Lögræðislög

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 15:23:28 (6327)

1997-05-13 15:23:28# 121. lþ. 123.40 fundur 410. mál: #A lögræðislög# (heildarlög) frv., HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[15:23]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Vissulega eru þetta mikilvæg og merkileg málefni sem hér liggur fyrir frv. um til laga. Hv. þm. Árni R. Árnason, 6. þm. Reykn., hefur ágætlega farið yfir þann fyrirvara sem ég ásamt honum hef gert við málið í allshn. og um það bæti ég ekki, svo prýðilega hefur hann haldið á því máli, þó að ég vilji reyndar koma að nokkrum atriðum til viðbótar eða til áréttingar því sem þegar hefur komið fram.

Hv. allshn. hefur annast þetta mál af stakri prýði og er ekkert upp á þá vinnu formanns og varaformanns og annarra þeirra sem í nefndinni starfa að klaga, þótt okkur greini á um hækkun sjálfræðisaldurs eða óbreyttan sjálfræðisaldur eins og hann hefur verið á Íslandi frá ómunatíð.

En almennt sagt tryggir þetta frv. til laga rétt og réttarstöðu þeirra sem eru ólögráða, bæði vegna æsku og hinna einnig sem hafa verið sviptir lögræði á fullorðinsárum. Kveðið er á um margt í frv. sem áður var túlkunaratriði. Nauðsynlegt er að skipa slíku inngripi í sjálfræði fólks með lögum. Slík afskipti og íhlutun mega helst ekki vera túlkunaratriði háð mati, að ekki sé talað um geðþótta. Um er að ræða aðgerðir, íhlutun um persónulega hagi, að taka ráðin af fólki og þarf því að tryggja réttarstöðu þeirra sem í hlut eiga alveg sérstaklega.

Svipting sjálfræðis er mjög alvarlegt mál. Frelsi einstaklingsins er helgur réttur. Þeir varnaglar sem inn eru settir í frv. eru einkum þeir að lögráða maður má ekki ráðskast með ólögráða eða sjálfræðissviptan einstakling, heldur taka nauðsynlegar ákvarðanir sem óviðkomandi er ófær um að taka sjálfur. Þannig hefur lögráða maðurinn ekki jafnóskoraða heimild til yfirráða og verið hefur hingað til, en kveðið er á um þetta í 58. gr. frv.

Þá er sleginn varnagli við því að samþykki yfirlögráðanda þarf einnig til þess að binda ólögráða einstakling við kaup og sölu fasteigna, en svokallaðir barnabílar, þar sem börn eru skráð fyrir bílum, eru því miður algengir í okkar samfélagi. Þannig er sett inn varnarákvæði gegn því að hægt sé að skrifa bíla og fasteignir á börn.

Hvað varðar svo spurninguna um það hvort sjálfræðisaldur eigi að vera óbreyttur við 16 ár eins og verið hefur eða hækka hann í 18 ár, þá er margs að gæta. Rökin fyrir hækkun eru samræming og verndun. En aðalatriði málsins er hvort markmiðið sem að er stefnt náist með hækkun sjálfræðisaldursins eða hvort aðrar leiðir séu hugsanlega vænlegri til árangurs. Samráð foreldra og barna er afar mikilvægt. Lög tryggja ekki samráð og góð samskipti barna og foreldra. Við stöndum vissulega frammi fyrir vandamálum gagnvart unglingum í dag. Unglingadrykkja í þeim mæli sem tíðkuð er hér á landi er nánast einsdæmi í veröldinni. Það er vissulega alveg rétt. En við hverja er að sakast? Börn eru söm við sig. Þau eru alls ekki verri en áður, fjarri, fjarri því. Ástæðuna fyrir því að margir þeir sem vinna með unglingum á sviði félags-, heilbrigðis- og menntamála leggja til hækkun sjálfræðisaldursins úr 16 í 18 ár vil ég skilja svo að hækkunin eigi að áminna foreldra og samfélag um að taka meiri ábyrgð á uppeldi barnanna en verið hefur, annast þau betur. Við þurfum sem sagt að snúa þess rétt. Ég vil ekki að sjálfræðisaldurinn sé hækkaður vegna þess að ég vil ekki svipta hálffullorðið fólk í örum þroska réttinum til að ráða eigin málum að hluta. Úrræðin eru mörg til í því skyni að hafa góða reglu og skikk á ungmennum.

Það virðist hins vegar vera svo að allt of mörg börn fái ótímabært frelsi til ákvarðana og athafna 13--14 ára gömul. Þau fá aukið sigrúm of snemma. Eðlilegt væri að þetta svigrúm kæmi svona 16--17 ára, einmitt á því bili þegar þau eiga lögum samkvæmt að vera að fá hluta af lögræðinu. En þegar horft er upp á 13--15 ára börn í annarlegu ástandi vegna áfengisdrykkju, get ég ekki annað sagt en að fullorðna fólkið hefur slakað á taumnum of snemma. Það kann að þykja harður dómur. En hitt tel ég mig vita að börn vilja reglur þó þau biðji ekki beinlínis um þær.

Það kann að þykja harður dómur en það erum við, fullorðna fólkið, sem höfum undanfarin ár og áratugi verið of undanlátssöm og ekki gætt ábyrgðar okkar sem skyldi. Þess vegna er barnadrykkjan okkur að kenna. En nú ætlum við að taka okkur á. Við ætlum að gera bragarbót með því að taka sjálfræðið af 16--18 ára börnum ungmennum með lögum. Þetta er ekki rétt leið. Þetta er að stinga höfðinu í sandinn. Hækkun sjálfræðisaldursins nær ekki því markmiði sem að er stefnt. Sinni foreldrar ekki uppeldisskyldunni gagnvart börnum sínum til 16 ára aldurs, þá gerist það enn þá síður til 18 ára aldurs. Árangurinn verður líka enn þá síður nokkur.

