Staða þjóðkirkjunnar

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 16:43:59 (6141)

1997-05-12 16:43:59# 121. lþ. 122.1 fundur 301. mál: #A staða þjóðkirkjunnar# frv., HG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[16:43]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég ræddi þetta mál við 1. umr. og reifaði þar ýmis viðhorf sem hér er ekki rúm til að minna á. En í 3. mgr. 1. gr. frv. segir, með leyfi forseta:

,,Skírn í nafni heilagrar þrenningar og skráning í þjóðskrá veitir aðild að þjóðkirkjunni.``

Ég hefði talið að menn ættu ekki að vera að blanda sér í flókin kirkjuleg málefni og þrætuepli sem hafa fylgt kirkjunni allt frá a.m.k. kirkjuþinginu Níkeu vorið 325 og löngu síðar alveg yfir í hina evangelísk-lútersku kirkju, að fara að taka inn í lög tilvísun í heilaga þrenningu. Það er fyrirbæri sem er auðvitað alveg sjálfsagt að ræða í trúfélögum og hafa afstöðu til en það á ekki að taka inn í lög og tengja skírn. Með vísan til þessa treysti ég mér ekki til að styðja þessa 1. gr. málsins og harma að ekki skuli hafa verið felld niður þessi tilvísun í þetta merkilega fyrirbæri sem lengi hefur haldið vöku fyrir sumum, heilaga þrenningu.