Kosningar til Alþingis

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 11:47:46 (6271)

1997-05-13 11:47:46# 121. lþ. 123.38 fundur 116. mál: #A kosningar til Alþingis# (atkvæðagreiðsla erlendis) frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[11:47]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins koma inn í þessa umræðu um það frv. sem hér er til umræðu um kosningar til Alþingis. Í nefndinni kom skýrt fram verulegur vilji til að koma til móts við þá sem eru búsettir erlendis þegar kosningar til Alþingis eða sveitarstjórna fara fram. Ég mat það svo að það væri verulegur stuðningur við það mál sem hér liggur fyrir þinginu. En þá kom fram hjá meiri hlutanum sá sígildi rökstuðningur að verið sé að gera heildarendurskoðun eða stærri endurskoðun og í ljósi þess samþykkti nefndin að senda þetta mál þar inn. Ég tel mjög brýnt að breyta möguleikum fólks sem býr í útlöndum til þess að kjósa hér því það er alveg með ólíkindum hvað fólk getur þurft að ferðast, stundum fleiri þúsund mílur. Ég hef einu sinni reynt það að koma loksins á kjörstað en þá var ekki hægt að tryggja að atkvæði mitt kæmist til landsins. Það er enginn vafi á því að hér er um mjög brýnt mál að ræða.

En varðandi gagnrýni hv. þm. Svavars Gestssonar á annað mál sem liggur fyrir allshn., reyndar um breytingar á sömu lögum, get ég upplýst að það var enginn vilji hjá stjórnarmeirihlutanum að taka það mál út en um leið vil ég upplýsa að það má segja að þingmannamál hafi ekki fengið nokkra einustu umfjöllun í nefndinni. Það var mjög takmarkaður tími til þess og formaðurinn hefur reyndar beðið minni hlutann afsökunar á því í nefndinni. Ég vil taka sérstaklega sem dæmi mál sem ég hef flutt hér tvisvar sinnum, þáltill. um kynferðislega áreitni, sem hefur fengið mjög góðar umsagnir, allt jákvæðar umsagnir. Það er ekki einu sinni farið í gegnum umsagnir um þingmannamál sem ekki á að afgreiða af meiri hlutanum. Ég tel þetta mjög mikinn ljóð á starfi þessarar ágætu nefndar og þarna verði að verða breyting á.