1997-05-13 00:53:33# 121. lþ. 122.20 fundur 408. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.# frv., Frsm. 3. minni hluta ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[24:53]

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Stjórnarandstaðan vill leggja upp með áætlanir og það hefur verið okkar meginstefna. Við viljum sjá fyrir endann á þessu máli, bæði um dreifða eignaraðild og útfærslu á þessum atriðum. Ríkisstjórnin hefur ekki viljað það. Það er ekki vegna þess, herra forseti, að ríkisstjórnin sé að bíða eftir að frumvarpið verði lögfest og þá ætli hún að setjast niður og gera áætlanir. Hún vill hafa þetta svona opið. Það er hluti af hennar stefnu að ganga frá öllum þessum frumvörpum eins opnum og hægt er. Það er ekki kveðið upp úr um fjölda bankastjóra í ríkisviðskiptabönkunum. Það er ekki kveðið upp úr um fjölda bankaráðsmanna. Það er ekki kveðið upp úr um hvernig á að selja 35% í ríkisviðskiptabönkunum. Það ekkert sagt um það hver á að fá 49% í Fjárfestingarbanka Íslands. Þetta er skilið eftir fyrir viðskrh. og samninga milli þessara tveggja helmingaskiptaflokka að klára dæmið á þeim bæ. Það er stefna ríkisstjórnarinnar. Hún gerir það af ásettu ráði að ganga þannig frá málum, jafnvel þó að þetta verði ríkisfyrirtæki áfram sem þau verða í öllum þessum tilvikum. Það er eðlilegt að Alþingi ákveði lagaramma og skipulagsramma í kringum þessar stofnanir. Það er ekki gert. Það er vegna þess að ríkisstjórnarflokkarnir vilja hafa algerlega frjálsar hendur þegar þeir koma að því að úthluta opinberum verðmætum til þeirra fyrirtækja sem þeir hafa velþóknun á. Það er þetta, herra forseti, sem við óttumst. Það er þetta sem við höfum gert tillögur um að verði sett í annan farveg fyrir utan það að uppstokkunin á fjármagnsmarkaði eins og er lagt til í frumvarpinu um Fjárfestingarbanka Íslands er óskynsamleg. Hún er ekki studd af neinum aðila sem hefur einhverja faglega þekkingu á þessu máli. Einu aðilarnir sem studdu málið voru þeir sem áttu að tilnefna stjórnarmenn í nýja Fjárfestingarbankann.