Kosningar til Alþingis

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 11:44:41 (6268)

1997-05-13 11:44:41# 121. lþ. 123.38 fundur 116. mál: #A kosningar til Alþingis# (atkvæðagreiðsla erlendis) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[11:44]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er spurning hvaða rök eru fyrir því að þetta mál var ekki tekið út úr nefndinni og vísað til ríkisstjórnarinnar, þ.e. það mál að kjósendur geti leynt nafni sínu fyrir smölum stjórnmálaflokkanna inni í kjörklefum. Var andstaða við það í nefndinni? Það væri fróðlegt að vita hvaða rök eru fyrir því að setjast á mál af þessu tagi. Og ég kann satt að segja ekki við að þingmönnum sé bersýnilega mismunað með þeim hætti sem hér er verið að gera. Það er verið að taka þetta mál í gegn en hinu hafnað og svar formanns nefndarinnar er ,,af því bara``. Það gengur ekki. Ég tel því auðvitað, herra forseti, að miðað við þá stöðu sem nú er uppi þá verði stjórnarmeirihlutinn auðvitað að reyna að setja sér það að koma til móts við okkur eins og við erum að koma til móts við stjórnarmeirihlutann m.a. með því að taka hérna fyrir dagskrá með 20, 30, 40 málum á hverjum einasta degi. Þannig að ég sætti mig ekki við þessi svör hjá hv. þm. og tel alveg óhjákvæmilegt að fá þau skýrari eða leita annarra úrræða til að tryggja að þetta mál verði tekið út eins og önnur mál úr þessari nefnd. Hvernig í ósköpunum stendur á því að þessu máli er hafnað? Vilja menn í þessari nefnd frekar en ella verja smala stjórnmálaflokkanna? Er það hugsunin á bak við afstöðu nefndarinnar í málinu?