Aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 20:42:42 (6165)

1997-05-12 20:42:42# 121. lþ. 122.24 fundur 90. mál: #A aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum# (EES-reglur, vinnuvernd barna og ungmenna) frv., MS
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[20:42]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Það frv. sem er til umræðu er til staðfestingar á tilskipun Evrópusambandsins um vinnutíma barna og ungmenna. Sem aðilar að hinu Evrópska efnahagssvæði höfum við skuldbundið okkur til að löggilda þessa tilskipun sem og aðrar af sama meiði.

Almennt um þær tilskipanir Evrópusambandsins sem Alþingi lögbindur vegna aðildar Íslands að hinu Evrópska efnahagssvæði þá tel ég að við eigum að gæta þess að ganga ekki lengra en þörf er á í þeim efnum og túlka ekki tilskipanir þrengra en efni standa til þannig að okkar þjóðfélag verði ekki látið búa við afmarkaðri reglur og jafnvel meiri hömlur en þörf er á. Mér hefur fundist gæta nokkurrar tilhneigingar í þá átt í ýmsum málum þar sem Alþingi hefur verið að festa tilskipanir Evrópusambandsins í íslensk lög. Ábendingar komu einmitt fram í þá veru í umfjöllun félmn. um frv. sem nú er til umræðu.

Hvað varðar frv. þá skrifaði ég undir nál. félmn. með fyrirvara eins og fram kemur á þskj. og vil ég gera fyrir mína hönd örlitla grein fyrir þeim fyrirvörum. Þeir eru nokkuð almenns eðlis en fyrst og fremst sýnist mér mjög margt óljóst varðandi framkvæmd þeirra mála sem frv. fjallar um og við umfjöllun um málið í þingnefndinni fékk ég ekki sannfæringu fyrir því að við séum að gera rétt í að lögfesta frv. eins og það liggur fyrir. Frv. gerir ráð fyrir að setja eigi hinar ýmsu reglur um framkvæmd laganna eftir lögfestingu frv. án þess að þingið setji um það skýrar línur hvernig það skuli gert. Valdið er einfaldlega framselt stofnunum og embættismönnum utan þingsins. Það hlýtur að orka tvímælis að þetta sé gert á þann hátt sem hér um ræðir.

Þjóðfélag okkar hefur öðrum þræði einkennst af því gegnum tíðina að börn og ungmenni hafi tekið þátt í atvinnulífi og ýmissi starfsemi á margvíslegan hátt. Við höfum almennt talið það til bóta fyrir ungt fólk að öðlast reynslu í atvinnulífi og starfsemi þjóðfélagsins á ýmsum sviðum. Til dæmis hygg ég að flestir hv. þingmenn hafi þá reynslu að hafa stundað einhverja atvinnu á unglingsárum, unnið í fiski, við landbúnaðarstörf, borið út blöð, selt merki og gætt barna yfir sumartímann. Sérstaklega er þetta einkennandi víða úti á landsbyggðinni. En samkvæmt frv. eru reistar nokkrar skorður við þessu öllu saman.

Tilskipun Evrópusambandsins byggir að mínu mati á allt öðrum þjóðfélagslegum forsendum en við búum við og höfum gert. Víða í Evrópu er glímt við mikið atvinnuleysi o.s.frv. og því má álykta að tilskipunin sé m.a. tilkomin til að minnka atvinnuleysi þeirra sem eru komnir yfir unglingsaldur.

Ég vil taka það skýrt fram að ég er ekki að mæla með því að börn og unglingar séu látnir þræla við erfiða vinnu. Hins vegar tel ég að sú hætta sé fyrir hendi að lögleiðing þessa frv. muni leiða til þjóðfélagsbreytinga hér á landi sem felast í því að börn og ungmenni verði útilokuð frá því að taka þátt í ýmiss konar starfsemi sem hingað til hefur þótt sjálfsagt og eðlilegt í þjóðfélaginu og alls ekki verið til nokkurs skaða fyrir okkar unga fólk. Almennt gerir frv. ráð fyrir því að vinna barna verði bönnuð. Hins vegar er opnað fyrir óskilgreindar undanþágur frá þessari meginreglu. Til dæmis er óljóst hvort börn megi bera út blöð, selja merki o.s.frv. Slíkt má aðeins með sérstakri undanþágu.

Sama má segja um það t.d. að alls óljóst er hvort ungmenni megi starfa við sjómennsku af einhverju tagi. Veita þarf undanþágu frá lögunum til að slíkt verði heimilt.

Eitt dæmi enn vil ég nefna en ég túlka ákvæði frv. sem svo að unglingar yngri en 13 ára eða réttara sagt börn megi ekki annast barnagæslu sem hefur verið mjög algeng um langan tíma. Hér á ég fyrst og fremst við barnapössun sem þekkt er um land allt þegar unglingar gæta barna hluta úr degi t.d. yfir sumartímann. Samkvæmt ákvæðum frv. þarf að koma til sérstök undanþága í einhverjum reglum sem setja þarf eftir að þetta frv. verður að lögum.

Ég hef dregið fram örfá atriði sem gera það að verkum að ég skrifa undir nál. félmn. með fyrirvara. Ýmis fleiri dæmi mætti nefna í þessu sambandi. Mér finnst allt of margt vera óljóst í málinu og tel að með lögfestingu frv. felist ákveðin hætta á miklum hömlum gegn atvinnuþátttöku barna og ungmenna sem er þeim nauðsynleg og ekki síður nauðsynleg okkar þjóðfélagi almennt. Hins vegar er ýmislegt jákvætt í frv., t.d. það að settar verði skorður hvað varðar vinnutíma barna og ungmenna sem hefur í mörgum tilfellum verið óhóflegur og ekki til samræmis við hagsmuni viðkomandi einstaklinga. Þá má einnig segja að frv. komi í veg fyrir hugsanlega misnotkun barna og ungmenna til vinnu. Það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt og nauðsynlegt að slíkt verði gert.

Herra forseti. Ég hef í nokkrum orðum gert grein fyrir því af hverju ég hef kosið að skrifa undir nál. með fyrirvara og vona ég að það upplýsi nokkuð um ástæður þess.