Opinber fjölskyldustefna

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 23:02:18 (6183)

1997-05-12 23:02:18# 121. lþ. 122.25 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[23:02]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég get nú ekki annað en lagt aðeins orð í belg við þessa umræðu um opinbera fjölskyldustefnu vegna þess sem komið hefur fram. Ég tek undir með hv. þm. Margréti Frímannsdóttur og hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur að ég efast um að hugur fylgi máli við öll þessi góðu áform um að styðja við fjölskylduna þegar maður er búinn að ganga í gegnum þá umræðu sem hefur farið fram í hv. heilbr.- og trn. um málefni sem snúa að fjölskyldunni þar sem stjórnarmeirihlutinn vill helst ekki taka málin til umræðu og ef þau eru tekin til umræðu, þá er þeim vísað frá eða jafnvel felld eins og gerðist í morgun.

Ég vil benda á mál til viðbótar því sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir nefndi. Hún minnti á málið sem fellt var í morgun þar sem farið var fram á að almannatryggingarnar tækju þátt í sálfræðiþjónustu fyrir börn og unglinga. En það hefur komið fram hjá þeim fulltrúum sem komu í heimsókn til nefndarinnar til að ræða þetta mál að þar væri víða mjög alvarlega pottur brotinn. Sérstaklega var bent á að eftir að lögunum um grunnskóla var breytt er þjónusta skólasálfræðinga mjög takmörkuð. Það er aðeins um greiningu að ræða en enga meðferð og það er auðvitað afleitt ef börn eru greind í skólunum og síðan vísað á frekari meðferð og þau fá hana ekki og ekki er tekið þátt í kostnaði við hana. Þetta frv. hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur var fellt í heilbr.- og trn. í morgun. Stjórnarmeirihlutinn felldi það að þetta mál fengist afgreitt úr nefndinni og kæmi til umræðu hér í þinginu eins og óskað var eftir af minni hluta nefndarinnar.

Ég nefni fleiri mál, eins og um að fá umönnunargreiðslur til þeirra sem annast sjúka eða fatlaða, eru sem sagt umönnunarþurfi í heimahúsi, að fleiri en makar fá greitt fyrir þau störf. Og af því að það var nefnt hér að hæstv. félmrh. er ekki til staðar í húsinu, þá spyr ég, herra forseti: Er starfandi félmrh. í húsinu?

(Forseti (RA): Hv. þm. spyr um verustað ráðherra og ég get einungis upplýst að einn hæstv. ráðherra er skráður í húsið, hæstv. samgrh., en hann mun hafa gengið út úr húsinu í þessum töluðum orðum.)

En hvað með viðskrh., er hann ekki í húsinu?

(Forseti (RA): Eins og ég hef þegar sagt, þá er á þessu augnabliki enginn hæstv. ráðherra í húsinu.)

Ég hefði gjarnan viljað eiga orðastað við starfandi félmrh. sem mér skilst að sé hæstv. viðskrh. Finnur Ingólfsson. Ég hefði gjarnan viljað eiga orðastað við hann vegna þessarar tillögu sem hér er verið að ræða í þinginu.

(Forseti (RA): Þeirri ósk verður komið á framfæri.)

Ég mun halda áfram að ræða fleiri mál sem hafa komið til umræðu í hv. heilbr.- og trn., mál þar sem reynt er að breyta lögum sem vega að fjölskyldunni. Ég vil nefna mál sem er breyting á lögum um félagslega aðstoð sem mælt var fyrir nú fyrir einni eða tveim vikum, þar sem tekið er á heimilisuppbótinni, en öryrkjar og jafnvel ellilífeyrisþegar sem vilja hefja sambúð tapa við það greiðslum úr almannatryggingunum. Greiðslurnar til þeirra lækka um samtals 30 þús. kr. við það að hefja sambúð og sömuleiðis, af því verið er verið að tala um fjölskylduna hér, að ef kona sem er öryrki eignast barn og verður einstæð móðir, þá lækka greiðslurnar til hennar um 14.400 kr. ef hún hefur engar greiðslur úr lífeyrissjóði. Þetta eru náttúrlega alls ekki fjölskylduvæn lög. Reynt hefur verið að ráða bót á þessu með frv. sem hafa ekki einu sinni fengist rædd í heilbr.- og trn. fyrir meiri hlutanum. Og það að koma með fagurlega orðaða fjölskyldustefnu hér í öðru orðinu og afgreiða síðan málin eins og gert hefur verið í heilbr.- og trn. þar sem verið er að reyna að ráða bót á málefnum fjölskyldunnar, er vægast sagt mjög ótrúverðugt.

Er nokkur von á félmrh.?

(Forseti (RA): Það get ég nú ekki sagt um.)

Ég hefði gjarnan viljað fá upplýsingar hjá honum hver hans afstaða er til umönnunargreiðslna sem voru hér til umræðu vegna þess að ég man til þess að í frv. sem hann stóð fyrir að yrði samið fyrir hæstv. ráðherra Guðmund Bjarnason, þegar hann var heilbrrh., var einmitt farið fram á greiðslur fyrir umönnun í heimahúsi. En nú virðist það vera allt saman breytt og menn hafa skipt um skoðun í Framsfl. því að ekki fæst ráðin bót á því. En ég er tilbúin að bíða ef ég fengi þá að eiga orðastað við hæstv. ráðherra þegar hann kemur í hús. Er það í lagi?

(Forseti (RA): Það er í lagi.)

Ég get kannski reynt að ræða við hann síðar ef ekki er von á honum. (Gripið fram í: Það verður bara að fresta umræðu.) Fresta umræðunni.

(Forseti (RA): Einn hv. þm. hefur óskað eftir að veita andsvar við ræðu hv. 18. þm. Reykv. og það er spurning hvort hún er reiðubúin að láta þau andsvör ganga yfir nú og taka svo aftur til máls þegar ráðherrann er kominn.)

Ég mun bíða með að ræða við hæstv. ráðherra þar til síðar og lýk þá máli mínu. En ég hef verulegar efasemdir um að hugur fylgi máli í þessari þáltill. miðað við vinnubrögð hæstv. ríkisstjórnar í málefnum fjölskyldunnar í öðrum nefndum þingsins, þ.e. heilbr.- og trn.