Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 14:43:53 (6112)

1997-05-12 14:43:53# 121. lþ. 121.15 fundur 528. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall, barnabætur o.fl.) frv., Frsm. minni hluta ÁE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur

[14:43]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti minni hluta efh.- og viðskn. sem er á þskj. 1173. Auk mín standa að nál. hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson. Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk þessu áliti.

Frumvarpið er tengt kjarasamningum, það byggir á loforði ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga og kveður á um 5 milljarða skattalækkanir á næstu árum sem felast einkum í því að staðgreiðsluhlutfall er lækkað um 4 prósentustig. Jafnframt er barnabótakerfinu breytt þannig að það er algerlega tekjutengt í stað núverandi kerfis ótekjutengdra barnabóta og tekjutengds barnabótaauka. Hátekjuskattur er hækkaður úr 5% í 7% sem þýðir hins vegar að hátekjuskattur er lækkaður. Einnig er kveðið á um að skattleysismörk hækki um 2,5% næstu þrjú ár.

Stjórnarandstaðan tók ásamt stjórnarmeirihlutanum út nokkra þætti í frv. og lögfesti þá fyrir 1. maí. Það voru þættir sem tengdust staðgreiðslu um síðastliðin mánaðamót en ríkisstjórnin sýndi þessu máli hvorki þá virðingu að leggja það nógu tímanlega fram né tala fyrir því þannig að grípa þurfti til sérstakra aðgerða og taka nokkra þætti úr því.

Hins vegar er hér verið að leggja til af hálfu meiri hlutans lögfestingu meginþátta frv. Við í stjórnarandstöðunni höfum ýmislegt við þetta að athuga, bendum m.a. á að skattalækkunin nær upp allan tekjustigann og þeir sem bera mest úr býtum við þessar breytingar er barnlaust hátekjufólk. Það má benda á tillögur Alþýðusambandsins sem vildi ekki láta hækkunina ná alveg upp allar tekjur og einnig hafa hugmyndir um fleiri skattþrep verið viðraðar. Það er hins vegar þannig með þetta mál að óhægt er að gera á því miklar breytingar vegna þess að það var liður í kjarasamningum og ríkisstjórnin lofaði að tryggja framgang málsins þannig að frv. er forsenda þess. Það er ekki vilji stjórnarandstöðunnar að kjarasamningum sé stefnt í hættu vegna þessa máls.

Það er eitt atriði sem við gagnrýnum sérstaklega varðandi frv. og það er fyrirkomulag barnabóta. Af þeim 5 milljörðum er engu varið til að auka barnabætur í þjóðfélaginu. Tilfærsla er hins vegar gerð sem er þannig að teknar eru upp tekjutengdar barnabætur sem almennt kerfi í stað þess að hluti barnabóta er núna greiddur ótekjutengt og síðan hluti tekjutengt.

Skoðun okkar í minni hlutanum er sú að það hefði þurft að hækka barnabætur og draga úr tekjutengingu en barnafólk hefur komið illa út úr skattbreytingum undanfarinna ára. Það hefði jafnvel þurft að afnema tekjutengingu barnabóta og hækka þá barnabætur í áföngum á næstu árum. Það hefði kostað u.þ.b. 5 milljarða en að okkar mati hefði slík stefnumörkun komið vel til greina.

Ekki eru gerðar neinar kerfisbreytingar með frv., herra forseti. Þetta eru smávægilegar lagfæringar --- þó nokkuð hærri tölur en sést hafa áður enda er hér um að ræða frv. sem nær til breytinga á tekjuskattskerfinu næstu fjögur ár. Við lýsum í áliti okkar áhyggjum yfir því hvað tiltölulega fáir einstaklingar eru látnir bera tekjuskatt hér á landi. Við sjáum að millitekjufólk, sérstaklega barnafólk, er að koma mjög illa út úr þessum skattbreytingum og það hefði þurft að skoða þessi mál í víðtækara samhengi. Við sjáum líka hvaða fólk er í fyrirrúmi hjá ríkisstjórninni þar sem hátekjuskattur er nú lækkaður í frv. Við sjáum glöggt að hátekjufólk fær enn einn bónus af hálfu ríkisstjórnarinnar í afgreiðslu frv. eins og kom kannski best í ljós þegar fjármagnstekjuskattsfrumvarp var afgreitt hér á liðnu ári en þá voru það einmitt þeir sem hafa miklar vaxtatekjur, sem oftast eru þá hátekjumenn, sem högnuðust því þeirra skattar voru lækkaðir verulega.

Minni hlutinn mun greiða fyrir þessu máli gegnum þingið þar sem það tengist samningum ríkisstjórnarinnar við verkalýðshreyfinguna. Við styðjum hins vegar sérstaklega þá brtt. meiri hlutans sem er samhljóða því frv. sem hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson lagði fram sem hefur gildi við sambúðarslit eða skilnað, en núverandi fyrirkomulag hefur leitt til íþyngjandi aðstæðna fyrir þá einstaklinga. Hér er því réttlætismál látið ná fram að ganga og ég fagna því að meiri hlutinn hefur fallist á að taka það inn í. Þá brtt. styður minni hluti efh.- og viðskn. Að öðru leyti munum við ekki leggjast gegn þessu frv. Það er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Við í minni hlutanum og stjórnarandstöðunni hefðum kosið aðra útfærslu á skattalækkunum til handa launafólki, einkum gagnvart millitekjufólki og barnafjölskyldum. Við höfum lagt fram fjölmargar tillögur um það efni. Það er ekki hægt að afgreiða þær í tengslum við þetta frv. en okkar tillögur hafa bæði séð dagsins ljós hér á hinu háa Alþingi og verið tekist á um þær við afgreiðslu fjárlaga og við önnur frv. ríkisstjórnarinnar. En við munum að öðru leyti láta þetta mál ná fram að ganga á ábyrgð ríkisstjórnarinnar en styðja þá fyrrgreindu brtt. sem ég lýsti áðan.