Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 15:34:56 (6121)

1997-05-12 15:34:56# 121. lþ. 121.7 fundur 256. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (heildarlög) frv., Frsm. ÓÖH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur

[15:34]

Frsm. umhvn. (Ólafur Örn Haraldsson):

Herra forseti. Ég átti þess ekki kost að vera við þá umræðu sem fór hér fram um frv. og er þakklátur fyrir að fá það tækifæri sem nú gefst til að svara og bregðast við þeim spurningum og athugasemdum sem komu fram hjá hv. þm. Kristni Gunnarssyni.

Nefndin gerði þá brtt. við 10. gr. að bætt var við ákvæði þess efnis að þar sem viðurkennd varnarvirki hafa verið reist verði ráðherra og sveitarstjórn heimilt að meta hvort til greina komi að þétta byggð á viðkomandi svæði og þá með hvaða skilyrðum. Telur nefndin eðlilegt að ekki verði ráðist í þéttingu byggðar nema aðstæður séu metnar áður og er eðlilegast að slíkt mat sé í höndum viðkomandi sveitarstjórna og ráðherra sem leita skal álits Veðurstofu og Skipulags ríkisins áður en ákvörðun er tekin.

Umræðan í nefndinni var í þá veru sem ég hef nú sagt. Nefndin telur að sveitarstjórnir eigi að hafa þá ábyrgð og skyldu gagnvart þeim sjálfum og borgurunum að meta, eftir að varnarmannvirkin hafa verið reist, hvort þétta eigi byggð.

Mér er fullljóst að það er ætlun allra þeirra og má segja skilyrði þegar varnarmannvirki eru reist, að menn ætla þeim að vera fullkomlega örugg. Réttilega má spyrja: Hvað þá um þau hús sem standa undir varnarvirkjunum og eru þar fyrir? Hvaða ályktanir má um þau mannvirki draga ef ekki telst ástæða til að þétta byggð? Nefndin vildi að þarna væri varúðarsjónarmið haft uppi og að sveitarstjórnirnar yrðu að standa frammi fyrir þeirri ákvörðun hvort þær meti varnarmannvirkin og aðstæður þannig að rétt sé að þétta byggðina. Ekki eingöngu þetta, heldur líka hitt, að hugsanlega eru á jaðarsvæðum utan varnarmannvirkja einhver þau svæði sem sveitarstjórn gæti talið að væru þess eðlis að ekki væri rétt að þétta byggð á slíkum jaðarsvæðum.

Enn fremur þótti nefndarmönnum eðlilegt að sveitarstjórn stæði frammi fyrir því og tæki þær ákvarðanir hvort þétta ætti byggðina eða færa byggðina til annars svæðis sem talið væri öruggara. Þetta þótti mönnum sýna varúðarsjónarmið, með þessu væri verið að virða sjálfsákvörðunarrétt sveitarstjórnanna og að sjálfsögðu væri við slíkt endurmat leitað til Veðurstofu og annarra aðila sem leitað er til við venjulegt skipulag þegar ákvarðanir eru teknar.