Rekstur Fríhafnarinnar í Leifsstöð

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 14:01:30 (6304)

1997-05-13 14:01:30# 121. lþ. 123.95 fundur 329#B rekstur Fríhafnarinnar í Leifsstöð# (umræður utan dagskrár), KPál
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[14:01]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Það kemur eflaust engum á óvart að verið sé að reyna að leysa úr miklum fjárhagsvanda Leifsstöðvar. Það mál hefur verið til umræðu á Alþingi í mörg ár og ekki náðst viðunandi niðurstaða til að hægt sé að mæta þeim miklu erfiðleikum sem þar hafa verið í rekstrinum og hafa komið niður á þeim fjölda einkafyrirtækja sem hafa reynt að ná þar fótfestu. Það er því í raun kominn tími til að skila inn tillögum sem hafa verið til skoðunar. Þetta eru ekki tillögur sem ég álít að séu komnar til framkvæmda heldur eru til skoðunar af hæstv. utanrrh. Í mínum huga getur það ekki gengið öðruvísi fram en að starfsmenn Fríhafnarinnar komi að því að útfæra þessar hugmyndir þannig að þær geti nýst fyrirtækinu sjálfu, Fríhöfninni, og því starfsfólki sem þar er ásamt könnun á þeim möguleikum sem flugstöðin býður upp á til þess að auka frelsi í verslun á svæðinu.

Ég vil taka undir gagnrýni á það að hugmyndir eins og eru í þessari tillögu komi starfsfólki Fríhafnarinnar gersamlega á óvart og forustumenn þar komi af fjöllum. Mér finnst, og hef talað um það áður í þinginu, að starfsemi Fríhafnarinnar ætti að vera undir sérstakri stjórn þar sem starfsmenn Fríhafnarinnar hefðu aðild að stjórninni þannig að starfsháttum þar væri ekki breytt eða farið í eitthvert annað form öðruvísi en starfsmennirnir hefðu eitthvað um það að segja. Það hefur komið í ljós að þegar um er að ræða svo beintengt vald til ráðherra, þá getur hann með mjög einföldum hætti breytt starfsemi svona fyrirtækja án nokkurs samráðs við starfsmennina. Það er gagnrýni vert.

Ég fagna því aftur á móti að hæstv. utanrrh. hefur tilkynnt það hér að ekki muni koma til uppsagnar starfsfólks og þess verði gætt að starfsfólki verði sinnt þannig að menn þurfi ekki að óttast um starfsöryggi sitt á þessum vinnustað.