Lögræðislög

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 16:09:06 (6333)

1997-05-13 16:09:06# 121. lþ. 123.40 fundur 410. mál: #A lögræðislög# (heildarlög) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[16:09]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Minn gamli oddviti, hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, flutti mjög áhrifamikla ræðu og fór vítt og breitt um söguna eins og hans er von og vísa. Hann hafði að sjálfsögðu rétt fyrir sér í mörgu af því sem hann sagði í þessu máli. Það verður samt að segjast eins og er að tímarnir hafa breyst meira en hann vill vera láta. Það sem hefur gerst á síðustu klukkustundum er m.a. það að afgreitt var til 3. umr. frv. um hollustuhætti og öryggismál á vinnustöðum þar sem í rauninni er samkvæmt EES-samþykktum verið að skerða rétt ungmenna undir 18 ára aldri til að ganga inn í venjulega samninga verkalýðsfélaga við vinnuveitendur. Það er verið að skerða rétt ungmenna til að fara á sjó og gangast undir samninga sjómannafélaga þannig að það er margt sem Alþingi hefur gert á undanförnum klukkutímum og er að verða að lögum sem er akkúrat í andstöðu við það sem hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson var að segja, að þingið sjálft er ekki bara að fá álit annarra aðila úti í bæ, jákvæðra aðila, eins og hann sagði sem leggja til þessar breytingar heldur hefur mér sýnst að þingheimur allur hafi þær hugmyndir uppi að gera það einnig.

Við skulum ekki gleyma því að þó svo við höfum alist upp við það frá blautu barnsbeini, flestir þeir sem hér eru inni, að vinna frá fermingaraldri, þá hefur margt breyst frá þeim tíma. M.a. hefur skólaganga lengst, börn eru lengur heima og eru meira á framfæri foreldra sinna en við þekktum þegar við ólumst upp. Ég held líka að við viljum ala börnin okkar aðeins öðruvísi upp en gert var hér áður þó ég sé ekki að segja neitt um það uppeldi annað en gott eitt. Þannig var tíðarandinn en breytingar hafa orðið gríðarlegar og það veit hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson.