Stuðningur við konur í Afganistan

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 12:44:09 (6289)

1997-05-13 12:44:09# 121. lþ. 123.25 fundur 69. mál: #A stuðningur við konur í Afganistan# þál., Frsm. GHH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[12:44]

Frsm. utanrmn. (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Utanrmn. hefur haft til meðferðar þá þáltill. sem kynnt var og hefur skilað nál. á þskj. 1217 þar sem lagt er til að tillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Mál þetta hefur fengið þó nokkra umfjöllun í nefndinni og var leitað eftir ýmsum gögnum frá utanrrn. í því sambandi en fram hefur komið að Ísland hefur á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og annars staðar leitast við að styðja málstað, ekki bara kvenna í Afganistan, heldur málstað almennra mannréttinda þar í landi sem eins og allir vita eru mjög fótumtroðin af núverandi valdhöfum og bitnar það sérstaklega á konum og stúlkum.

Í ljósi þess að þegar er unnið efnislega að framgangi þess máls sem vakin er athygli á með tillögunni þótti ekki ástæða til að ganga lengra en að leggja til að tillögunni yrði vísað til ríkisstjórnarinnar. Það var í og með vegna þess að málið eins og það kemur fram er mjög afmarkað og sérgreint og hefði væntanlega þurft töluvert mikla vinnu við að fylla nánar út í einstök atriði þar ef ætlunin hefði verið að afgreiða þetta sem ályktun Alþingis. Allir nefndarmenn eru sáttir við þessa málsmeðferð og skrifa undir nál. og ég tel að um þessa afgreiðslu sé góð sátt í nefndinni þar á meðal af hálfu 1. flm. tillögunnar sem sæti á í utanrmn.