Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 14:49:50 (6113)

1997-05-12 14:49:50# 121. lþ. 121.15 fundur 528. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall, barnabætur o.fl.) frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur

[14:49]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Það er harla sjaldan sem það gerist að þingið er að afgreiða skattamál að vori til. Þannig ætti það nú kannski að vera í raun og veru að nægur tími sé til þess að framkvæma og fylgja eftir skattalögum í stað þess sem tíðkast hefur hér á undanförnum árum að alltaf er verið að afgreiða skattafrv. rétt fyrir áramót, oft með miklum breytingum sem nánast enginn tími er til að koma í framkvæmd. Það er auðvitað ekki góð latína að vera sífellt að breyta skattalögum. Engu að síður hefur það gerst á undanförnum árum, ekki síst í tengslum við kjarasamninga, að ríkisvaldið hefur reynt sitt til að liðka fyrir samningum með því að gera breytingar á skattalögum. Reyndar upplifðum við oft á síðasta kjörtímabili hið andstæða, þ.e. að meðan niðurskurðurinn var sem mestur var ekki verið að hlífa þeim sem verst stóðu, en þá tókst stundum að hrinda þeim árásum eins og miklum niðurskurði á barnabótum sem fyrrv. ríkisstjórn hugðist framkvæma.

Það eru einmitt barnabæturnar sem ég vil gera athugasemdir við í þeim breytingum sem hér er verið að framkvæma. Það er umræða sem kemur í raun og veru inn á grundvöll okkar tryggingakerfis og grundvöll þeirra hugmynda sem byggt hefur verið á frá stríðslokum. Eftir heimsstyrjöldina síðari var víðast hvar tekið upp tryggingakerfi í Evrópu, sem að miklu leyti var byggt á hugmyndum Bretans Beveridge, sem hugsaði sem svo að það þyrfti að vera til tryggingakerfi fyrir alla þannig að allir nytu ákveðinna lágmarkstrygginga og ekki væri gerður mannamunur þar á. Ein röksemdin fyrir því var sú að þeir sem verst standa að vígi ættu ekki að finna fyrir því. Og því var það að á sínum tíma var t.d. ellistyrkur tekinn upp hér á landi til allra, sama upphæðin til allra, og þess voru mörg dæmi að þeir sem ekki þurftu á slíkum styrk að halda þáðu hann einfaldlega ekki og var afar illa við að fá slíka greiðslu frá hinu opinbera. En hvað sem því líður þá hafa greiðslur úr tryggingakerfinu tíðkast hér í næstum hálfa öld. Mér er ekki kunnugt um hvenær barnabætur voru teknar upp en þær hafa alla vega tíðkast með ýmsu móti á undanförnum áratugum. Ýmist var veittur sérstakur afsláttur vegna barna, skattafsláttur, eða beinar greiðslur hafa verið af ýmsu tagi og eftir að staðgreiðslukerfi skatta var tekið upp hefur tíðkast að greiða út beinar barnabætur. Ef fólk skuldar skatta, meðlög eða annað sem ríkið er að innheimta þá er þetta jafnað út og fólk fær mismuninn.

Á undanförnum árum hefur sú þróun átt sér stað með barnabætur og barnabótaauka, sem komið var á fyrir nokkrum árum einmitt í tengslum við kjarasamninga, að barnabæturnar hafa verið skornar jafnt og þétt niður en hlutur barnabótaaukans hefur vaxið. Í því felst sú hugsun, sem er í raun og veru grundvallarbreyting á þeirri hugsun sem okkar tryggingakerfi byggðist á, að það ætti fyrst og fremst að styðja þá sem verst standa að vígi, og í sjálfu sér er ég sammála því. Tryggingakerfið á fyrst og fremst að koma þeim til góða sem þurfa á aðstoð að halda en það er töluverður munur á eftir því hvaða bætur við erum að ræða um. Í ýmsum löndum Evrópu er barnabótum beitt til þess að hvetja til barneigna og jafnframt til að bæta hag þeirra sem standa oft illa að vígi, ekki endilega vegna þess að fólk hafi svo lágar tekjur heldur vegna þess að það er svo margt annað og mikill kostnaður sem hvílir á fjölskyldum með lítil börn --- reyndar er ekki orðinn svo mikill munur á, því unglingar kosta nú sitt.

