Afgreiðsla efh.- og viðskn. á lífeyrissjóðsfrv.

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 16:19:47 (6129)

1997-05-12 16:19:47# 121. lþ. 122.92 fundur 326#B afgreiðsla efh.- og viðskn. á lífeyrissjóðsfrv.# (aths. um störf þingsins), VE
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[16:19]

Vilhjálmur Egilsson:

Hæstv. forseti. Það kemur mér nú nokkuð á óvart að fulltrúar stjórnarandstöðunnar skuli vera að rífast út af máli sem á auðvitað ekkert að afgreiða. Það var fjallað mikið um þetta mál í efh.- og viðskn. Það var gert ráð fyrir því á föstudaginn að við mundum láta málið gerjast aðeins yfir helgina, m.a. til þess að hægt væri að ræða við aðila vinnumarkaðarins, þ.e. Vinnuveitendasambandið og Alþýðusambandið, um málið. Síðan barst bréf frá þessum aðilum til ríkisstjórnarinnar þar sem óskað var eftir því að málið yrði ekki afgreitt á þessu þingi. Við því var orðið og efh.- og viðskn. barst bréf frá fjmrh. þar sem ríkisstjórnin hvatti til þess að málið yrði afgreitt út úr efh.- og viðskn. Síðan yrði skipaður starfshópur í sumar til þess að fjalla um málið og þá lægi væntanlega fyrir hvort betri samstaða næðist um einhverja aðra lausn heldur en stefndi í í tillögum meiri hluta efh.- og viðskn.

Það er afar brýnt að afgreiða lög um breytingar á lífeyrissjóðakerfinu. Málið snýst um það að það liggja fjölmargar umsóknir fyrir í fjmrn. um breytingar á reglugerðum sem verður að klára. Og ef þessar umsóknir yrðu afgreiddar út og suður eftir þeirri löggjöf sem nú er þá er hætta á því að öll lífeyrissjóðamálin færu í mikla bendu. Með því að afgreiða málið út úr nefndinni er verið að gefa afar skýra vísbendingu um það í hvaða farveg þessi mál eru að fara. Verið getur að samstaða náist um smábreytingu á því en það væri ábyrgðarleysi að klára ekki þetta mál út úr nefndinni til þess að það lægi ljóst fyrir hvernig stefnan er í þessu máli.