Áætlun um afnám ofbeldis gagnvart konum

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 12:38:10 (6286)

1997-05-13 12:38:10# 121. lþ. 123.39 fundur 403. mál: #A áætlun um afnám ofbeldis gagnvart konum# þál., Frsm. SP (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[12:38]

Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir hönd allshn. fyrir nál. um tillögu til þál. um mótun áætlunar um afnám ofbeldis gagnvart konum.

Nefndin hefur fjallað um málið og hafa umsagnir borist frá ýmsum aðilum.

Felur tillagan í sér að skipuð verði nefnd til að móta áætlun um afnám ofbeldis gagnvart konum í samræmi við yfirlýsingu sem samþykkt var á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 1993.

Nefndinni hafa borist þær upplýsingar að dómsmálaráðherra hafi ákveðið að skipa þrjár nefndir til að vinna að málefnum er varða heimilisofbeldi og ofbeldi gegn konum. Einni nefndinni, sem í munu eiga sæti fulltrúi ráðuneytisins, dómara og ríkissaksóknara, verður falið að huga að meðferð heimilisofbeldismála í dómskerfinu og leggja fyrir dómsmálaráðherra tillögur um nauðsynlegar úrbætur í því efni. Annarri nefndinni, sem í munu sitja fulltrúar tilnefndir af ríkislögreglustjóra og lögreglustjóranum í Reykjavík auk fulltrúa dómsmálaráðuneytis, er ætlað að huga að meðferð mála vegna heimilisofbeldis og rannsókn þeirra hjá lögreglu og skila ráðherra tillögum um nauðsynlegar úrbætur í því efni. Loks hefur dómsmálaráðherra ákveðið að skipa nefnd sem í eiga sæti fulltrúar tilnefndir af heilbrigðis-, menntamála- og félagsmálaráðuneytum auk dómsmálaráðuneytis. Mun nefndin eiga að kanna hvort nauðsynlegt sé að breyta löggjöf í þeirri viðleitni að sporna við ofbeldi gegn konum, huga að því hvernig efla megi starfsemi samtaka sem vinna að forvarnamálum og hjálparúrræðum vegna heimilisofbeldis, leggja fram tillögur um forvarnir, sem og hjálparúrræði fyrir þolendur og þá sem fremja slík ofbeldisbrot og loks að taka til skoðunar hverjir eigi að kosta þau hjálparúrræði sem um er að ræða. Skulu nefndirnar hafa lokið störfum fyrir 1. apríl 1998.

Nefndin tekur undir efni tillögunnar um nauðsyn samstarfs ráðuneyta og samtaka sem vinna að forvarnamálum og hjálparúrræðum á þessu sviði. Í ljósi þess að nú þegar er unnið að þessum málum á vegum ríkisstjórnarinnar leggur nefndin til að tillögunni verði vísað til ríkisstjórnar.

Allir nefndarmenn í allshn. undirrita þetta álit.