Rekstur Fríhafnarinnar í Leifsstöð

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 14:03:55 (6305)

1997-05-13 14:03:55# 121. lþ. 123.95 fundur 329#B rekstur Fríhafnarinnar í Leifsstöð# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[14:03]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Fríhöfnin í Leifsstöð færir ríkissjóði tæpar 2 millj. kr. í hagnað á degi hverjum. Frá opnun Leifsstöðvar hefur Fríhöfnin skilað inn verðmætum í ríkissjóð sem nemur byggingarkostnaði flugstöðvarinnar. Þrátt fyrir þá staðreynd blasir sá veruleiki við að fram til þessa hefur Leifsstöð verið skilin eftir eins og kolbítur í öskustónni.

Engin ríkisstjórn hefur haft kjark eða úrræði til að ganga frá skuldastöðu Leifsstöðvar. Á henni hvíla nánast sömu eða hærri skuldir og í byrjun á byggingartíma og það á dýrum lánum. Fyrir vikið hefur framtíð hennar og þess starfsfólks sem þar vinnur verið lengi í uppnámi og óvissu. Þess vegna hljóta allir að fagna því að óvissu verði eytt og komið á festu í rekstri og fjármögnun Leifsstöðvar í fyrsta sinn frá byggingu hennar.

Í þeim nefndartillögum sem hér eru til umræðu er víða komið við og augljóslega margt óútfært sem hlýtur að verða gert í samstarfi þeirra sem því fylgja eftir og starfsfólks. Hafa ber í huga að umferð og umsvif í Leifsstöð fara stöðugt vaxandi. Það mun leiða til þess að sala á varningi muni aukast og í kjölfarið fjölbreytni vöruúrvals. Það mun leiða til fleiri starfa í Leifsstöð.

Ég vil leggja áherslu á mikilvægi þess að starfsfólk Fríhafnarinnar fái áfram að sinna því ómetanlega starfi sem það hefur byggt upp á löngum tíma. Tekjur stöðvarinnar byggjast ekki síst á góðu starfi sem þar hefur verið unnið. Ég vek athygli á skýrslu nefndarinnar þar sem virðist gert ráð fyrir sömu tekjum Fríhafnar og verið hafa. Hvað þýðir það? Nánast óbreytt umsvif, enda hefur hæstv. utanrrh. staðfest það hér í dag og í sjónvarpsviðtali í gær.

Herra forseti. Ég lýsi ánægju með að á restrarvanda Leifsstöðvar skuli tekið í fyrsta sinn. Ég lýsi ánægju með að störfum í Leifsstöð muni fjölga. Ég lýsi ánægju með skýringar ráðherra sem fela í sér að rekstur Fríhafnarinnar er tryggður til framtíðar.