Opinber fjölskyldustefna

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 23:41:57 (6194)

1997-05-12 23:41:57# 121. lþ. 122.25 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[23:41]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. rennur blóðið til skyldunnar og rifjar upp að hæstv. heilbrrh. hvarf úr miðju verkfalli heilsugæslulækna þegar við blasti hrun heilsugæslunnar í landinu og fór í frí til Kýpur og lá þar á sendinni sólarströnd í tíu daga og hann segir að sá sem hér talar hafi gert allt vitlaust út af því máli. Það eina sem þessi þingmaðurinn sagði um það þegar honum voru borin þessi tíðindi í fjölmiðlum: Ég læt nú segja mér þetta þrisvar sinnum áður en ég trúi því, og ég lét þess jafnframt getið að sjálfur hefði ég tæpast lagt í slíka för á þessum tíma. Það var nú ekki meiri vitleysa sem úr því var gerð.

En það er hins vegar umhugsunarefni þegar hv. þm. kemur hér upp til að ræða fjölskyldustefnuna og þann part hennar sem ég gerði að umræðuefni, þá kýs hann í andsvarinu að eyða ekki einu orði á það. Ég ræddi um fæðingarorlof feðra. Ég rifjaði það upp að a.m.k. einhverjir þingmenn Framsfl. sögðu fyrir síðustu kosningar að þeir mundu berjast fyrir því að fæðingarorlof feðra yrði gert að löggerningi. Hvernig hafa þeir staðið við það? Þeir hafa gert það með því að ganga fram fyrir skjöldu í ráðuneytum sínum til að brjóta samþykkt Alþingis um þetta. Alþingi hefur samþykkt að áður en núverandi framkvæmdaáætlun um jafnréttismál hnígur til viðar, þá skuli lögfesta reglur um sjálfstæðan rétt feðra. Framsfl. fer með þessi ráðuneyti, félmrn. og heilbrrn., og þess vegna er það hann sem er siðferðilega ábyrgur í málinu. Hann er að brjóta þetta. En það er hins vegar kannski spegilmynd af vilja flokksins í þessum efnum og frammistöðu hans að sá hv. þm. sem kemur hingað til þess að veita andsvar við ræðu minni nefnir þetta ekki einu orði, sem var þó eina efnið í minni ræðu. Er það kannski byltingarmynd af því að Framsfl. er alveg sama um þetta og í öðru lagi kýs hann (Forseti hringir.) að brjóta öll þau kosningaloforð sem hann mögulega kemst í færi við? Að öðru leyti er ég sammála hv. þm. um að margt fróðlegt hefur gerst hér í kvöld og eitt af því er auðvitað það (Forseti hringir.) að mikill fróðleikur hlýtur að vera fólginn í því, herra forseti, fyrir þingmenn Framsfl. að fá svolitla upprifjun á því sem þeir lofuðu fyrir kosningarnar.