Aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 21:01:53 (6170)

1997-05-12 21:01:53# 121. lþ. 122.24 fundur 90. mál: #A aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum# (EES-reglur, vinnuvernd barna og ungmenna) frv., BH
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[21:01]

Bryndís Hlöðversdóttir (frh.):

Herra forseti. Ég var komin þar í ræðu minni að rekja það ákvæði frv. sem hvað mestur ágreiningur hefur verið um í hv. félmn. þar sem það er sagt að óheimilt sé að ráða ungmenni til vinnu sem talin er ofvaxin líkamlegu eða andlegu atgervi þeirra og vinnu sem stofnað geti heilslu þeirra í hættu vegna mikils hita, kulda, hávaða eða titrings. Til þess að koma til móts við þá gagnrýni sem einkum kom úr röðum stjórnarliða var m.a. farin sú leið í nefndaráliti að setja fyrirvara þess efnis að nefndin telji rétt að þegar settar verði nánari reglur um þessi atriði verði ákvæðin m.a. skýrð svo að t.d. öll almenn vinna ungmenna í frystihúsum og byggingarvinna geti ekki talist vinna sem feli í sér hættu fyrir heilsu ungmenna.

Ég rakti það að ég tel slíkan efnislegan fyrirvara, slíkan almennan opinn efnislegan fyrirvara, tæplega standast og tel það einfaldlega ekki standast gagnvart skýrum ákvæðum laganna og tilskipunarinnar sjálfrar að setja svo almennan fyrirvara. Ég lít því svo á að ráðherra og Vinnueftirlit ríkisins sem m.a. er falið að móta þessar reglur yrði ekki bundið af þessum fyrirvara.

Það má nefna sem dæmi hér vinnu við naglhreinsun í byggingarvinnu eða mótauppslátt. Ég vil taka slíka vinnu sem dæmi því að þótt slík vinna geti talist algeng byggingarvinna sem ungmenni hafa gjarnan verið í hingað til, þá er einnig ljóst að hún getur hæglega verið þess eðlis að hún falli undir það ákvæði laganna sem kveður á um bann við vinnu ungmenna sem er talin ofvaxin líkamlegu atgervi þeirra eða stofna heilsu þeirra í hættu vegna mikils kulda.

Einnig get ég líka nefnt sem dæmi frystihúsavinnu sem á sama hátt gæti fallið undir 4. gr. frv. jafnvel þótt um almenna frystihúsavinnu sé að ræða og þá hlyti að vera ljóst að fyrirvarinn í nefndarálitinu má sín lítils gagnvart ákvæði laganna eða tilskipunarinnar þegar á hólminn er komið. Þess vegna vil ég ítreka það að ég geri fyrirvara um að Alþingi geti talið sig vera að lögleiða efni tilskipunarinnar á viðhlítandi hátt en verið um leið að setja almennan fyrirvara um það eitt að eitt ákvæði hennar geti ekki átt við um tvær tilteknar starfsgreinar. Þetta tel ég einfaldlega ekki standast.

Í öðru lagi skrifa ég undir með fyrirvara vegna þess að í meðferð nefndarinnar var sett inn ákvæði um breytingu á 52. gr. laganna og er ástæða breytingarinnar sögð vera lögleiðing vinnutímatilskipunarinnar. Þessi breyting kom inn í nefndina og í meðferð málsins á síðustu stigum þess og var því ekki til umræðu þegar umsagnir voru gefnar um málið, en í nefndaráliti segir um þessa breytingu, með leyfi forseta:

,,Loks er lagt til að við frumvarpið verði bætt nýrri grein sem breyti ákvæðum 52. gr. laganna um lágmarkshvíldartíma. Í 52. gr. er gert ráð fyrir að vinnutíma skuli hagað þannig að á hverjum sólarhring, reiknað frá byrjun vinnudags, fái starfsmenn a.m.k. 10 klukkustunda samfellda hvíld. Með þeirri breytingu, sem hér er lögð til, er hins vegar gert ráð fyrir 11 klukkustunda lágmarkshvíld á hverjum sólarhring. Í júní 1996 samþykktu íslensk stjórnvöld að tilskipun Evrópusambandsins nr. 93/104, um ákveðna þætti er varða skipulag og vinnutíma, yrði bætt við EES-samninginn. Helstu samtök atvinnurekenda og launafólks hafa þegar undirritað samkomulag um skipan vinnu- og hvíldartíma. Því er ekki talið nauðsynlegt að svo stöddu að breyta öðrum ákvæðum laganna en ákvæðinu um lágmarkshvíldartíma, en eitt af grundvallaratriðum tilskipunarinnar er ákvæðið um 11 klukkustunda lágmarkshvíld.``

