Kosningar til Alþingis

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 12:13:59 (6275)

1997-05-13 12:13:59# 121. lþ. 123.38 fundur 116. mál: #A kosningar til Alþingis# (atkvæðagreiðsla erlendis) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[12:13]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sólveigu Pétursdóttur fyrir útskýringarnar. En veruleikinn er sá að samkvæmt lögum landsins þá eru það undirkjörstjórnirnar í umboði yfirkjörstjórnanna sem eiga að gæta lýðræðisins á kjörstöðunum. Það er í raun og veru ekki lögformlegt hlutverk flokkanna. Það kemur hvergi fram. Enda snýst málið ekki um það í þessu frv. að það sé verið að leggja til að fulltrúum flokkanna sé vísað af kjörstað. Heldur að þeir sem vilja leynast fyrir fulltrúum flokkanna geti það enda sanni þeir nafn sitt með eðlilegum hætti fyrir undirkjörstjórninni, þannig að hér er í raun og veru ekki verið að draga úr rétti flokkanna í sjálfu sér. Hér er ekki verið að veikja hina lýðræðislegu undirstöðu málsins. Hér er fyrst og fremst verið að flytja tillögu um að tryggja mannréttindi. Það er svo einfalt.