Aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 21:15:32 (6171)

1997-05-12 21:15:32# 121. lþ. 122.24 fundur 90. mál: #A aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum# (EES-reglur, vinnuvernd barna og ungmenna) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[21:15]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þetta er gott mál. Ég mun ekki hafa langa ræðu um það en vil leggja nokkur orð í belg varðandi afgreiðslu þess eftir þá yfirferð sem við höfum átt um þetta mál í félmn.

Mig langar fyrst að nefna það varðandi frv. sjálft sem er mjög athyglisvert að hér er sett í lagagrein hver merkingin barn og unglingur er. Unglingur merkir í lögum þessum einstakling sem er minnst 15 ára að aldri en hefur ekki náð 18 ára aldri og er ekki lengur í skyldunámi. Það er staðreynd sem blasir við að í þeim sáttmálum sem við höfum gerst aðilar að á allra síðustu árum er skilgreiningin á barni slík og því er mjög eðlilegt að Alþingi geri þá breytingu sem nú hefur náðst sátt um í allshn. að unglingur verði lögráða 18 ára. Um það höfum við tekið umræðu hér í þessum sal nokkrum sinnum og ekki verið sátt um það fram að þessu.

Það var mjög athyglisverð umræða um þetta mál í félmn. eins og hefur verið drepið á af hálfu þeirra sem þegar hafa talað hér á undan mér. Varðandi 4. gr., þar sem verið er að skilgreina vinnu sem talið er að óheimilt eigi að vera að ráða ungmenni til, komu upp miklar vangaveltur um hver ætti að meta það sem sneri að einstaklingnum, hver ætti að meta atgervi hans og hvort það gæti verið einstaklingsbundið til hvaða vinnu unglingur væri ráðinn miðað við ákvæði greinarinnar. Auðvitað er það svo að þessi tilskipun snýr að vinnuvernd, hún snýr að vernd barna og ungmenna að þessu leyti og hún er mikið framfaraspor, líka í okkar þjóðfélagi. En við gerum okkur grein fyrir því að helst þyrfti að vera slík löggjöf í öllum löndum heims, ekki síst þar sem barnaþrælkun viðgengst og sumar af þeim vörum sem við kaupum, glæsilegum vörum með fínum merkjum, eru unnar af börnum á löngum vinnudegi.

Það var hins vegar fróðlegt að gera sér grein fyrir hvað við fulltrúar í félmn. litum þessi mál ólíkum augum. Þannig var nokkuð um það að karlmennirnir í hópnum litu á það fræknisaugum að hafa e.t.v. farið til sjós 13 ára eða unnið aðra erfiðisvinnu og það var greinilegt að það að hafa snemma farið í karlmennskustörf var vottur um karlmennsku. Og meðan við vorum upptekin af því, jafnvel þótt í okkar hópi þekktist það að hafa farið í einhver slík störf eins og rækjuvinnslu og síðan frystihús á unglingsárum, þá var það miklu frekar að konurnar í hópnum vildu festa í sessi hin verndandi sjónarmið og að börn ættu að vera búin að ná ákveðinni líkamsbyggingu og hreysti áður en þau færu í átakavinnu. Þannig virtist nokkur eftirsjá að því fyrir suma nefndarmenn að synir þeirra ættu ekki kost á þeirri karlmennskureynslu sem einkenndi uppvöxt feðranna.

Það er athyglisvert að staldra við þetta, virðulegi forseti, vegna þess að þetta segir okkur kannski nokkuð um á hvaða siglingu þjóðfélag okkar er inn í gerbreyttar aðstæður og hversu mjög er þörf á breyttum hugsunargangi varðandi vinnu, varðandi börnin, unglingana, tæknina og það að tileinka sér hana og hvaða veganesti börn og unglingar þurfa til þess að eiga möguleika á þessum vinnumarkaði heimsins sem í raun og veru er vinnumarkaður okkar nú.

Ég vil líka geta þess varðandi 5. gr. að ærið rúm undanþáguákvæði er að finna í lögunum og að bæði hvað varðar undanþáguákvæði sem og harða skilmála er Vinnueftirlitinu ætlað að setja reglur sem skýra hvernig staðan gagnvart unglingum er. Þannig er t.d. í 8. gr. að heimilt er í óviðráðanlegum tilvikum sem atvinnurekandi fær ekki stjórnað að víkja frá ákvæðum laga þessara um vinnutíma, næturvinnu og hvíldartíma unglinga að því tilskildu að um sé að ræða tímabundna vinnu sem þolir enga bið. Um þetta varð að sjálfsögðu mikil umræða í nefndinni. Þess vegna er það að í nefndaráliti félmn. er það sérstaklega tekið fram varðandi 8. gr. að skilgreint er hvað átt er við með óviðráðanlegum tilvikum sem atvinnurekandi fær ekki stjórnað og að í greinargerð með frv. er skilgreint að ákvæði greinarinnar fjalli um svokölluð ,,force majeure`` tilvik, en nefndin telur rétt að þetta komi skýrt fram í lagatextanum. Og það að grípa til þeirrar skilgreiningar og árétta það í nefndaráliti segir okkur að það þurfa að vera talsvert óviðráðanleg tilvik sem réttlæta það að vikið sé frá ákvæðum tilskipunarinnar.

