Opinber fjölskyldustefna

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 22:56:42 (6180)

1997-05-12 22:56:42# 121. lþ. 122.25 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[22:56]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem í andsvar út af orðum hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur. Ég tek undir það sem hv. þm. orðaði að fjölskyldumál yrðu mjög stórpólitísk mál á næstunni. Að vísu hefur mér fundist um langt skeið að það væri stórpólitík að fjalla um fjölskyldumál og ég deili þessari skoðun hennar.

Ég kem í ræðustól í andsvar vegna þeirra áhyggna sem hún lætur í ljós og deili þeim með henni. Það er mjög undarlegt að réttur feðra hafi verið til umfjöllunar í heilbr.- og trn. og ekki hafi náðst fram að ganga að auka þennan rétt í fæðingarorlofi vegna þess að það er sami þingmaðurinn sem er varaformaður í félmn. og heilbr.- og trn. Og þar sem svo góður vilji kemur fram í félmn. um að auka rétt feðra og hvetja feður til að nýta sér þann rétt þegar búið er að auka hann, þá verður maður auðvitað mjög áhyggjufullur að heyra að þungavigtarþingmaður sem er varaformaður í báðum nefndunum skuli ekki hafa stutt það að þetta mál kæmist áfram í heilbr.- og trn. Ég hlýt að spyrja aðeins nánar út í þetta mál vegna þess að það setur að mér ugg að heyra þetta.

Að vísu er annað mál sem við komum inn á áðan og það er ILO-samþykktin nr. 156 um fólk með fjölskylduábyrgð. Það er svo sem annað hliðstætt mál. Það einfalda sem þarf að gera er að setja ákvæðið um að ekki megi segja upp fólki vegna fjölskylduábyrgðar í ákveðin lög og liggur fyrir hvar það þarf að gerast. Samt sem áður er látið nægja að segja að það eigi að skapa skilyrði til þess að ILO-samþykktin verði uppfyllt.

Ég spyr Margréti Frímannsdóttur aðeins nánar út í það hvað hafi átt að reyna að gera varðandi rétt feðra til fæðingarorlofs sem ekki náði fram að ganga.