Opinber fjölskyldustefna

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 21:52:28 (6176)

1997-05-12 21:52:28# 121. lþ. 122.25 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[21:52]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er mjög ánægjulegt að þetta mál skuli vera komið á stig lokavinnslu á Alþingi og ég segi bara loksins, loksins vegna þess að þetta mál var lagt fram í október sl. og mælt fyrir því 6. nóvember og frá þeim tíma höfum við verið með það í félmn. Það verður að segjast eins og er að áherslur stjórnarflokkanna í félmn. hafa verið aðrar en þær að reka á eftir málinu, en það hefur að vísu legið alveg ljóst fyrir að stjórnarandstaðan mundi styðja það mjög vel að málið kæmist á rekspöl og að ekki mundi standa á okkur að koma því í gegn. Þetta mál hefur reyndar ekki verið forgangsmál á liðnum missirum. Þannig kom það inn í þingið í febrúar 1995. Það komst á dagskrá en aldrei til umræðu. Að vísu verður það að fylgja með að í febrúar 1995 voru mjög mörg og erfið mál á dagskrá vegna þess að þingið á þeirri vorönn var í raun og veru bara einn mánuður, bara þessi febrúarmánuður. Haustið 1995 kom málið aftur inn í þingið, þá sem þingmannamál og ég verð að segja að ég virði það við ráðherrann að þrátt fyrir gagnrýni hans á tillöguna og stór orð haustið 1995 gerði hann sér síðar ljóst að þetta var góð tillaga og flutti hana lítt breytta þegar hún kom hérna inn sl. vor þó að þær breytingar sem á tillögunni voru gerðar hafi að mínu mati verið til þess að veikja hana.

Þó að tillagan hafi verið flutt lítið breytt á endanum af hálfu félmrh. er einn stór og þýðingarmikill þáttur ekki í henni og það er fjölskyldusjóðurinn sem var hluti hennar í upphafi. Þess vegna hef ég, virðulegi forseti, flutt ásamt Bryndísi Hlöðversdóttur brtt. við þessa tillögu eins og hún er afgreidd úr nefndinni en styð hana að öðru leyti og brtt. hljóðar svo:

,,Á eftir 1. lið III. kafla komi nýr liður, svohljóðandi:

2. Sjóður um fjölskylduvernd.

Stofnaður verði sjóður sem hafi það markmið að styrkja og stuðla að þróun fjölskyldumálefna. Tekjur hans skulu ákvarðaðar með árlegu framlagi úr ríkissjóði. Fjölskylduráð skal fara með stjórn sjóðs um fjölskylduvernd. Hlutverk hans verði eftirfarandi:

Að veita fé til styrktar tilraunaverkefnum sem hafa það að markmiði að bæta þjónustu við fjölskylduna eða skilyrði hennar til að rækja hlutverk sitt.

Að veita fé til rannsókna á högum og aðstæðum íslenskra fjölskyldna.``

Virðulegi forseti. Í umsögn um stofnun sjóðsins á sínum tíma sagði svo:

,,Stofnun sjóðs sem hafi það hlutverk að stuðla að og styrkja þróunarverkefni og rannsóknir á sviði fjölskyldumála er mjög tímabær. Afar fáar rannsóknir hafa verið gerðar á högum íslenskra fjölskyldna. Sameinuðu þjóðirnar hafa lagt mikla áherslu á þetta atriði í tilmælum sínum til aðildarríkjanna á ári fjölskyldunnar. Af þessu tilefni ákvað landsnefndin [um ár fjölskyldunnar] að verja stærstum hluta þess fjármagns sem nefndin hafði til ráðstöfunar til viðamikillar rannsóknar á aðstæðum íslenskra barnafjölskyldna. Niðurstöður hennar munu birtast fljótlega.

