Opinber fjölskyldustefna

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 23:27:26 (6188)

1997-05-12 23:27:26# 121. lþ. 122.25 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[23:27]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Þessari spurningu sem beint var til mín var eiginlega ekki beint til mín sem félmrh., sem ég er þessa stundina, heldur fyrst og fremst sem þingmanns, ef ég hef skilið hv. þm. rétt.

Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. að á sínum tíma var ég formaður þeirrar nefndar sem endurskoðaði lögin um almannatryggingar. Sú endurskoðun gekk út á það að færa til innan gildandi laga og þess kostnaðar sem í heild sinni hlýst af almannatryggingalöggjöfinni. Endurskoðunin miðaði að því að lækka greiðslur á einstaka stöðum, draga úr kostnaði og færa það yfir á aðra þætti, sem ég var og er þeirrar skoðunar að þurfi að gera betur. Dæmi um þetta er að núna eru greiðslur til ellilífeyrisþega og öryrkja nákvæmlega þær sömu sem ég tel vera óeðlilegt. Ég tel eðlilegt að öryrkjar fái hærri greiðslur en ellilífeyrisþegar. Hið sama gildir þá um umönnunarbæturnar en sá bótaflokkur var reyndar ekki til á þeim tíma nema að mjög litlu leyti og mjög þröngur. Ég var þeirrar skoðunar að þar ætti að útvíkka allverulega og nota fjármuni sem mundu sparast á öðrum stöðum við þessa endurskoðun til þess að hækka þá bótaflokka.

Meginniðurstaðan átti að vera sú að útgjöld til almannatrygginga áttu ekki að aukast. Ég tel þetta vera hægt. Nú veit ég að heilbrrh. er með almannatryggingalöggjöfina í endurskoðun. Sú endurskoðun miðar að sama marki, þ.e. að almannatryggingalöggjöfin þjóni þeim sem þurfa á aðstoð almannatrygginganna að halda en sé ekki uppbót fyrir þá sem hafa góðar tekjur.