Rekstur Fríhafnarinnar í Leifsstöð

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 13:53:22 (6301)

1997-05-13 13:53:22# 121. lþ. 123.95 fundur 329#B rekstur Fríhafnarinnar í Leifsstöð# (umræður utan dagskrár), RG
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[13:53]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Sú umræða sem hér fer fram ber vott um efasemdir þeirra sem eru að ræða við utanrrh. um að áform hans tryggi auknar tekjur ríkissjóðs. Það er ekkert skrýtið þótt efasemdir séu í þessum þingsal þegar litið er til ýmissa aðgerða ríkisstjórnarinnar á liðnum árum og meðferð á ýmsum ríkiseigum sem hafa verið seldar og upplýsingum um hverju þær hafa skilað eigendum sínum síðar. En ummæli hans um að málshefjandi sé með lofsöng um ríkisrekstur er mjög ómaklegt og er ekki utanrrh. til sóma.

Ég verð að segja að mér finnst utanrrh. skorta málstað í þessu efni. Hann er reiður. Hans málflutningur í þessari umræðu er á þann veg að hann kemur með mjög takmarkaðar upplýsingar í máli sem er mjög viðkvæmt og æsir sig yfir að umræða er tekin hér. Miðað við kynni mín af utanrrh. þá kemur þetta mér mjög á óvart og virkar eins og honum líði ekki vel með þetta mál og það skil ég.

Það liggur ljóst fyrir að það fólk sem starfar suður á Keflavíkurflugvelli er sannfært um að þar eigi að draga saman seglin um 60--70 manns og þetta fólk spyr: Hvað þýðir einkavæðing og útboð? Hverjum er það til hagsbóta og hvað þýðir þetta fyrir mig? Hverjir missa vinnuna? Eigum við kost á vinnu hjá öðrum? Það er þetta fólk sem er í uppnámi, ekki við sem eigum að bera fram spurningarnar, heldur þetta fólk sem leitar til okkar.

Það eru núna yfirlýsingar um að engum verði sagt upp t.d. í Fríhöfninni. En hvað þýðir það ef samdráttur verður? Starfsfólkinu er sagt það, og það eru mjög óljósar skýringar, að ef t.d. einkaaðilar setja upp bás og versla með ákveðna vöru, þá muni Fríhöfnin ekki mega versla með sambærilega vöru. Ef einkaaðili er að versla með útvarp má Fríhöfnin ekki versla með útvarp þó að önnur tegund sé. Þetta segir okkur að það muni verða gífurlegur samdráttur mjög fljótt í verslun Fríhafnarinnar, svo bara hún sé tekin.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu, en umræðan hér snýst um mannleg samskipti og virðingu fyrir starfsfólki. Það var blásinn af fyrirhugaður fundur með þessu fólki og síðan heyrði það um áform í beinni útsendingu og það er óviðunandi af utanrrh.