Mikið skotir á að fjölskyldur eigi aðgang að nauðsynlegri þjónustu, einkum á sviði fjölskylduráðgjafar. Fjölskylduráðgjöf miðar að því að styðja fjölskylduna á álagstímum og tekur hún m.a. til ráðgjafar í uppeldismálum, samskiptaerfiðleikum og skilnaðarmálum. Á fjárlögum ársins 1994 var af tilefni árs fjölskyldunnar veitt fé til fjölskylduþjónustu. Að tilmælum landsnefndarinnar var stærstum hluta þess fjármagns veitt til tilraunaverkefna í fjölskylduráðgjöf á vegum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu`` --- reyndar Mosfellsbæjar og Reykjavíkurborgar --- ,,og í Eyjafirði. Mjög æskilegt er að framhald verði á þessum stuðningi og hann taki til samvinnuverkefna fleiri sveitarfélaga.``

Nú ber að geta þess að fjölskylduráðgjöfin Samvist hefur þegar sýnt sig að vera afar mikilvægt úrræði og mjög þýðingarmikið að reynslan af störfum þeirrar fjölskylduráðgjafar verði nýtt hvað varðar ákvarðanir í framtíðinni. Ég er alveg sannfærð um að það framlag sem þáverandi félmrh., Jóhanna Sigurðardóttir, beitti sér fyrir til þessa verkefnis á eftir að varpa ljósi á mikilvægi slíkrar ráðgjafar og verða okkur leiðbeinandi í frekari vinnu.

Formaður félmn. hefur kynnt brtt. nefndarinnar og þær eru nokkuð í anda upphaflegu tillagnanna en það er full samstaða í nefndinni um tillögurnar eins og þær koma fram og reyndar mjög góð samstaða um þetta brýna mál í félmn.

Virðulegi forseti. Hvers vegna fjölskyldustefna? Þess ber að geta að þessi tillaga er um að stjórnvöld móti opinbera fjölskyldustefnu og aðgerðir til að styrkja stöðu fjölskyldunnar og fyrsta tillögugreinin er að Alþingi álykti að ríkisstjórnin móti opinbera fjölskyldustefnu o.s.frv. Þetta þýðir að sú tillaga sem við erum að samþykkja hér er ekki, ef einhver heldur það, fjölskyldustefnan í sjálfu sér heldur er hún ákvörðun og tillaga Alþingis um að stjórnvöld móti opinbera fjölskyldustefnu. Eins og þegar hefur komið fram felst það í tillögunni að sveitarfélög jafnframt sem hið mikilvæga stjórnsýslustig í nærverkefnum fjölskyldunnar móti sér fjölskyldustefnu. Þess vegna er það sem hér verður samþykkt eingöngu fyrsta skrefið að fleiri mikilvægum skrefum og í þessu felst vilji Alþingis og þá vonandi þar sem þetta er stjórnartillaga vilji stjórnvalda til þess að setja og móta fjölskyldustefnu.

[22:00]

Hins vegar verð ég að lýsa því yfir að ég er nokkuð áhyggjufull. Það hefur tekið þrjú ár frá ári fjölskyldunnar 1994 og þar til nú, vorið 1997, að þessi þáltill. er loksins að verða afgreidd héðan. Þessi þrjú ár gera það að ekki er mikil bjartsýni í huga mér með að viðamiklar, mótaðar aðgerðir sjái dagsins ljós í þessum þingsal t.d. fyrir lok næsta kjörtímabils, þar sem þau stjórnvöld sem eru við völd núna hafa verið miklu uppteknari af að breyta okkar velferðarkerfi, draga úr öryggisþáttum, samábyrgð og samtryggingu. En ég ætla að taka viljann fyrir verkið og vona að við eigum eftir að sjá þess stað í störfum ríkisstjórnar að hún meini eitthvað með því að hafa flutt þessa stjórnartillögu.

Ég spurði áðan: Til hvers opinber fjölskyldustefna? Það er m.a. vegna þess að aðgerðir hins opinbera bitna á fjölskyldunni og snúa að fjölskyldunni. Oft hefur skort á að það sé skoðað hvernig ólíkar aðgerðir ólíkra ráðuneyta bitna á hinum ýmsu fjölskyldugerðum. Unnið er að málum í ráðuneytunum, frv. koma inn á þingið, tillögur eru unnar innan fjárhagsramma ráðuneytanna við fjárlagagerðina og því miður hefur það oft verið þannig að þegar þessar tillögur koma saman eru þær ósamræmdar og reynslan segir okkur að slíkar ósamræmdar tillögur hafi oft kippt fótunum undan áætlunum fjölskyldunnar og hún stendur berskjölduð gagnvart slíkum stjórnvaldsaðgerðum sem í raun og veru hafa breytt öllum forsendum. Ung fjölskylda með börn sem hefur kannski gert sínar áætlanir miðað við forsendur t.d. um barnabætur, vaxtabætur og ýmislegt sem snýr að opinberum ákvörðunum, vinnu, tekjum vaxtabyrði o.s.frv. stendur einn góðan veðurdag frammi fyrir því að forsendurnar eru brostnar og þrátt fyrir að hún sjálf hegði sér á allan hátt eins og hún áformaði í upphafi, þá hafa ytri aðstæður breyst og hún stendur berskjölduð frammi fyrir aðgerðum sem hún fær ekki varist. Hún stendur berskjölduð frammi fyrir því að allar hennar áætlanir eru komnar í uppnám og hún ræður ekki við hlutverk sitt.

