágæta fólks sé bundinn við reglugerða- og starfsreglnasmíð. Það er með öðru og lýðræðislegra fyrirkomulagi gert í söfnuðum, á sóknarnefndarfundum, héraðsfundum og prestastefnu auk kirkjuþings þannig að allir geta komið að þessum málum sem það á annað borð vilja.

Herra forseti. Að endingu þessi orð. Ef kristin trú væri tekin burt úr samfélaginu og allt sem minnti á Krist og kristna trú, hvað verður eftir? Verður það betra þjóðfélag, fordómalausara, umburðarlyndara eða gleðilegra? Svari því hver fyrir sig.