Sérákvæði laga er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 18:26:54 (6163)

1997-05-12 18:26:54# 121. lþ. 122.23 fundur 189. mál: #A sérákvæði laga er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[18:26]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hvaða orð og hugtök skyldu koma oftast fram í þeim lagabreytingum sem hér eru til umræðu? Það er orðið forstjóri og forstöðumaður. Þessar lagabreytingar ganga nær eingöngu út að styrkja forstjóravald.

Nú mætti færa rök fyrir því að í sumum tilvikum sé eðlilegt að styrkja forstjóravald, svo framarlega sem saman fer vald og ábyrgð. Því er ekki að heilsa með þessum lagabreytingum. Hér er verið að draga úr lýðræðislegu eftirliti. Hér er verið að auka geðþóttavald forstöðumanna og forstjóra. Hvernig skyldi þetta koma fram? Hvernig skyldi það koma fram í þeim breytingum sem hér eru til umræðu? Ég sé að hv. formaður efh.- og viðskn. hristir höfuðið og telur að hér sé farið með rangt mál, hér sé ekki verið að auka forstjóravald á kostnað lýðræðislegra vinnubragða. En staðreyndin er sú að þar sem forstöðumenn stofnana hafa verið háðir lýðræðislega skipuðum stjórnum, er dregið úr áhrifum þessara stjórna en valdsvið forstöðumannsins og forstjórans aukið að sama skapi. Þetta kemur t.d. fram við ráðningu starfsmanna. Þar sem forstjóri eða forstöðumaður hafði áður þurft að leita álits eða fara að tillögu stjórnarnefndar, er þetta sett inn á hans borð alfarið með þessum lagabreytingum. Nú jánkar hv. formaður efh.- og viðskn. Þetta á við í fjölmörgum stofnunum, t.d. Vinnueftirlitinu. Forstöðumaður Geislavarna þarf ekki lengur að hafa samráð við stjórn sinnar stofnunar. Þannig mætti áfram telja fjölmargar stofnanir sem hér eru tilgreindar, hvort sem það er Þjóðskjalasafn, Þjóðminjasafn, skólastjórar eða aðrir sem í hlut eiga.

[18:30]

Maður veltir fyrir sér hvað það er sem á að vinnast með þessum móti. Er þetta þunglamalegt kerfi sem menn eru að setja hér til hliðar? Ég held ekki. Ég held að í flestum tilvikum sé um lýðræðislegt aðhald að ræða. Hér er einvörðungu um lýðræðislegt aðhald að ræða. (Gripið fram í: Og faglegt.) Og faglegt þess vegna, það er rétt. Að koma í veg fyrir það að einn maður geti ráðskast með heilar stofnanir. En öll hugmyndafræði ríkisstjórnarinnar gengur einmitt út á þetta --- að efla forstjóravaldið. Og það var alveg hárrétt sem kom hér fram í máli hv. þm. Ágústs Einarssonar áðan að allar lagabreytingar ríkisstjórnarinnar hafa gengið út á þetta. Breytingarnar á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna gengu út á þetta --- að efla forstjóravaldið og draga úr lýðræðislegum áhrifum starfsfólks. Núna er einnig verið að draga úr lýðræðislegum áhrifum að ofan, þeirra stjórnarnefnda sem Alþingi þess vegna hefur skipað til að gegna stjórnunar- og eftirlitshlutverki. Ég held að það sé hægt að fullyrða að í allflestum tilvikum láta stjórnarnefndir stofnana forstöðumenn og stofnanirnar sjálfar fara sínu fram. Þetta er eins konar öryggisventill sem er settur inn í stofnanir sem verið er að taka hér burt með þessu lagafrv. Það er það sem er að gerast. Og þetta tel ég vera afar varhugavert.

Það er annað sem gerist með þessum lagabálki öllum. Hér er verið að staðfesta hina svokölluðu fimm ára ráðningu forstöðumanna. Og ekki bara forstöðumanna heldur einnig lögreglumanna, fangavarða og tollvarða. Það er svo undarlegt þegar menn byrja að flækja sig í kerfismennskunni eins og meiri hluti efh.- og viðskn. hefur greinilega gert. Búið er að binda sig í það að til er eitthvað sem heitir embættismenn samkvæmt skilgreiningum nefndarinnar og lagalegum skilgreiningum nú, eftir að breytingar voru gerðar á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna eða ríkisstarfsmanna er til nokkuð sem heitir embættismenn og embættismenn sem skulu ráðnir til fimm ára í senn. Síðan er þessi skilgreining yfirfærð á aðra hópa sem gegna allt öðru og mjög ólíku hlutverki í hinu opinbera kerfi. Og þar erum við komin að lögreglumönnum, fangavörðum og tollvörðum.