Virðulegi forseti. Ég hef getið um það sem er meginmál frv. og það er skilgreiningin varðandi vinnutíma barna og ungmenna, að börn eru einstaklingar undir 15 ára aldri eða eru í skyldunámi sem felur í sér t.d. að einstaklingur sem er 16 ára og enn í skyldunámi telst barn samkvæmt reglum frv.

Í nefndarálitinu segir að nefndin telji rétt að þegar settar verða nánari reglur um þessi atriði verði ákvæðin meðal annars skýrð svo að öll almenn vinna ungmenna í frystihúsum og byggingarvinna geti ekki talist vinna sem stofnað geti heilsu ungmenna í hættu. Minn fyrirvari er varðandi ákvæði sem ég kem að síðar og hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir hefur bent á, en líka varðandi það að ég er ekki sammála því að við gefum forskrift til Vinnueftirlitsins hvað þetta varðar. Almenn vinna ungmenna í frystihúsum og byggingarvinna er svo víðtæk að það er erfitt að átta sig á hvað við erum að opna þar og ég tel í raun og veru eðlilegra að Vinnueftirlit ríkisins móti reglurnar á grundvelli lagatextans, svo ítarlegur sem hann er, og sé það þannig að eitthvað sem væri hægt að skilgreina sem almenna byggingarvinnu falli ekki undir ákvæði textans, þá tel ég að Vinnueftirlitið eigi að bera ábyrgð á því að setja þær reglur.

Virðulegi forseti. Meginástæðan fyrir því að ég var með fyrirvara við textann er þó þetta nýja ákvæði sem sett var inn á lokastigi vinnunnar. Ég ætla ekki að endurtaka það sem hér hefur komið fram í máli Bryndísar Hlöðversdóttur sem hefur svo ágætlega skýrt tilurð þessa en við í nefndinni tókum því svo að samkomulag væri um það milli allra hlutaðeigandi að breyta þessu ákvæði um hvíldartímann og að ekki þyrfti lagabreytingar vegna annarra þátta í samkomulaginu um vinnutímatilskipunina. Og það má alveg gagnrýna það að eftir að beiðni kom til okkar um að taka þetta ákvæði inn í afgreiðslu nefndarinnar hefðum við e.t.v. átt að kalla til fulltrúa aðila vinnumarkaðarins til þess að fara yfir það í hverju samkomulagið fólst nákvæmlega og hverju af því sem þar væri þyrfti e.t.v. að koma í lög. Það gerðum við ekki. Mál þetta er greinilega öðruvísi vaxið en við töldum. Ég styð að sjálfsögðu ákvæði um 11 tíma hvíldartíma en tek undir gagnrýni á það á hvern hátt málið var borið inn í nefndina og tel að við séum öll því sama marki brennd að hafa talið að þetta væri samkomulagsatriði og ekki stæði til að færa annað í lög.

Virðulegi forseti. Viðhorfið í nefndinni hefur komið ágætlega fram í umfjöllun hér. Ég ætla þó að leyfa mér að nefna örfá atriði sem komu fram hjá skólafólki, m.a. að þetta væri mjög gott frv. vegna þess að vinna nemenda væri orðin of mikil í dag. Vinna nemenda í framhaldsskólum minnkaði á tímabili vegna atvinnuleysisins en það hefur komið uppsveifla á ný. Það er orðið algengara að ungmenni séu að vinna með skóla. Mörg eru í vinnu 2--3 tíma hvern dag og um helgar og þetta hefur áhrif á brottfall nemenda úr skólum. Ekki er alltaf nauðsynlegt í dag fyrir nemendur að vera í vinnu. Að mati þess skólafólks sem kom á fund nefndarinnar eru fá tilfelli þar sem nemendur eru að vinna vegna erfiðra heimilisástæðna. Annar hópur og miklu stærri er sá sem er að vinna til þess að halda uppi góðum vasapeningi og þetta er allt annar hópur heldur en sá sem fellur út fyrir það að hann er hvorki að læra né vinna né í íþrótta- og tómstundastarfi, sem er enn annar hópur og hópur til að hafa áhyggjur af.

Það kom líka skýrt fram og undir það vil ég taka að skólinn er vinna. Nám er vinna og það er mjög mikilvægt að börn og unglingar geri sér grein fyrir því strax í framhaldsskólanum og jafnvel fyrr að nám er mjög mikilvæg vinna vegna þess að í gjörbreyttu þjóðfélagi mun það velta á því hvernig þau hafa tekið á náminu, hvernig þau munu fóta sig í þjóðfélagi framtíðarinnar og það er mjög mikilvægt að við komum þessum skilaboðum skýrt til skila.

Það hefur líka verið bent á að börn og unglingar vinna mjög langan vinnudag og að t.d. á veitingahúsamarkaðinum er mikil krafa um ódýrt vinnuafl sem unglingarnir þykja vera.

Virðulegi forseti. Það var góð umfjöllun um þetta mál í nefndinni að öðru leyti en því sem sneri að þessari nýju brtt. Ég endurtek það að mér finnst þetta gott mál. Ég er mjög ánægð með að við Íslendingar erum að festa í lög að ekki er heimilt að ráða börn og unglinga til hvaða vinnu sem er og ég fagna því að við séum hér á þessu kvöldi að ljúka 2. umr. um þetta mikilvæga mál.