Opinber fjölskyldustefna

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 23:45:56 (6197)

1997-05-12 23:45:56# 121. lþ. 122.25 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[23:45]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það er dálítið leiðinlegt og leiðigjarnt að hlusta stöðugt á það að þingmenn séu ekki í salnum. Ég vil benda hv. þm. á að það er komin ný tækni. Það er kominn sjónvarpsskjár í vinnuherbergjum þingmanna og þar sitja menn gjarnan og vinna jafnframt því sem þeir hlusta. Ég náði því sem hv. þm. sagði að stjórnarliðið væri ekki viðstatt umræðuna. Ég vil benda á að ég hef verið viðstaddur alla þessa umræðu frá upphafi og ég hef mikinn áhuga á þessum málum. Ég er í félmn. vegna þess að ég hef áhuga á félagsmálum, ekki vegna þess að mér beri skylda til að vera þar og ég hef sérstaklega mikinn áhuga á þessu máli þannig að þetta er furðuleg vantrú á þingmönnum.

Ég hef líka mjög mikinn áhuga á fæðingarorlofi feðra og ég vil koma því á heilsteyptan grunn, ekki bara fyrir einstæðar mæður. En ég vil líka gæta þess að klyfja ekki velferðarkerfið umfram það sem þegar er. Mér er nefnilega mjög annt um velferðarkerfið. Eftir því sem við hlöðum meiri böggum á það, þeim mun meira lengjast biðlistanir og þeim mun lakari verður þjónustan. Ég vil passa mjög vel hvað við hengjum á klárinn svo að hann sligist ekki því að mér er mjög annt um velferðarkerfið.