Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 14:41:49 (6111)

1997-05-12 14:41:49# 121. lþ. 121.15 fundur 528. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall, barnabætur o.fl.) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur

[14:41]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að láta í ljósi ánægju mína með þó þá tillögu sem hér er upp tekin af hálfu meiri hluta nefndarinnar og minni hluti nefndarinnar raunar lýsir yfir stuðningi við, sem er efnislega samhljóða frv. sem ég flutti og er að finna á þskj. 775. Ég lýsi því yfir sérstakri ánægju minni með þann þátt málsins og vil þakka nefndinni skjót og góð viðbrögð varðandi það að láta það ekki liggja hjá garði.

Á hinn bóginn verður auðvitað ekki hjá því komist að lýsa yfir vonbrigðum með frv. í heild sinni. Það er fullkomlega metnaðarlaust og nær langt í frá þeim markmiðum sem lagt var upp með, þ.e. yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um að bæta stöðu lág- og millitekjufólks í samfélaginu. Fjölmiðlar hafa sýnt fram á hvernig niðurstaða þeirra mála gengur raunar í berhögg við yfirlýst markmið í þeim efnum og þess vegna eru það mér mikil vonbrigði að meiri hluta nefndarinnar skyldi ekki takast að lagfæra þetta upplegg ríkisstjórnarinnar þannig að þær skattabreytingar nái markmiðum sínum, sérstaklega gagnvart þeim hópum sem að var stefnt.

Þarna er, eins og oft áður, eitt í lagi en flest annað í ólagi. Ég þakka nefndinni það sem vel er gert en er óhamingjusamur með þar sem illa er að verki staðið.