Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 14:36:17 (6107)

1997-05-12 14:36:17# 121. lþ. 121.15 fundur 528. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall, barnabætur o.fl.) frv., Frsm. meiri hluta VE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur

[14:36]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. og brtt. meiri hluta efh.- og viðskn. vegna frv. til laga um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Þetta mál var lagt fram í tengslum við þá kjarasamninga sem voru gerðir fyrr á árinu af aðilum vinnumarkaðarins. Meiri hluti efh.- og viðskn. gerir örfáar tillögur til breytinga á frv. Veigamesta tillagan er sú að breyting verði á því ákvæði laganna sem fjallar um samnýtingu persónuafsláttar og felst í því að hafi sambúðarfólk samnýtt persónuafslátt þannig að annar makinn hefur nýtt persónuafslátt hins á staðgreiðsluárinu, skal telja þannig nýttan persónuafslátt þeim fyrrnefnda til góða, en skerða persónuafslátt hins síðarnefnda sem því nemur. Gera skal sérstaka grein fyrir þessari nýtingu með framtali að staðgreiðsluári liðnu. Að öðru leyti eru smávægilegar orðalagsbreytingar og tæknilegar breytingar.

Hæstv. forseti. Ég hygg að ekki þurfi að halda langa ræðu um þetta af hálfu meiri hluta efh.- og viðskn. Þetta mál hefur verið afar vel kynnt bæði í framsöguræðum um það og eins í umfjöllun málsins í framhaldi af því.