Kosningar til Alþingis

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 12:01:17 (6273)

1997-05-13 12:01:17# 121. lþ. 123.38 fundur 116. mál: #A kosningar til Alþingis# (atkvæðagreiðsla erlendis) frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[12:01]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir útskýringar á stöðu málsins í hv. allshn. sem ég verð að segja að skýra málið náttúrlega betur en áður hefur komið fram. Einnig vil ég þakka hv. þm. Guðnýju Guðbjörnsdóttur fyrir hennar skýringar sem voru mjög mikilvægt innlegg í þetta þar sem það kom nú reyndar fram að þetta væri afbrigðilega slæmt í allshn., að stjórnarflokkarnir hefðu í raun og veru lagst gegn því að eitt einasta þingmannamál svo að segja af hálfu stjórnarandstöðunnar fengi afgreiðslu í allshn. Þegar litið væri yfir allshn. og hún borin saman við aðrar nefndir þá sæju menn að hún væri sennilega verst af öllum nefndum í þessu máli. Það eru mjög fróðlegar upplýsingar sem fram komu í máli hv. þm. Guðnýjar Guðbjörnsdóttur. Það er kannski skýringin á því sem fram kom hér áðan um þetta litla mál sem ég flutti á þessu þingi í annað sinn að menn taka það ekki út úr nefndinni og þora ekki einu sinni að vísa því til ríkisstjórnarinnar.

Auðvitað er þetta að mörgu leyti þannig mál að það er tæknilega með þeim hætti að það þarf að koma því skýrt fyrir hvernig sá réttur kjósandans er tryggður að hann gefi ekki upp nafn sitt fyrir fulltrúum stjórnmálaflokkanna á kjörstað. Það má auðvitað hugsa sér ýmsar aðferðir í þeim efnum en ég ætla ekki að fara út í það.

Herra forseti. Ég ætla bara að segja að hér er komið við kvikuna í Sjálfstfl. Sjálfstfl. hefur verið aðal vandamálið á kjörstöðum á Íslandi núna um áratugaskeið. Sjálfstfl. á kjörstöðum í Reykjavík hefur verið stórkostlegt vandamál og það hefur orðið að klaga kosningasmala Sjálfstfl. í hverjum einustu kosningum undanfarin ár, í hverjum einustu kosningum. Í síðustu borgarstjórnarkosningum kvað svo rammt að þessu að svo dæmi sé tekið þá varð að reka smala Sjálfstfl. út úr kjallara eins kjörstaðar í Reykjavík þar sem þeir sátu með farsíma og stýrðu smölun á kjósendum á þann kjörstað í Breiðagerðisskóla. Og það þurfti meiri háttar rekistefnu í yfirkjörstjórn Reykjavík til að hrekja þetta lið með farsímann út úr kjallara Breiðagerðisskóla. Þannig var hagað þessum vinnubrögðum t.d. í Melaskólanum að kosningavél Sjálfstfl. kom sér fyrir þar í tiltekinni skólastofu eins og reyndar víðar en þannig háttaði til þarna að þessi skólastofa var inni á kjörganginum þar sem kosningar fóru fram. Þar af voru menn með skrifstofur Sjálfstfl. inni á miðjum kjörstaðnum, á sama stað og kjósendur gengu til að kjósa fyrir sínar götur, sín hverfi o.s.frv. Í Reykjavík hafa kosninganjósnir Sjálfstfl. verið stórkostlegt vandamál og það hefur legið við borð að það hafi þurft að grípa beinna lögregluaðgerða til að hrekja í burtu kosningasmala íhaldsins með farsímana í kjöllurum kjörstaðanna í Reykjavík.

Svo er það þannig, herra forseti, að einn þingmaðurinn, í stjórnarandstöðunni að vísu, leyfir sér þá ósvinnu að flytja frv. til laga um að menn geti leynst þegar þeir komi inn á kjörstað, menn geti leynst. Menn geti leynst, þurfi ekki að gefa upp nafn sitt hjá öðrum en undirkjörstjórninni á staðnum, annaðhvort með því að krefjast þess að fulltrúi flokksins eða flokkanna fari út á meðan viðkomandi kýs eða með því að leggja nafnskírteini sitt eða annað fullgilt vottorð á borðið hjá undirkjörstjórn sem þá hefur ekki heimild til að láta fulltrúa flokkanna vita um það hver er að kjósa. Fjöldinn allur af kjósendum hefur í seinni tíð talið að hér væri um mikilvægt mannréttindamál að ræða. Ég þekki fólk sem ekki hefur í undanförnum kosningum neytt kosningarréttar síns vegna þess að það vill ekki að Sjálfstfl. hafi þennan sérstaka rétt eins og hann hefur tekið sér hér í Reykjavík. Það er flutt þetta frv. um málið og því er frekar vel tekið hér við 1. umr. Þetta er flutt hér í annað sinn í vetur, var flutt í fyrra líka, því er vísað til allshn. Þar er niðurstaðan sú að það er tekið út úr nefndinni mál sem lýtur að rétti Íslendinga til að kjósa erlendis, það er gott mál og nauðsynlegt mál. Ég þekki nokkuð til í þeim efnum líka í sambandi við kosningar á undanförnum árum. En þetta mál sem hér lýtur að því að tryggja mannréttindi fólks þannig að það megi leynast ef það vill fyrir smölun flokkanna, það fæst ekki tekið út. Og þegar ég spyr hv. formann allshn. um það hér áðan þá segir hv. formaður allshn.: Ja, menn í nefndinni vildu ekki taka málið út. Svo kemur það á daginn eftir skýringar frá hv. þm. Ögmundi Jónassyni og Guðnýju Guðbjörnsdóttur, að ekki einasta hefur Sjálfstfl. beitt sér í þessu máli heldur líka Framsfl. Hann er líka á móti því að taka þetta mál út. Það er auðvitað ekkert nýtt að Framsfl. gangi í verkin fyrir íhaldið, það hefur hann gert á þessu kjörtímabili. Hann hefur í raun og veru tekið að sér það hlutverk að vinna skítverkin fyrir íhaldiðs á þessu kjörtímabili. Það er það sem framsóknarmönnum blöskrar enda eru þeir að hlaupa frá flokknum í stórum stíl á meðan íhaldið fitnar á fjósbitanum eins og venjulega. Framsókn er að verða altekin af sjúkdómnum sem herjaði á kratana hér í síðustu kosningum, atkvæðin eru að hlaupa í burtu og íhaldið fitnar. Það er ekki bara í hinum stóru málum sem Framsfl. gengur fram fyrir skjöldu og veður framar í einkavæðingarkröfum í bönkum og guð veit hvað heldur líka í hinum litlu málum sem lúta að þrengstu flokkshagsmunum íhaldsins. Ja, þar er Framsfl. kaþólskari en páfinn, íhaldssamari en íhaldið og hjálpar þeim við að stoppa mál af þessu tagi. Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að talsmaður Framsfl. í allshn. og kosningalagamálum svari því af hverju hann gekk í þetta verk fyrir íhaldið. Hvaða rök voru fyrir því? Af hverju er þetta mál stoppað? Af hverju mátti ekki vísa því til ríkisstjórnarinnar og skoða það? Hvaða rök eru fyrir því, herra forseti?

Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt líka í þessu sambandi, herra forseti, að rifja upp það sem hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir sagði hér áðan, að það væri frekar legið á málum í þessari nefnd en öðrum. Ég bendi á það, herra forseti, að þinginu er ekki lokið. Þingið er ekki búið, það er ekki búið. Það er auðvitað hugsanlegt að fara í þessi mál enn frekar. En það er náttúrlega hreinn dónaskapur að haga málum þannig t.d. í nefnd eins og allshn. að veita ekki þingmannamálum eðlilega meðferð. Ég þekki það úr iðnn. þar sem ég á sæti, að þar voru öll þingmannamál tekin fyrir og rædd og þáltill. afgreiddar. Þar tóku menn jafnvel fyrir mál frá þingmanni þar sem vildi þannig til að nefnd á vegum ráðuneytis var í raun að vinna í sama máli en samt var það afgreitt í nefndinni. Það var stjórnarþingmaður sem flutti það. Við afgreiddum það og það þótti sjálfsagður hlutur. En í allshn. er það þannig að menn virðast sitja á málum frekar en nokkurs staðar annars staðar. Það er náttúrlega stóralvarlegt mál. Stóralvarlegt mál og er svo sem ekki mikið við því að gera á því þingi sem nú situr en verður náttúrlega að taka það til athugunar næsta vetur að menn leiki ekki þennan leik aftur að setjast á mál af þessu tagi eins og þetta litla mál sem ég er hér að tala um þessa kosningalagabreytingu hvað þá heldur önnur mál með stærri skírskotun eins og t.d. þau mál sem hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir nefndi áðan, eins og tillaga hennar sem hefur verið flutt ég held á tveimur þingum og ég held að sé full samstaða um en fæst ekki tekin fyrir, hún fæst ekki afgreidd. Hvað á þetta að þýða? Auðvitað er það þannig að stjórnarandstaðan ræður engu hér, auðvitað er það þannig, hún ræður ekki nokkrum hlut. Auðvitað er það þannig að stjórnarandstaðan verður að sæta því sem hinn mikli meiri hluti íhaldsflokkanna tveggja sem stjórna landinu núna, 40 manns, hefur. Auðvitað verðum við að sæta því. En mér finnst kannski óþarfi að vera að undirstrika það sérstaklega svo að segja á hverjum einasta degi við afgreiðslu þingnefnda að við ættum bara helst ekki að vera hérna. Allar tillögur sem við flytjum séu vitleysa og óþarfar taki tíma og séu vesen. Stjórnarandstaðan sé seinlegt mál. Þingræðið vesen. Það væri í raun og veru best að hafa þetta þannig að stjórnarflokkarnir réðu þessu bara sín á milli. Þannig er það nú ekki enn þá og við leyfum okkur að tala og við leyfum okkur að hafa skoðanir þó það sé þannig að stjórnarflokkarnir vilji helst komast hjá því.

Herra forseti. Ég óska eftir því að Framsfl. skýri það af hverju hann gekk í þetta verk fyrir íhaldið. Ég mótmæli líka vinnubrögðum allshn. almennt en þó sérstaklega í þessu máli. Ég kann ekki við að stjórnarandstöðunni sé sýnd framkoma af þessu tagi. Mér finnst leiðinlegt til þess að vita. Við höfum verið að reyna að temja okkur fagleg vinnubrögð í þessari stofnun og við höfum hjálpast að við að reyna að komast að niðurstöðu, stjórn og stjórnarandstaða. En því miður er slegið þar á útrétta hönd aftur og aftur þó fyndnasta dæmið ef svo mætti segja sé nú kannski stjfrv. um lífeyrissjóðina sem við ætluðum að styðja en þá ákvað íhaldið að taka það til baka og Framsókn fylgdi, sem er nú í raun og veru einhver þau merkilegustu tíðindi sem ég hef séð í þingsögunni í seinni tíð þegar stjórnarandstaða vill veita stjfrv. brautargengi þá verður stjórnin allt í einu á móti því. Það er kapítuli út af fyrir sig.

Ég óska eftir að spurningum mínum í þessu efni verði svarað.