Nú er það alveg rétt sem þarna segir að nauðsynlegt er að breyta lögum til viðbótar þeim samningi sem aðilar vinnumarkaðarins hafa gert um skipan vinnu- og hvíldartíma en hitt er annað að þau atriði ná til mun fleiri ákvæða laganna en þessa eina um lágmarkshvíldartíma. Samningarnir vísa til stjórnvaldsaðgerða og geta því ekki staðið einir. Í nefndaráliti er sagt að ekki sé nauðsynlegt ,,að svo stöddu`` að breyta öðrum ákvæðum laganna en ákvæðinu um lágmarkshvíldartíma en enn hef ég ekki fengið viðhlítandi skýringu á því hvers vegna sú leið er farin hér að taka þetta eina ákvæði út. Það er rétt að minna á í þessu samhengi að Íslendingar áttu að vera búnir að lögleiða tilskipun um vinnutíma þann 6. desember 1996 og það hljómar því sérkennilega að ekki sé ástæða til að gera nauðsynlegar lagabreytingar að svo stöddu. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef m.a. frá nefndarmanni í undirbúningsnefnd EES-samningsins eru mun fleiri atriði sem þarf að breyta og enginn frestur hefur verið gefinn þar um.

Sem dæmi um slík atriði má nefna ýmsar skilgreiningar sem samningurinn byggir á og þyrftu að fá lagastoð til þess að samningurinn stæðist sem slíkur. Það þarf að koma inn ákvæði um vikulegan hvíldartíma sem er alveg jafnmikilvægt og þetta ákvæði sem hér er verið að leggja til að sé sett inn. Það þarf a.m.k. að skerpa verulega á því. Hvergi er til ákvæði um hámarksmeðalvinnutíma á viku sem tilskipunin gerir ráð fyrir og samningurinn gerir ráð fyrir að þurfi að vera í lögunum til þess að hafa viðhlítandi gildi. Þessi atriði eru ekkert minna mikilvæg heldur en það sem hér er lagt til að sé sett inn í lög.

Ég vil líka vekja athygli á því að tilvist þessa ákvæðis er undarleg ekki síst með tilliti til þess á hvaða stigi málið er í vinnslu. En ég vil geta þess að þegar málið kom fyrir hv. félmn. voru gefnar þær skýringar að þarna væri um að ræða atriði sem þyrfti nauðsynlega að fara í gegn strax vegna tilskipunarinnar um vinnutíma. Ég tel að nefndarmenn hafi ekki í raun og veru gefið sér tækifæri til þess að skoða málið nægilega ofan í kjölinn, þessa lagasetningu sem varðar vinnutímatilskipunina, enda var það atriði ekki sent til umsagnar eins og ég rakti hér í upphafi. Málið er í vinnslu hjá samráðsnefnd félmrn. um EES-samninginn. Þessi nefnd hefur það hlutverk að fjalla um framkvæmd reglna á sviði félagsmála sem gilda eða taka eiga gildi á Evrópska efnahagssvæðinu. Nefndin á að vera ráðgefandi við mótun afstöðu íslenskra stjórnvalda til reglna á sviði félagsmála og við eftirlit með framkvæmd félagslega þáttar samningsins ef frá er talinn sá þáttur sem sérstaklega varðar frjálsa för launafólks.

Á milli ráðuneytisins og fulltrúanna í nefndinni hafa farið fram á undanförnum mánuðum bréfaskipti vegna vinnutímatilskipunarinnar og lögleiðingar hennar ásamt því að ráðuneytinu hafa verið sendir samningarnir þrír sem gerðir hafa verið um vinnutíma. Þetta eru alls þrír samningar. En hvað þessi bréfaskipti varðar, þá tel ég rétt að grípa aðeins ofan í þau til þess að skýra mál mitt frekar. Þar er í fyrsta lagi um að ræða bréf sem dagsett er 30. desember 1996 og er stílað á félmrh. en undir það skrifa forseti Alþýðusambands Íslands og formaður Vinnuveitendasambands Íslands. Í þessu bréfi vekja samtökin bæði athygli ráðherra á að ákvæði tilskipunarinnar um vinnutíma ganga í nokkrum greinum lengra en lögin um aðbúnað, öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum, einkum hvað varðar hvíldartíma og frítíma og benda á að nauðsynlegt sé að breyta ákvæðum þessara laga og bjóða fram samstarf sitt og aðstoð í þeim efnum.

