Bann við framleiðslu á jarðsprengjum

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 12:50:16 (6292)

1997-05-13 12:50:16# 121. lþ. 123.26 fundur 267. mál: #A bann við framleiðslu á jarðsprengjum# þál., Frsm. GHH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[12:50]

Frsm. utanrmn. (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Á þskj. 1219 hefur utanrmn. skilað nál. um tillögu til þál. um bann við hönnum, framleiðslu, notkun og sölu á jarðsprengjum.

Nefndin leggur til að tillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar og í raun og veru á svipuðum forsendum og í því fyrra máli sem umræðu var að ljúka um fyrir augnabliki síðan.

Hér er um að ræða mál sem ekki er neinn efniságreiningur um að Íslendingar eigi að styðja, þ.e. Íslendingar eigi að hvetja til þess, hvar sem þeir hafa aðstöðu til þess, að gerður verði alþjóðlegur samningur um bann við framleiðslu og notkun þessara hræðilegu vopna. Það hefur verið unnið að því á alþjóðavettvangi að ná samkomulagi um slíkan samning og Íslendingar hafa stutt þá viðleitni hvar sem þeir hafa haft aðstöðu til bæði á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, í nafni ríkisstjórnar Íslands og sömuleiðis hafa íslenskir þingmenn þar sem þeir hafa haft aðstöðu til stutt framgang þessara mála. Það má því segja að unnið sé að þessu eins og hægt er af hálfu íslenskra stjórnvalda og þar af leiðandi ekki ástæða til að brýna ríkisstjórnina frekar í því máli með sérstakri þál. Hins vegar er lagt til að þessu máli verði vísað til ríkisstjórnarinnar og með þeirri jákvæðu umsögn sem felst í nál.

Annars má segja um þetta mál á breiðari grundvelli, herra forseti, að vandinn við að ná fram alþjóðlegum samningi um þetta efni er sá að jarðsprengjur eru, ef svo mætti segja, vopn fátæka mannsins vegna þess að þær eru mjög ódýrar í framleiðslu, ódýrar í innkaupum og auðvelt að búa þær til. En þær eru hræðilega hættulegar og hafa valdið gríðarlega miklu manntjóni þar sem þeim hefur verið beitt, bæði dauða og örkumlum fjölda manna. Það hræðilega við þessi vopn er að sjálfsögðu að þau bitna einna helst á þeim sem síst skyldi, m.a. konum og börnum, eftir að stríðsátökum er lokið og áður en þessar sprengjur eru hreinsaðar upp úr jarðveginum þar sem þeim hefur verið komið fyrir. En það getur tekið mörg ár, er miklu kostnaðarsamara en að búa þær til og koma þeim fyrir og oft hefur skort á vilja og viðleitni ráðamanna og ríkjandi afla að hreinsa upp slíkan ósóma sem þessi vopn eru komin í jörðu niður.

Niðurstaða nefndarinnar er sem sagt sú að það sé óþarft að samþykkja þál. um efnið vegna þess að málið hefur brautargengi á vettvangi ríkisstjórnarinnar þar sem hún getur lagt þessu máli lið og á vettvangi þingsins þar sem þingmenn geta lagt þessu máli lið. Hins vegar er lagt til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar til frekari athugunar og úrvinnslu eftir atvikum.