Lögræðislög

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 14:50:02 (6317)

1997-05-13 14:50:02# 121. lþ. 123.40 fundur 410. mál: #A lögræðislög# (heildarlög) frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[14:50]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Sem svar við fyrri spurningu hv. 5. þm. Reykn. er það að segja að ekki hefur komið til tals að hafa þennan tíma skemmri. Hér er um að ræða mjög merkilegt nýmæli í lögræðislögum, að það er unnt að svipta menn sjálfræði til skamms tíma, en á það er að líta að sjálfræðissvipting er mjög alvarleg aðgerð. Þess vegna hefur ekki verið talið að það væri rétt að viðurkenna hana til skemmri tíma en sex mánaða. Í því efni verður að gilda ákveðin festa og mat á aðstæðum því að hér er ekki um að ræða aðgerð sem menn geta hlaupið í til nokkurra daga.

Varðandi þau tilvik sem hv. þm. nefnir þá er með dómi hægt að fella ákvörðun um sjálfræðissviptingu úr gildi og það er hefðbundin dómsathöfn. Ég geri ráð fyrir því að ef skilyrði eru fyrir hendi til þess að fella sjálfræðissviptingu niður með dómi þá taki slík málsmeðferð vikutíma eða innan við það þannig að hér er um að ræða virkt úrræði ef skilyrðin eru fyrir hendi.