Opinber fjölskyldustefna

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 23:33:43 (6191)

1997-05-12 23:33:43# 121. lþ. 122.25 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[23:33]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil benda hæstv. ráðherra á að hægt er að spara heilmikið í sjúkrahúskostnaði með því að greiða fyrir umönnun í heimahúsum. Þar er strax kominn stór sparnaðarliður því það er mun dýrara að hafa umönnunarsjúklinginn á sjúkrahúsi en í heimahúsi. Ég held að það kosti álíka mikið á dag og það kostar í greiðslur á mánuði fyrir umönnun í heimahúsi þannig að þar er strax kominn sparnaður.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra hvenær eigi að ljúka endurskoðun á almannatryggingunum. Almannatryggingalöggjöfin hefur verið í endurskoðun frá því að lögin voru sett, gömlu lögin frá 1971, og ekkert komið út úr því. Ég furða mig á því að hæstv. ráðherra hafi ekki látið flokkssystur sína, sem nú situr í heilbrrn., hafa þessa endurskoðun á almannatryggingalögunum sem hann stóð að og ég trúi ekki öðru en hann hafi gert það. Og ég furða mig á því ef það er stefna hans flokks að þessar greiðslur skuli vera inntar af hendi, hvers vegna er þá ekki hægt að samþykkja þau frv. sem liggja fyrir heilbr.- og trn. nú um umönnunarlaun eða umönnunargreiðslur? Er ágreiningur uppi milli hæstv. ráðherra og hæstv. heilbr.- og trmrh. í þessu efni? Ég spyr því að mér finnst vera þarna ákveðinn skoðanamunur uppi.