Lögræðislög

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 15:10:37 (6320)

1997-05-13 15:10:37# 121. lþ. 123.40 fundur 410. mál: #A lögræðislög# (heildarlög) frv., Frsm. SP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[15:10]

Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fá að koma að athugasemdum út af orðum hv. þm. Fyrst þar sem hann nefndi að ég hafi ofsagt í framsögu með nefndaráliti allshn. sem er misskilningur hjá hv. þm. vegna þess að þar segir, með leyfi virðulegs forseta:

,,Miklar umræður urðu í nefndinni um hækkun sjálfræðisaldurs en frv. gerir ráð fyrir að hann miðist áfram við 16 ár. Komu fram rök bæði með og á móti hækkun sjálfræðisaldurs en mælt var með hækkun í nær öllum umsögnum sem nefndinni bárust.``

Síðan minnist ég á annað mál sem er til umfjöllunar í nefndinni, sem er 49. mál þingsins, en þar leggja flm. til hækkun sjálfræðisaldurs í 18 ár. Allshn. bárust alls tíu umsagnir um það mál og mæltu níu umsagnaraðilar af tíu með breytingunni. Það var þetta mál sem var verið að ræða um í framsögunni.

Ég vil enn fremur upplýsa að fulltrúi dóms- og kirkjumrn. sem mætti í allshn. og tók þátt í störfum í nefndinni sem samdi frv., og þar lá mjög mikil vinna á bak við, benti einmitt á hugsanlega erfiðleika fjölskyldna sem mundu flytjst milli landa út af þessu misræmi sem er á aldrinum. Það var líka minnst á breytta kjarasamninga á vinnumarkaði og var upplýst að byrjunarlaun væru núna í fyrsta sinn miðuð við 18 ár, en það þarf hins vegar ekkert að breyta í sjálfu sér um þátttöku unglinga á vinnumarkaði.

Það er greinilegt að hv. þm. túlkar umsagnir með öðrum hætti en ég geri. Ég sagði líka áðan að það væru skiptar skoðanir um þetta mál og því rétt að þingið tæki afstöðu til þess. En ég er alla vega ekki í vafa um það eftir vinnu nefndarinnar í þessu máli að mér finnst málið liggja í augum uppi. Það er ákveðin þróun farin af stað í þessa átt og því tel ég rétt að styðja og leggja fram þessa tillögu.