Annað bréfið sem ég vildi vitna til er svo bréf sem félmrn. hefur skrifað til þessara sömu aðila um sama efni og þar segir m.a. í lok bréfsins:

,,Með vísan til niðurstöðu umræðna um nánari útfærslu á framkvæmd tilskipunarinnar í samráðsnefnd um framkvæmd reglna á sviði félagsmála á Evrópska efnahagssvæðinu hefur ráðuneytið ákveðið að gefa helstu samtökum aðila vinnumarkaðarins kost á að setja fram tillögur um breytingar á lögunum nr. 46/1980. Nauðsynlegt er að tillögurnar berist ráðuneytinu eigi síðar en 1. júní nk.``

En eins og við gerum okkur öll grein fyrir er 1. júní ekki enn þá kominn. Aftur er sent bréf sem er undirritað af forustumönnum fleiri samtaka launafólks og einnig fleiri forsvarsmönnum atvinnurekenda þar sem eru viðbrögð við þessu bréfi. Þeir samningar sem þegar hafa verið undirritaðir eru sendir til ráðuneytisins og síðan skerpt á því í lokin að aðilar samningsins munu á næstu vikum gera ráðherra grein fyrir því hvaða efnislegu breytingar þeir telja að gera þurfi á lögunum nr. 46/1980 af þessu tilefni og lýsa sig reiðubúna til samstarfs og ráðgjafar. Þetta bréf er dags. 23. janúar 1997.

Staðan er því þannig í dag að þeir aðilar sem eiga fulltrúa í samráðsnefndinni eru nú að vinna að tillögum um lögleiðingu tilskipunarinnar og munu skila þeim tillögum þann 1. júní nk. og hafa eftir því sem ég best veit ekki hugmynd um að á sama tíma og þeir eru að smíða sínar tillögur, þá sé ráðuneytið að smíða lagagrein um sama efni. Alla vega talaði ég um einn fulltrúa úr nefndinni sem hafði talað við annan fulltrúa sem ekki hefði haft hugmynd um þessa vinnu.

Ég vil líka geta þess að ég fór fram á það í fyrri viku þegar taka átti þetta mál á dagskrá í þinginu að hæstv. félmrh. væri á staðnum þegar umræðan færi fram. Og það var ekki síst vegna þessa ákvæðis að ég vildi heyra skýringar hans á þessari breytingu frv. á síðustu stundu. Hæstv. ráðherra hafði samband við mig skömmu síðar og greindi frá því að hann ætti þess ekki kost að vera hér við umræðurnar en vildi svara fyrirspurnum mínum persónulega. Hann skýrði þessar brtt. svo að það liggi ljóst fyrir að enginn ágreiningur sé um þetta tiltekna atriði og því hafi það verið sett inn í þetta frv.

Ég vil líka ítreka það að þarna er um að ræða atriði sem er launafólki til hagsbóta þannig að ég tel alls ekki að það sé í sjálfu sér skaði þannig séð að lögleiðingu þessa ákvæðis núna. En ég get ekki annað en sagt að ég tel þessa aðferð mjög óeðlilega og geri þess vegna fyrirvara m.a. við nefndarálitið. Ég hefði talið eðlilegra að bíða með öll þau atriði sem gera þarf breytingar um og að það hefði verið gert í samráði við samráðsnefnd félmrn. eins og reglur gera ráð fyrir því að það er hinn eðlilegi farvegur málsins þótt breytingin sem hér er gerð sé væntanlega ekki mikið ágreiningsefni. En ég held að fleiri atriði séu þarna inni sem ekki sé beinlínis ágreiningsefni um túlkun á og þess vegna hefði verið eðlilegt að gera þetta allt í einu.

Ég vil ítreka að það er jafnmikilvægt að hraða meðferð þessa máls mjög hvað varðar afganginn af vinnutímatilskipuninni vegna þess að við erum að mínu mati í jafnmikilli skömm með málið hvort sem við lögleiðum eitt atriði tilskipunarinnar og skiljum hin eftir eða hvort við skiljum þau öll eftir vegna þess að eftir stendur sú staðreynd að vinnutímatilskipun ESB hefur ekki verið tekin upp í íslensk lög svo að fullnægjandi sé.