Það er ekki hægt að líta fram hjá því að sveitarfélögin hafa stóru hlutverki að gegna í fjölskyldumálum og þess vegna er mjög mikilvægt að þessi tillaga beinist að þeim. Ég ætla að leyfa mér, virðulegi forseti, af því að mér er það mál bæði skylt og mjög hugstætt, að rifja upp stefnumótun og aðgerðir í mínu bæjarfélagi á árunum 1978--1990. Þá voru Alþfl. og Alþb. og reyndar hluta tímabilsins Framsfl. við stjórnvöl þar. Það var ekki fyrir tilviljun að á þessum árum fékk sá ágæti bær á sig viðurnefnið félagsmálabærinn. Það er annað uppi á teningnum í dag þó að Framsfl. sé nú ráðandi afl í bænum. Það eru mér vissulega vonbrigði hversu mjög breyttar áherslur eru í þessu ágæta bæjarfélagi sem í gegnum tíðina hefur skapað sér sérstöðu, á sér merkilega sögu í samfélagi sveitarfélaga á Íslandi og farið oft aðrar leiðir en nágrannasveitarfélögin. Í þeim bæ var í raun og veru mótuð stefna sem hefur skilað sér í lagasetningu á Íslandi í ríkum mæli.

Litið var til þessa bæjar, Kópavogs, á árum áður vegna þess að þar átti sér stað frumkvæði að breyttum áherslum bæði í málum fatlaðra og aldraðra. Þá var tekin upp ýmiss konar stoðþjónusta sem ekki þekktist og fráhvarf varð frá stofnanavist. Bæði reyndist þjónusta á einstakling við eldri bæjarbúa verða miklu hagkvæmari fjárhagslega en í öðrum sambærilegum bæjarfélögum sem hafa byggt á stofnunum, en jafnframt varð hún miklu víðtækari, einstaklingsbundnari og betri.

Ég sagði að þessa hafi gætt í lagasetningu. Það er ekki tilviljun vegna þess að flokkar sem hafa félagsmálastefnu að leiðarljósi bera líka skynbragð á mikilvægi þess að leiða saman fólk sem hefur sömu hugmyndir um hvernig árangur næst og það fólk sem þarna vann saman var virkilega fólk með framtíðarsýn. Hvers vegna er ég að tala um þetta hér á vorkvöldi í maí á Alþingi Íslendinga? Er það til að draga fram Kópavog, heimabæ minn, eða gengur mér eitthvað annað til? Já, mér gengur ýmislegt til vegna þess að oft hefur þýðing samvinnunnar verið nefnd í Kópavogi, samvinna þessara félagshyggjuflokka. Er þá alltaf nóg að stjórnmálamenn hafi hina réttu hugmyndafræði að leiðarljósi? Ég segi nei. Það er ekki nóg eitt og sér þó að það sé grundvöllurinn að því sem þarf að gerast vegna þess að það getur verið alveg einstaklega mikilvægt að leiða saman til starfa fólk sem er til þess hæft að vinna úr hugmyndafræðinni sem stjórnmálaflokkarnir eru með. Ég tel að á sínum tíma hafi það einmitt verið það sem gaf okkur svo góða raun, að hafa haft skilning á því að sækja til okkar fólk með menntun og hæfni til að hjálpa til við útfærslu á þeirri framtíðarsýn sem við vildum vinna að, þannig að markmið næðust. Ég ætla að leyfa mér úr ræðustól Alþingis að nefna þann unga mann sem var sóttur sem félagsmálastjóri til Kópavogs á sínum tíma fyrir einum og hálfum áratug, Braga Guðbrandsson, sem átti nú reyndar eftir að verða góður samstarfsmaður fleiri en mín sem voru að reyna að takast á við landsmálin síðar.

