Lögræðislög

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 17:04:42 (6339)

1997-05-13 17:04:42# 121. lþ. 123.40 fundur 410. mál: #A lögræðislög# (heildarlög) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[17:04]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Varðandi síðara atriðið, þá skil ég ekki af hverju það er ekki hægt. Að sjálfsögðu er hægt að setja í lög, mjög einfalt, að foreldrar og barnaverndarnefnd geti farið fram á að barn fái ekki sjálfræði við 16 ára aldur heldur verði því frestað til 17 eða jafnvel 18 ára aldurs. Ég skil ekki af hverju það er ekki hægt og ég hef ekki heyrt nein rök önnur en: ,,af því bara``. Þetta er ekki sjálfræðissvipting. Maðurinn hafði aldrei sjálfræði. Með nákvæmlega sömu rökum og menn eru að tala um að hægt sé að svipta 8 þúsund manns sjálfræði, þá hlýtur að mega svipta þennan eina mann sjálfræði í eitt eða tvö ár þannig að ég sé ekki rökin. Það er ekkert verið að mismuna mönnum. Þarna er ákveðin beiðni um að hann fái bara ekki sjálfræðið og það sé ég ekki annað en sé bara góð lausn og það mundi auðvitað hvetja þá unglinga sem eru í hættu. Þá yrði sagt við þá: ,,Heyrðu vinurinn, ef þú hegðar þér ekki skikkanlega, þá færðu ekki sjálfræði fyrr en 18 ára.`` Og þeir mundu keppa að því að hegða sér vel og fá sjálfræðið við 16 ára aldur.