Lögræðislög

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 15:19:30 (6325)

1997-05-13 15:19:30# 121. lþ. 123.40 fundur 410. mál: #A lögræðislög# (heildarlög) frv., ÁRÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[15:19]

Árni R. Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé rétt að geta þess aftur sem hefur verið nefnt hér og ég hef nefnt og kemur fram í umsögn Barnaheilla. Þar er talað um ráðleysi foreldra. Það er ekki talað um réttleysi þeirra, heldur ráðleysi og ef við lesum setningarnar, þá segir þar ósköp einfaldlega að foreldrar beiti ekki þeim aga sem sumir þeirra telji við eiga. Ekki vegna þess að þeir hafi ekki rétt til þess, vegna þess einfaldlega að þeir gera það ekki.

Ég hef aldrei nefnt það sem rök fyrir minni afstöðu sem hv. þm. nefndi, en ég skal nefna aftur meginástæðu mína. Hún kemur fram m.a. í greinargerð með frv., þ.e. að stór hópur einstaklinga verði sviptur réttindum vegna vandamála hjá tiltölulega fáum ungmennum á þessum aldri. Þetta hef ég nefnt aftur og aftur og fleiri eru mér sammála um það. Ég verð að viðurkenna, herra forseti, að ef það er rangt að það sé lítill hluti ungmenna í vandamálum af þessu tagi, þá held ég að upplýsingar sem okkur hafa borist hafi verið rangar því að það er alveg ljóst að við fengum þær upplýsingar að það væri mjög lítill hópur ungmenna sem ætti við slík vandkvæði að stríða og þá foreldrar þeirra jafnframt. Við erum að tala um tillögu þess efnis að taka þennan rétt af öllum ungmennum vegna lítils hluta þeirra. Ég felli mig ekki við þá tillögu.