Af hverju er ég að nefna þetta? Af hverju er ég að nefna að það skipti máli hverja maður sækir til að aðstoða við að útfæra þessi mál? Vegna þess að síðar þegar á að vinna í stórum málum, löggjöf sem skiptir máli fyrir heildina, löggjöf sem skiptir máli í bæjarfélögum þar sem ekki er sama framtíðarsýn, ekki sama hugmyndafræði uppi, þá er mjög mikilvægt að þeir embættismenn sem kallaðir eru til verka beri skynbragð á hvað hafi falist í hugmyndafræðinni. Þannig gerðist það nefnilega í nokkrum lögum sem voru sett á síðasta kjörtímabili, lögum um málefni fatlaðra, lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og síðar tillögunni um fjölskyldustefnu sem unnin var undir handarjaðri félmrh. og með landsnefnd um ár fjölskyldunnar, að þá var hinn sami maður með í þessum verkum ásamt fólki sem hafði víðtæka reynslu af þessum málum, svo sem fulltrúar sérsamtaka fatlaðra og annarra sem bera fullt skynbragð á það hvað skipti máli að koma í lagasetninguna.

Þannig hefur það gerst að við höfum notið starfskrafta og samvinnu þess góða fólks sem bæði hefur komið til starfa og þess góða fólks sem ekki kemur í hin pólitísku störf heldur starfar á sjálfboðaliðavettvanginum sem er svo mikilvægur, oft svo hljóðlátur og þar sem þekking verður mjög mikil á því hvað þarf að gerast til þess að við sköpum gott þjóðfélag.

Mér finnst ástæða til að nefna þetta nú þegar ég er að tala um að góð reynsla, m.a. úr Kópavogi, hafi skilað sér inn í bæði lagasetningu og kannski ekki síst inn í hugmyndafræðina að mótun fjölskyldustefnu.

Virðulegi forseti. Varðandi það að hér sé samþykkt sérstök tillaga um fjölskyldustefnu, þá vil ég sérstaklega nefna eitt sem þar skiptir máli og það er yfirsýn. Það er yfirsýn á málefnum fjölskyldunnar, þ.e. að samhliða því að við leggjum áherslu á alhliða þjónustu við fjölskylduna, þá er mjög brýnt að stjórnvöld, hvort sem það er á sveitarstjórnarstigi eða við landsstjórnina, hafi yfirsýn yfir það sem snýr að málefnum fjölskyldunnar og útfærslu þess. Þannig hef ég alveg frá því að ég vann í sveitarstjórn og við félagsmálastofnun þar sem rekin var alhliða þjónustustofnun, meira að segja í samvinnu við skólaskrifstofu og fræðsluyfirvöld, gert mér grein fyrir hversu mikilvægt það er að í sveitarfélögunum starfi eins konar fjölskylduþjónustustofnanir. Þetta held ég að ég hafi nefnt í hvert einasta skipti sem ég hef tekið til máls um málefni fjölskyldunnar á Alþingi.

Það er nefnilega þannig að félagsmálastofnanir voru á sínum tíma hugsaðar sem slíkar en í áranna rás fengu þær yfir sig annað yfirbragð og því miður felst í nafni félagsmálastofnana neikvæð ímynd í hugum margra. Það er slæmt vegna þess að þær stofnanir sem eiga að sjá um málefni fjölskyldunnar verða að hafa yfir sér jákvætt yfirbragð. Þannig hefur t.d. Akureyri sett á laggirnar þjónustustofnun sem á að sjá um alla þá þætti sem Akureyri hefur tekið að sér á vettvangi fjölskyldunnar. Eins og við vitum er Akureyri reynslusveitarfélag með mjög víðtæk verkefni, m.a. fyrir Eyjafjörðinn allan. Sveitarstjórnin hefur ákveðið að samþætta þessi mál í einni stofnun. Ég er alveg sannfærð um að árangurinn af því á eftir að verða góður. Í slíkri fjölskylduþjónustustofnun er hægt að vera með útfærða samræmda þjónustu og samræmdar úrlausnir hvort heldur er fyrir hefðbundnar fjölskyldur eins og við tölum stundum um --- pabbi, mamma, börn og bíll --- fjölskyldur þar sem eru sérstakar aðstæður, svo sem fatlaðir eða aldraðir, fjölskyldur þar sem mæðgur búa saman, einstætt foreldri, tveir einstaklingar, fyrst og fremst fjölskyldur þar sem kærleikur ríkir og þar sem ætlast er til að hið opinbera hafi skilning á. Og að í slíkri fjölskylduþjónustustofnun sé krafa nr. eitt --- yfirsýn.

