Stuðningur við konur í Afganistan

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 12:47:20 (6291)

1997-05-13 12:47:20# 121. lþ. 123.25 fundur 69. mál: #A stuðningur við konur í Afganistan# þál., Frsm. GHH
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[12:47]

Frsm. utanrmn. (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Það er smámisskilningur að þegar lagt er til að máli sé vísað til ríkisstjórnarinnar sé það ekki afgreitt úr nefndinni. Það er þvert á móti afgreitt með þeirri tillögu að því verði vísað til ríkisstjórnarinnar til frekari meðferðar. Í þessu tilfelli tel ég að verið sé að vísa málinu þangað með jákvæðri umsögn um efni tillögunnar. Það er hins vegar hlutur sem á að taka alvarlega þegar þingið er að álykta um sérstök utanríkismál og það þarf að undirbúa slík mál mjög vandlega að mínum dómi. Í þessu tilfelli þótti málið liggja þannig fyrir að það var upplýst að unnið hefði verið efnislega í anda þessarar tillögu á vegum ríkisstjórnarinnar og þess vegna ekki ástæða til þess að skora á hana að hefja starf þegar það er þegar hafið. Ég tel þess vegna að í þessu tilfelli felist í tilvísun til ríkisstjórnarinnar jákvæð umsögn nefndarinnar um efni þessarar tillögu og það held ég að hafi ráðið úrslitum um það að 1. flm. tillögunnar var mjög sáttur við niðurstöðuna.

Svo geta menn rætt um það á kannski almennari nótum hvenær mál eigi að hljóta afgreiðslu út úr nefndum og hvenær þau eigi að liggja í nefndinni eins og algengt er nú. Það hefur ekki verið mikið um slík mál í utanrmn. í vetur þó það hafi reyndar oft verið áður. Þó voru ekki öll mál afgreidd þar í vetur aftur til umræðu. Það fer auðvitað allt eftir efni mála og aðstæðum hvað gert er í hverju tilfelli fyrir sig. En ég held að það megi segja um þetta tiltekna mál að allir nefndarmenn hafi haft ríkan skilning og vilja til þess að styðja efnislega við það sem verið var að fjalla um í þessari tillögu. Og í ljósi þeirra upplýsinga sem fram komu um það sem gert hefði verið á vegum ríkisstjórnarinnar nú þegar töldu nefndarmenn að málinu væri fullur sómi sýndur með þessari afgreiðslu og það væri betra að taka það hér upp og vísa því til ríkisstjórnarinnar og vekja þar með enn frekari athygli ríkisstjórnarinnar á málinu með þeim hætti heldur en að láta það liggja í nefndinni á þeirri forsendu að verið væri að vinna í því nú þegar. Ég held að það sé ekkert neinum blöðum um það að fletta að í þessu tilfelli var það jákvæð afgreiðsla að vísa málinu með þessum hætti til ríkisstjórnarinnar.