Staða þjóðkirkjunnar

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 16:42:20 (6140)

1997-05-12 16:42:20# 121. lþ. 122.1 fundur 301. mál: #A staða þjóðkirkjunnar# frv., KH (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[16:42]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands kveður á um trúfrelsi en hún kveður einnig á um að hin evangelísk-lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja og gerir að því leyti upp á milli trúfélaga og ekki aðeins að því leyti heldur að einnig að því er tekur til fjárhagslegs stuðnings. Með því frv. sem hér er til afgreiðslu er verið að efla og styrkja fjárhagsleg tengsl ríkis og kirkju og búa svo rækilega um hnúta að það verður ekki betur gert, þ.e. í kirkjunnar þágu, og um leið staðfesta þá mismunun sem ríkir milli trúfélaga í landinu.

Í raun má lýsa efni þessi frv. með þeim örfáu orðum að kirkjan skuli ráða öllu en ríkið borgi brúsann. Ég get ekki stutt þetta frv. né heldur þær brtt. sem hér liggja fyrir. Þetta frv. er að sumu leyti staðfesting á ákvæðum stjórnarskrárinnar en að öðru leyti andstætt henni. Ég kýs því, herra forseti, að sitja hjá við afgreiðslu frv. og tillagnanna.