[15:30]

Herra forseti. Samkvæmt upplýsingum fagaðila og meðferðaraðila er sjaldgæft að 16--18 ára ungmenni séu svipt sjálfræði. Þess hefur sem betur fer ekki gerst þörf. Af þessari ástæðu einnig skýtur skökku við að ætla nú að svipta þau öll á einu bretti sjálfræði með lögum, lögum sem eiga að taka gildi um næstu áramót.

Í máli sumra hv. ræðumanna í þessu máli hér hefur komið fram að allir eða flestir þeir umsagnaraðilar sem hingað hafa sent umsagnir, til hv. allshn. og í þingið, væru hlynntir hækkun. Það kann rétt að vera á margan hátt, en ástæðan er einnig samt sem áður sú að þetta fólk sér ekki aðra leið til að benda fullorðna fólkinu og löggjafanum á að eitthvað verður að breytast og meiri ábyrgð að vera tekin á ungu fólki.

Ég vil vitna í álit Lögmannafélag Íslands og undir það ritar framkvæmdastjóri Lögmannafélagsins, Marteinn Másson. Þetta berst vegna tveggja frv. um hækkun sjálfræðisaldurs úr 16 árum í 18 ár. Það segir hér reyndar að stjórn félagsins hafi hvorki fjallað efnislega um frv. né umsögnina, en í þessari umsögn laganefndar Lögmannafélags Íslands, segir, með leyfi forseta:

,,Hækkun á sjálfræðisaldri í 18 ár er að vissu leyti pólitískt mál. Grundvallarspurningin er hvort hækkun sjálfræðisaldurs í 18 ár þjóni tilgangi eða hvort beita beri öðrum aðferðum til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt.``

Síðar segir í sömu umsögn: ,,Segja má að viss rök geti mælt með því að samræmi sé í þessu efni milli innlendrar löggjafar og erlendrar [þ.e. um hækkun sjálfræðisaldurs] en hafa ber þó í huga að hér á landi hafa þróast aðrar venjur og hefðir um þátttöku unglinga í atvinnulífinu en annars staðar.``

Síðar segir svo, með leyfi forseta enn: ,,Auk samræmingar hafa verið færðar fram sem röksemdir í fyrsta lagi breyttar þjóðfélagsaðstæður frá fyrri hluta aldarinnar sem leiða af sér meiri þörf á að framlengja forsjárskyldur foreldra til að auka réttaröryggi barna þeirra og í öðru lagi þörf til að hafa virkari úrræði eða heimildir gagnvart þeim unglingum eldri en 16 ára sem ánetjast hafa fíkniefnum og áfengi.

Á móti má halda því fram að vandræðaástand í miðbæ Reykjavíkur og víðar og óheilbrigt líferni hóps unglinga eigi ekki að leiða til skerðingar á réttindum og skyldum þorra þeirra sem eru á aldrinum 16--18 ára og sem breytingunum er beint gegn.``

Ekki er þetta nú jákvæð umsögn með hækkun sjálfræðisaldursins. Og að síðustu þetta upp úr áliti Lögmannafélags Íslands, herra forseti:

,,Með hækkun sjálfræðisaldurs úr 16 í 18 ár færist réttur unglingsins til að ráða persónulegum högum sínum til foreldranna. Að sama skapi aukast skyldur foreldranna. Því má varpa fram til umhugsunar hvort þessi tilfærsla réttinda og valds, með þeim rökum sem sett hafa verið fram, eigi að leiða til víðtækari skoðunar á hinum ýmsu aldursmörkum er gilda um réttindi og skyldur barna og unglinga, svo sem saknæmisaldur, aldursmörk til að öðlast ökumannsréttindi o.s.frv.``

Ég vil geta þess einnig að unglingar hér á landi koma fyrr sem ábyrgir þátttakendur inn í atvinnulífið og þjóðlífið en gerist í flestum þeim löndum þar sem ég þekki lítils háttar til. Það hefur verið rætt undanfarin missiri á vettvangi Evrópuráðsþingsins sem vaxandi vandamál hve seint ungt fólk kemst til áhrifa í þjóðfélögum samtímans, að ungt fólk sé nánast afskiptur þjóðfélagshópur þegar tekur til málefna samfélaganna. Störfin sem unga fólkið fái séu minni háttar og ábyrg þátttaka þeirra í stefnumótun sé lítil og komi seint. Ég vil ekki að við fetum okkur gagnrýnislítið inn á þessa braut. Við eigum að taka aðra stefnu, fara aðra leið, auka ábyrgð barna og foreldra t.d. með aukinni áherslu á samráð og samskipti, hafa málþing, heyra hvað unga fólkið 16--18 ára hefur um þetta að segja o.s.frv., nálgast þetta gagnvart því sjálfu og foreldrum þess en ekki með þessari lagasetningu sem hér mun því miður að öllum líkindum verða ofan á.

En það mun koma í ljós, herra forseti, að ein og sér er þetta haldlítil aðgerð. Þetta er kattarþvottur. Vandinn sjálfur verður jafnóleystur og fyrr í málefnum barna og ungmenna.