Nú má náttúrlega deila um það hversu skynsamleg þessi fimm ára ráðning á embættismönnum er. Hugsunin á bak við hana er margþætt. Í fyrsta lagi er það sjónarmið uppi að menn vilji tryggja breytingar í stjórnun stofnana, að menn ílendist þar ekki lengi og að nýtt blóð komi til sögunnar og þess vegna þurfi að hafa þessa fimm ára ráðningu. Það er náttúrlega svo með flesta almenna starfsmenn hins opinbera að það er hægt að segja þeim upp störfum með þriggja mánaða fyrirvara og hefði verið hægt að hafa sama hátt á gagnvart embættismönnunum --- forstöðumönnum stofnana. En það má vel vera að skýringin á því að menn vilja hafa þennan hátt á sé sú að það sé auðveldara að koma þessum breytingum við ef eitthvert skipulag er á hlutunum --- á fimm ára fresti skuli endurskoða ráðningartímann. Og sumir vilja jafnvel ganga svo langt að í öllum tilvikum eigi þá að auglýsa stöðuna.

Ég er einn af þeim sem eru ekki mjög hlynntir þessu fyrirkomulagi. Reyndar er ég á þeirri skoðun að það eigi að vera hægt að skipta um stjórnendur ef þeir reynast óhæfir. Ég tel einnig að það sé ágætt að fá tíðari og örari mannaskipti í sumum tilvikum. En ég er ekki viss um og hef ekki sannfærst um þessi breyting sé til góðs og hafi þau áhrif sem menn ætla. Þessar röksemdir um tíð mannaskipti í stjórnunarstöðum hjá ríkinu eiga ekki við þegar kemur að lögreglumönnum, fangavörðum og tollvörðum og óskiljanlegt að þessar starfsstéttir séu settar undir þetta ákvæði. Það eina sem skýrir þetta er embættismannasamnefnarinn. Þeir eru skilgreindir sem embættismenn og meiri hluti efh.- og viðskn. kemst ekki út úr eigin kerfismennsku og verður að halda þessum starfshópum í sama ráðningartímanum og forstöðumönnum sem einnig eru embættismenn.

Nú er það svo að víðast hvar annars staðar, t.d. á Norðurlöndum, hafa menn búið svo um hnútana að þessar stéttir njóta traustrar ráðningarfestu og þótt það eigi vissulega að vera svo að hægt eigi að vera að losa sig við menn sem ekki standa sig í stykkinu, ekki gegna sínu starfi --- að sjálfsögðu á að vera hægt að losa sig við þá einstaklinga úr starfi --- þá á ekki að vera hægt að bola mönnum úr starfi sem hugsanlega gegna sínu starfi of vel að mati yfirmannsins. Og þar er komin skýringin á því að menn vilja tryggja ráðningarfestu þessara stétta betur en annarra. Þetta hafa Norðurlandamenn hugsað til hlítar. Við vitum að það hafa iðulega komið upp deilur hér. Ég minnist t.d. deilna á milli tollvarða og fjmrh. fyrir ekki svo mörgum mánuðum þar sem sló verulega í brýnu. Ég þakka nú bara guði fyrir að þessir tollverðir bjuggu þó við nokkra ráðningarfestu. Það eru dæmi þess, ég leitaði þeirra ekki hér á landi, en það eru dæmi þess að lögreglumenn hafa rannsakað viðkvæm mál sem snerta yfirmenn þeirra og pólitíska áhrifamenn í þjóðfélaginu. Það er af þessum ástæðum sem menn hafa viljað hyggja sérstaklega að ráðningarfestu þessara stétta. Það á að vera hægt að bola óhæfum mönnum út, losa sig við óhæfa menn, segja þeim upp störfum ef þeir vanrækja skyldur sínar, ég tala nú ekki um ef þeir brjóta lög, en það á að vera erfitt að bola mönnum úr embætti að ósekju. Og nú eru menn að setja og festa inn í lög að á fimm ára fresti skuli ráðningaröryggi þeirra stefnt í voða, það gerist sjálfkrafa. Ég spyr hvort menn hafi virkilega hugsað þetta alveg til hlítar.

Ég vitna í álitsgerðir sem hafa komið fram hjá bæði Tollvarðafélaginu og Landssambandi lögreglumanna þar sem þeir gagnrýna þessa skipan mjög harkalega. Í áliti Landssambands lögreglumanna um þessa fimm ára ráðningu segir m.a., með leyfi forseta:

,,Það að skipa lögreglumenn til fimm ára í senn er að mati framkvæmdastjórnar óviðunandi staða með hliðsjón af réttindum og skyldum lögreglumanna. Hefur komið í ljós á þeim tíma sem liðinn er, frá því samhljóða ákvæði var lögfest í lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, að margir reyndir lögreglumenn sem þegar hafa ótímabundna skipun, sækja ekki um stöðuhækkun innan lögregluliðsins til að fórna ekki þeirri ráðningarfestu. Kemur þar margt til.