Við eigum auðvitað líka að hugleiða það hvort komið sé að því að við setjum á laggirnar fjölskylduráðuneyti. Ég er alveg sannfærð um að þegar kemur að því að flokkarnir á vinstri væng sem nú eru að skoða samstarf og sem hyggjast koma að stjórn landsins fyrr en síðar --- og sem betur fer hefur félmrh. spáð því að við tökum við eftir næstu kosningar og getum þá breytt ýmsum hlutum sem við höfum verið að gagnrýna --- að sú félagshyggjustjórn mun skoða það með því fyrsta hvort setja eigi á laggirnar fjölskylduráðuneyti. Hins vegar þegar var verið að setja fram þessa tillögu um fjölskyldustefnu, þá hugsuðu menn sér það að fjölskylduráðið mundi verða vísir að þessu, og staða og stefnur skoðaðar sem sneru að fjölskyldunni og auðvitað gerðu menn ráð fyrir því þá, að það yrði komið í gagnið löngu fyrr en eftir þrjú ár. Ég er sannfærð um að við munum skoða það mjög vel hvort koma eigi á fjölskylduráðuneyti.

Virðulegi forseti. Ég hef mælt fyrir sjóðnum sem mér finnst svo mikilvægt að settur verði á laggirnar og vil láta á það reyna hvort Alþingi fellir þá tillögu. Ég vil líka minna á að fjölskylduráðið átti að vera stjórn þess sjóðs og mörg þau verkefni sem fjölskylduráðið hefur á hendi eru þess eðlis að mjög mikilvægt væri að fjölskylduráðið hefði yfir slíkum fjölskyldusjóð að segja.

[22:15]

Virðulegi forseti. Áður en ég lýk máli mínu langar mig mjög að nefna áhugavert erindi sem dr. Sigrún Júlíusdóttir hélt á ráðstefnu sem stjórnarandstöðuflokkarnir saman stóðu fyrir á laugardaginn var og hennar erindi var um fjölskylduna og framtíðina. Það var afar merkilegt að hlusta á það hvernig Sigrún Júlíusdóttir dró fram hvernig þróun okkar samfélags gæti orðið að óbreyttu og líka hvernig hæfnissamfélagið sem við blasir mundi lúta allt öðrum lögmálum en það upplýsingasamfélag sem við höfum verið að þróast í. Hún nefnir að það sem blasi við að óbreyttu ef ekki verður gripið í taumana sé tvískipting milli hæfra og minna hæfra, gjá milli þeirra hæfu og minna hæfu sem mundi dýpka og breikka. Það er mjög athyglisvert að velta því fyrir sér hvaða verkefni bíða okkar til þess að afstýra því að þetta gerist, afstýra því að þeir sem mundu lenda á hægri barmi gjárinnar væri fólkið með betri fjölskyldutengsl, meiri lestur, betra læsi, betri menntun, betra innsæi og tök, betri sess í samfélaginu, betri líðan og aðlögun og hvernig hið góða læsi mundi gera þá færa um að nýta sér það sem í boði er á meðan hinir mundu þurfa meira og meira á aðstoð að halda og verða í allt annarri stöðu í hæfnisþjóðfélaginu.

Virðulegi forseti. Það hvarflar ekki að mér að fara að flytja hér inn á Alþingi það erindi sem dr. Sigrún flutti, en það er mjög mikilvægt að nefna þó mikilvægustu atriðin, svo sem viðfangsefni framtíðarinnar, þ.e. hvernig má jafna þetta bil sem annars mun við blasa. Svar hennar var: Með aðgerðum af hálfu stjórnvalda sem miða að því að styrkja ytri og innri aðstæður barnafjölskyldna, en þessar aðstæður snerta annars vegar samfélagsþætti, atvinnu, menntun, húsnæði, jafnréttismál og hins vegar einstaklinginn. Þetta verkefni bíður okkar sem viljum leggja áherslu á að fjölskyldan þróist og að því sé afstýrt að hún þróist í þessa kolröngu átt.