En það sem ég er að reyna að koma að með orðum mínum, hæstv. forseti, er það að mér finnst í að hér skorti grundvallarumræðu um gerð tryggingakerfisins og hvað við viljum með barnabótum. Til hvers erum við að greiða barnabætur og barnabótaauka? Ég er ekki tilbúin til þess, bara svona á einu bretti, að svipta alla barnabótum sem eru yfir ákveðnu tekjumarki, þó að ég vilji að sjálfsögðu styðja mest við bak þeirra sem verst standa að vígi og lægstar hafa tekjurnar, vegna þess að það getur staðið ákaflega misjafnlega á. Ungt fólk getur verið með miklar námsskuldir, það stendur í húsnæðiskaupum og auðvitað skiptir miklu máli hve mörg börnin eru, og þar segja tekjurnar ekki alla söguna. En hér er verið að gera þá breytingu að barnabætur verði alfarið tekjutengdar, þakið er að vísu fært svolítið ofar þannig að skerðingin byrjar ekki eins snemma fyrir þá sem hafa heldur meiri tekjur, þannig að það er verið að reyna að draga úr jaðaráhrifum barnabótanna. En þetta er mál sem að mínum dómi þyrfti að skoða miklu betur. Ég vil eindregið hvetja til þess að við skoðum það alveg sérstaklega og það verði skoðað á milli þinga hvernig staðið er að og hvernig beri að standa að skattalegri aðstoð við barnmargar fjölskyldur eða barnafjölskyldur yfirleitt og hvort réttlætanlegt sé að þó fólk hafi tekjur yfir vissu bili, að þá sé það yfirlýsing samfélagsins að styðja slíkar fjölskyldur ekki á neinn hátt. Er það það kerfi sem við viljum hafa hér?

Í hv. efh.- og viðskn. var nokkuð rætt um þá hlið mála og ekki síst um það hvernig málið snýr að einstæðum foreldrum. Sú umræða sprettur upp alltaf öðru hvoru að einstæðir foreldrar hér á landi fái helst til mikinn stuðning miðað við aðra. Ég vil í þessu samhengi minna á að allar kannanir sem hafa verið gerðar hér á landi á stöðu einstæðra foreldra hafa leitt það í ljós að einstæðir foreldrar, sem eru u.þ.b. 90--95% konur, er sá hópur sem stendur einna verst að vígi. Þar eru meðaltekjur mjög lágar þó sem betur fer séu undantekningar á því, og nefnd Sameinuðu þjóðanna sem kannaði framkvæmd Íslendinga á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna benti alveg sérstaklega á það hve börn einstæðra foreldra hér á landi stæðu illa að vígi vegna lágra tekna viðkomandi foreldris. Sérstaklega var bent á að þetta væri málefni sem þyrfti að athuga og vil ég þar vísa í svör við fyrirspurn sem ég lagði fram á síðasta þingi varðandi úttektir Sameinuðu þjóðanna á því hvernig Íslendingar stæðu að bæði kvennasáttmálanum og barnasáttmálanum. Þarna var um afar athyglisverða athugasemd nefndarinnar að ræða.

Hitt atriðið sem ég ætlaði aðeins að minnast hér á og taka undir gagnrýni stjórnarandstöðunnar er það sem snýr að hátekjuskatti. Hér er auðvitað alls ekki verið að auka skattbyrði á þeim sem hæstar hafa tekjurnar því að þeir sem hingað til hafa greitt hátekjuskatt njóta að sjálfsögðu þeirrar skattalækkunar sem þegar er búið að samþykkja á þinginu og þar af leiðandi er alls ekki verið að færa skattbyrðina yfir á þá sem meira hafa heldur fá þeir lækkun líka. Og í ljósi þess og hvernig ástandið er hér á landi þá sé ég nú ekki beinlínis ástæðu til að lækka skatta á hátekjufólki. Um það má deila hvort rétt sé að koma á tveimur skattþrepum eða útfæra það kerfi frekar. Hér eru auðvitað tvö skattþrep núna með þessum hátekjuskatti en slíkt kerfi er yfirleitt við lýði á Norðurlöndunum, eftir því sem ég best veit, og miklu hærri prósentur en við erum að sjá hér.

Niðurstaða mín er í rauninni sú, hæstv. forseti, að ég held að það sé löngu orðið tímabært að við förum að skoða skattkerfi okkar enn einu sinni í heild. Það þarf alltaf að gera það með vissu millibili, og ekki síst að skoða það í tengslum við tryggingakerfið og þær miklu breytingar og tekjutengingar sem hafa verið gerðar á því. Reyndar er nefnd að störfum sem er að skoða jaðarskattinn en það bólar nú lítið á niðurstöðum þeirrar nefndar. En ég held að kominn sé tími til að skoða þessi mál í heild og fá almennilega yfirsýn yfir það hvar skattbyrðin liggur í raun og veru þó að við höfum að sjálfsögðu grófar hugmyndir um það en stórauka þarf réttlætið í skattkerfinu og fólk er enn að greiða skatta af allt of lágum tekjum.