Framkvæmd undangenginna mánaða hefur verið með þeim hætti, að lögreglumenn sem fá stöðuhækkun hafa verið skipaðir til fimm ára. Telja samtök lögreglumanna þetta óviðunandi, enda margyfirlýst við afgreiðslu laganna að ekki stæði til að skerða réttindi þeirra sem þegar nytu ótímabundinnar skipunar. Lögreglumenn eru skipaðir í Lögreglu ríkisins og eru í órofnu starfi hjá sama vinnuveitanda og því vandséð hvernig megi túlka þessa framkvæmd á þann veg.

Lögreglumenn búa við þær aðstæður að sæta ávirðingum og kærum samborgara sinna af margvíslegum ástæðum. Oftar en ekki leiða slíkar kærur ekki til ákæru en í mörgum tilvikum sæta lögreglumenn rannsókn og er á meðan slík rannsókn fer fram, vikið frá störfum tímabundið. Vert er að gaumgæfa, hvort lögreglumaður á þeim tímamótum að fimm ára skipun væri að renna út, fengi áframhaldandi skipun í embætti, við þær aðstæður.

Ljóst er, að lögreglumenn eru flestum stéttum útsettari fyrir slíkum uppákomum. Landssamband lögreglumanna hefur varað við því, með hliðsjón af þjóðfélagsástæðum, auknu ofbeldi og vaxandi brotahneigð, að ótrygg ráðningarfesta kunni að leiða til þess að lögreglumenn veigri sér við að taka óvinsælar en nauðsynlegar ákvarðanir. Væri það skref aftur á bak í ljósi þess að Íslendingar eru helst til óöguð þjóð.``

Í yfirlýsingu frá Tollvarðafélagi Íslands er einnig fjallað um þessa fimm ára ráðningu:

,,Í stað orðanna ,,Ráðherra skipar tollverði til fimm ára í senn`` standi ,,Ráðherra skipar tollverði í embætti, enda hafi þeir staðist próf frá Tollskóla ríkisins``. ... Með hliðsjón af því að löggæslumenn þurfa oft að taka óvinsælar ákvarðanir og þurfa því oft að sæta kvörtunum og kærum þyrfti að tryggja ráðningarkjör þessara starfshópa.``

Svipaðar yfirlýsingar hafa komið frá fangavörðum og óþarfi að endurtaka það allt en í þeim tilvitnunum sem ég las hér upp kemur tvennt fram. Í fyrsta lagi er bent á að þetta eru stéttir sem þurfa að taka óvinsælar og erfiðar ákvarðanir og þurfa þess vegna að búa við trausta og góða ráðningarfestu, auk þess sem ég gat um frekari röksemdir hér áðan varðandi rannsókn upp á við gagnvart yfirmönnum og valdamönnum í þjóðfélaginu. En það er annað atriði sem þessir aðilar benda hér á og er kannski ekki eins mikið langtímavandamál og hitt. Það er að þetta er farið að hamla tilfæringum innan lögreglunnar, að menn forðast að fara úr einu starfi í annað vegna þess að túlkunin hefur verið sú að ráðningin rofni og þeir fari þá yfir á fimm ára ráðninguna. Þetta er hlutur sem mætti huga að.

Þetta eru atriði sem ég vildi benda sérstaklega á, að vara við þessari kerfismennsku sem allt ætlar að drepa hjá meiri hluta efh.- og viðskn. Eftir að hún skilgreindi embættismann með fimm ára ráðningu þurfa allir sem falla undir þann samnefnara að taka allan pakkann, prestarnir eru þess vegna komnir með fimm ára ráðningu líka, ekki til þess að tryggja að það markmið um tíð mannaskipti sem menn settu sér með fimm ára ráðningunni ætti að ná fram að ganga, heldur þvert á móti vegna þess að kerfismennirnir eru búnir að flækja sig svo inn í sinn kerfisvef að þeir geta ekki losað sig úr honum.

Hitt er ekki síður alvarlegt sem ég vék að í upphafi míns máls og tek þar undir þau sjónarmið sem fram komu hjá hv. þm. Ágústi Einarssyni og fram koma í minnihlutaáliti sem hann, hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson og Steingrímur J. Sigfússon skrifa undir, þar sem mjög eindregið er varað við þessu geðþóttavaldi stjórnenda sem verið er að festa hér í sessi. Og það er umhugsunarefni að það orð og það hugtak sem kemur oftast fyrir er forstjóri. Þetta er það sem þeim er hugleiknast, hvernig við förum að því að styrkja og treysta völd forstjórans, draga úr lýðræðislegum áhrifum, draga úr áhrifum lýðræðislega kjörinna fulltrúa --- efla geðþóttavaldið og efla forstjóravaldið. Það er á þessum forsendum sem ég er mjög andvígur þeim breytingum sem hér er verið að kynna og tel þær afar varhugaverðar fyrir stjórnsýslu á Íslandi.