Rekstur Fríhafnarinnar í Leifsstöð

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 13:46:05 (6298)

1997-05-13 13:46:05# 121. lþ. 123.95 fundur 329#B rekstur Fríhafnarinnar í Leifsstöð# (umræður utan dagskrár), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[13:46]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Í febrúar sl. skipaði hæstv. utanrrh. nefnd sem átti að gera tillögur að aðgerðum til að auka og bæta verslunar- og þjónusturekstur í tengslum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar og auka þannig ráðstöfunartekjur af þessari starfsemi.

Nú er það ekki svo að af þessum rekstri í Leifsstöð hafi ekki verið dágóðar tekjur á undanförnum árum. Heildartekjur ríkisins af almennum flugrekstri í Leifsstöð voru á árinu 1996 1,708 millj., þar af 650 millj. ágóði af Fríhöfninni, en eins og allir vita er mörg matarholan hjá ríkinu og erfitt hefur verið að festa hendur á þessu fé til að láta það ganga upp í skuldir vegna flugstöðvarinnar.

Að mati nefndarinnar þarf að auka hlutann sem rennur til flugvallarstjórnar til að greiða niður skuldir og fjármagna nýjar framkvæmdir um 300--350 millj. á ári. Fríhöfnin í Keflavík er eitt vinsælasta fyrirtæki sem ríkið rekur í hugum almennings. Þetta fyrirtæki hefur verið vel rekið og á undanförnum áratugum hefur það verið þróað til að geta sinnt kröfum farþega sem best og er það vinsælt hjá fólki, sérstaklega sem sjaldan ferðast, að geta keypt við innkomu í landið tollfrjálsar vörur sem það annars mundi reyna að komast yfir erlendis og hefur verið almenn ánægja með þetta fyrirkomulag nema hjá kaupmönnum og heyrst hefur mikill harmagrátur frá Verslunarráðinu.

Nú hefur þeim orðið að ósk sinni. Til að auka tekjur af Fríhöfninni datt fyrrnefndri nefnd það helst í hug að taka stóran hluta af verslunarrekstrinum hjá Fríhöfninni og setja hann til sjálfstætt starfandi kaupmanna. Ég hef miklar efasemdir, hæstv. forseti, um að slík ráðstöfun leiði til aukinna tekna ríkissjóðs af verslunarrekstri í flugstöðinni eins og nefndin áætlar.