Virðulegi forseti. Það blasir við að fjölskyldan muni fá nýtt hlutverk og að það sé hlutverk sem hið opinbera verður að styðja. Það hlutverk og það sem skýrast verður þar er tilfinningaeiningin, eins og Sigrún segir, vermireitur fyrir tengslamyndun og heilbrigðan tilfinningaþroska, tengihlutverk fjölskyldunnar af hvaða gerð sem hún er, að samræma sundurgreina og samstilla, að hún er heimareitur, skiptiborð og hleðslustöð sem engin stofnun getur leyst af hólmi.

Virðulegi forseti. Það hefði verið fróðlegt að reyna að fara yfir bæði breikkandi gjána sem krefst brúarsmíðar og forsendur stjórnmálamanna. Það ætla ég ekki að gera, en benda á að okkar stjórnmálamanna bíður mikið verk við að afstýra því að fjölskyldan sem slík hverrar gerðar sem hún er verði halloka í okkar þjóðfélagi.

Að lokum vil ég, virðulegi forseti, geta þess að við Bryndís Hlöðversdóttir höfum freistað þess með flutningi þáltill. um að Alþingi fullgildi alþjóðasamþykkt nr. 156, um starfsfólk með fjölskylduábyrgð, að Alþingi geri sér grein fyrir mikilvægi þess að þessi samþykkt sé fullgilt. Það hefur ekki náðst fram. Hins vegar er í þessari þáltill. félmrh. eða þessari stjórnartillögu, ákvæði sem segir að ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að sköpuð verði skilyrði til þess að Ísland geti fullgilt samþykkt nr. 156, um starfsfólk með fjölskylduábyrgð. Ég er ekki með brtt. hjá mér. Formaður nefndinnar gerði grein fyrir því að nefndin flutti brtt. þar sem þetta ákvæði er skert og þó að það sé veikara en ef tekin væri bein ákvörðun um að fullgilda skuli samþykktina, þá ætla ég að leyfa mér að vona að hún sé þarna og það að breytt tillagan hefur skarpari meiningu heldur en hún hljóðar hér í stjórnartillögunni, þá geri það okkur kleift að kalla eftir því hvernig líði framkvæmd tillögunnar. Brtt. hljóðar svo, virðulegi forseti:

,,Sköpuð verði skilyrði til þess að Ísland geti fullgilt samþykkt nr. 156, um starfsfólk með fjölskylduábyrgð, sem gerð var á 67. þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) í Genf 23. júní 1981.``

Það sem við sem höfum unnið með þessi mál vitum er að það er fyrst og fremst 8. gr. samþykktarinnar sem hefur staðið upp á aðila vinnumarkaðarins að útfæra en það er um að fjölskylduábyrgð sem slík skuli ekki vera gild ástæða til uppsagnar í starfi. Með þessari tillögu sem hér er komin fram hljótum við að treysta því að á verði tekið. Það er um að ræða að annaðhvort verði það í samkomulagi aðila vinnumarkaðarins eða með breytingu á lögum og það liggur fyrir hvernig megi koma henni fyrir í lögum þannig að það er mjög einfalt fyrir félmrh. að skipa þessum málum ef ekki reynist eftir samþykkt tillögunnar núna vilji hjá hinu þríhliða samstarfi ASÍ, VSÍ og félmrn. áhugi á því eða vilji til þess að semja um tillöguna.

Virðulegi forseti. Það væri hægt að hafa langt mál um þessa tillögu. Þetta er gott mál. Þetta er mál sem við ættum að ræða oft, þ.e. fjölskyldan og umhverfi hennar, fjölskyldan og aðbúnaður hennar og fjölskyldan og framtíðarsýnin. Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð. Fleiri munu tala í þessu máli. Ég endurtek bara: Þetta er eitt besta málið sem bíður okkar og það er að búa til góða stefnu og útfæra góða stefnu. Ég hef ekki mikla trú á að hún verði útfærð með góðu móti á þessu kjörtímabili en svo fremi að stjórnarandstöðuflokkarnir verði við stjórnvölinn að loknum næstu kosningum, þá verður þessi fjölskyldustefna útfærð og það með sóma.