Staða þjóðkirkjunnar

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 12:57:11 (6103)

1997-05-12 12:57:11# 121. lþ. 121.20 fundur 301. mál: #A staða þjóðkirkjunnar# frv., Frsm. SP
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur

[12:57]

Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka hv. þingmönnum fyrir þessar umræður. Ég hygg að þetta mál liggi nokkuð skýrt fyrir af hálfu allshn. en vil fá að koma hér að örfáum athugasemdum. Það liggur fyrir brtt. þess efnis að þrefalda fjöldann á kirkjuþingi en halda sömu hlutföllum. Ég man ekki til þess að neinar umsagnir eða ábendingar af nokkru tagi hafi borist allshn. um að þörf sé á þessari fjölgun á kirkjuþingi. Þar að auki leggur nefndin til að leikmannastefna verði aftur tekin inn í frv. Það eru sérstakar reglur hvernig staðið er að vali fulltrúa á kirkjuþing og auðvitað koma þeir margvíslegum sjónarmiðum á framfæri þannig að ég sé ekki ástæðu til að fallast á þessa brtt. enda þótt að skilja megi ýmiss rök í því máli.

Flestir umsagnaraðilar bentu á þörf þess að breyta fyrirkomulaginu með æviráðningu presta og allshn. þótti rétt að taka tillit til þess. Þar fyrir utan er búið að móta nýja stefnu í lögum um starfsmenn ríkisins og sú stefna hefur auðvitað verið mótuð hér á hinu háa Alþingi. Fram hjá því verður ekki litið. Þetta mál var auðvitað rætt vandlega í allshn.

Það má líka benda á að um ráðningarmálin eru skiptar skoðanir meðal presta sjálfra og ég held að ég muni það rétt að þetta mál hafi verið rætt sérstaklega á kirkjuþingi og lögð fram tillaga í þessa veru en ekki fengist samþykkt. Efh.- og viðskn. ítrekaði enn fremur skoðun sína í þessu máli eins og fram kemur með nál. allshn. þar sem þeir leggja til þessa breytingu. Allshn. þótti rétt að verða við þeim tilmælum ásamt ýmsum öðrum rökum í þessu máli. Brtt. allshn. leggur þó áherslu á að embætti presta nýtur sérstöðu og að taka beri tillit til þess.

Varðandi brtt. á þskj. 1105, um heildarendurskoðun samningsins þá hefur þessi samningur verið gerður milli ríkis og kirkju og meiri hluti allshn. telur rétt að það sé virt, þetta samkomulag, og að ekki séu rök fyrir að samþykkja brtt. sem kveður á um bráðabirgðaákvæði við frv. um endurskoðun samningsins. Þetta mál var rætt ítarlega í allshn. Hv. þm. Hjálmar Jónsson fór vel í gegnum söguna og skýrði m.a. aðdraganda þessa samnings í ræðu sinni hér í þessu máli.

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka þakkir mínar til nefndarmanna í allshn. fyrir góða vinnu í þessu máli og þakka hv. þingmönnum fyrir umræður um þetta mál sem ég tel afar mikilvægt fyrir okkar þjóðfélag.